Heimtilbúið flækjusprey (lúsasprey)

Það er eitt sem foreldrar grunnskólabarna geta treyst á og það er það að um leið og skólinn byrjar á haustinn byrja að koma reglulegir tölvupóstar frá kennurum og skólahjúkrunarfræðingi um að lús hafi fundist og mikilvægt sé að allir kembi.  Það er lítið annað hægt að gera en hlýða og kemba.  En það er talað um að lúsin hati Tea tree ilmolíu og hafa sumir tekið á það ráð að setja nokkra dropa af olíunni saman við sjampó sem fyrirbyggjandi aðferð.  Ég efast um að sé vísindalega sannað en flestir sem gera þetta fullyrða að það svínvirki.

Hér er ferðinni heimatilbúið hársprey sem gegnir hlutverki flækjuspreys þar sem hár dætranna flækist auðveldlega.  Þetta hársprey er samvinnuverkefni okkar mæðgnanna.   Stelpurnar byrjuðu sjálfar að blanda sér hársprey í sumar eftir að hafa horft á aðeins of mörg DIY myndbönd á Youtube en mér fannst hugmyndin strax frábær.   Eftir nokkrar tilraunir erum við komnar með uppskrift sem virkar vel.  Við bættum við Tea tree olíunni til að fyrirbyggja lúsasmit og Lavender olíunni svo spreyið lykti vel.   Vandinn við það að setja olíuna saman við sjampóið er kannski það  að litlu skvísurnar eru ekki að þvo sér um hárið á hverjum degi.  Það er töluvert meiri vörn í því að setja tea tree olíuna saman við hársprey sem er spreyjað yfir hárið á hverjum degi.

Hér kemur uppskriftin. 

  • 2,5 dl vatn
  • 3/4 dl hreint aloe vera sprey (ég notaði frá Forever)
  • Gott “skvís” af hárnæringu
  • 5 dropar Tea tree olía
  • 12 dropar Lavender olía (eða önnur olía sem lyktar vel)

 

Allt sett í brúsa og hann hristur vel.

Published by

Leave a Reply