Namminámskeið 2021

Jæja, tíminn flýgur og ég trúi því varla sjálf að það sé kominn nóvember strax. Það þýðir að namminámskeiðin taka völdin!

Ég hef verið með sama námskeiðið í gangi í nokkur ár, oft hugsað um að breyta en málið er bara að það námskeið finnst mér vera hið fullkomna nammi námskeið og það er ástæðan fyrir því að það er búið að ganga svona lengi. Þáttakendur læra að búa til æðislegar súkkulaði húðaðar konfektkúlur búnar til úr möndlumjöli og gráfíkjum eða trönuberjum, ilmandi karamellunammi þar sem við notum kókosmjólk, kókospálmasykur og hlynsýróp til að sæta og svo poppum við upp dökkt súkkulaði svo um munar. Hér má sjá afrakstur af einu slíku námskeiði í fyrra.

Aðeins eitt svona námskeið verður haldið í haust og það verður miðvikudaginn 24.nóvember kl. 18.00-20.00

En þar sem ég hef haldið þetta námskeið svo OFT langaði mig að búa til nýjar uppskriftir, einnig fyrir alla þá sem hafa þegar komið og langar að fá nýjar hugmyndir. Nýja námskeiðið verður haldið 16.nóvember (kl. 18.00-20.00) en hver veit nema ég bæti við annarri dagsetningu við í byrjun desember.

Á þessu námskeiði ætlum við að búa til nokkra geggjaða hluti sem sjást hér: Karamellurís, Dekur döðlur, Kókos kasjú trufflur og Snickers eða Lakkrís próteintrufflur. Ég held að það sé eitthvað fyrir alla til að njóta eftir þessa kvöldstund.

En þetta er ekki allt því síðasta vetur bjó ég til nýtt námskeið sem heitir “Næringarríkar tertur, eftirréttir og ís” og verður einnig bara eitt þannig námskeið 2.desember (sami tími 18.00-20.00)

Á þessu námskeiði ætlum við að búa til Tíramísú tertu (hægt að gera súkkulaði ef þú elskar ekki kaffi)
ÍS – val um að gera súkkulaði eða vanillu og Snickers bita.

En einnig fylgja með auka uppskriftir af fleiri tertum sem hægt er að gera síðar.

Hér er hægt að bóka pláss á námskeiðin en eins og sjá má er afsláttur ef bókuð eru fleiri en 1 námskeið 😉

https://heilsumamman.com/product-category/heilsumamman-is-namskeid/

Öll námskeiðin eru haldin í gegnum zoom. Nokkrum dögum fyrir námskeið færðu sendan innkaupalista, uppsrkriftir og undirbúningsplan þar sem kemur t.d. fram hvaða áhöld þú þarft að hafa tilbúin. Að morgni námskeiðisdags færðu sendan zoomlink til að smella á þegar komið er að námskeiðinu. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel hingað til og þau sem hafa prófað að koma á námskeið og hinsvegar sækja rafrænt námskeið eru öll sammála því að þetta rafræna stendur upp úr. Það er bara svo þægilegt að geta verið heima í sínu eldhúsi á námskeiði. Þú þarft ekki að fara út í kuldann, redda barnapössun eða keyra langar vegalengdir. Á móti geturðu boðið fjölskyldunni að taka þátt með þér og átt svo allt gotteríið sjálf/ur þegar námskeiðinu lýkur.

Að lokum má nefna það að allt sem við búum til er glúteinlaust, mjólkurlaust og hentar þeim sem eru vegan. Alltaf er hægt að nota eitthvað annað en hnetur í uppskriftir ef þú vilt búa til hnetulaust nammi. Við notum mest döðlur til að sæta en í einstaka tilfellum hlynsýróp eða kókospálmasykur. Eini hvíti sykurinn gæti mögulega leynst í dökka súkkulaðinu.

Ég minni á að mörg stéttafélög greiða allt að 50 % tilbaka af námskeiðisgjaldinu.

Öll námskeiðin verða tekin upp og því hægt að horfa síðar á upptökuna ef tíminn hentar þér ekki. Til þess að fá afrit af upptöku þarf að senda beiðni um það á heilsumamman@gmail.com

Hlakka til að sjá þig 🙂

Sjúklega góð súkkulaðiplata

Dökkt súkkulaði…er til eitthvað betra, ég bara spyr?

Ég hef notast nokkuð lengi við súkkulaðiuppskrift bæði heima og á namminámskeiðunum en mig langar oft í dekkra súkkulaði og svo er jú alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.  Oftast kaupi ég 70-85 % súkkulaði og finnst bara vanta allt súkkulaðibragð af því sem er ljósara.

Hér kemur mjög bragðgóð uppskrift af heimatilbúnu dökku súkkulaði sem ég hvet ykkur til að prófa.

heimagert súkkulaði

Hráefni:

  • 1,5 dl bráðið kakósmjör (bræðið við mjög lágan hita eða í vatnsbaði)
  • 1,5 dl kakó
  • 0,5-0,75 dl hlynsýróp
  • örlítið gott salt
  • örlítið vanilluduft
  • 1,5 dl gotterí ofan á plötuna eftir smekk, á myndunum er ég með goji ber, trönuber, mórber pekan hnetur og brasilíhnetur (aðrar góðar hugmyndir eru saxaðar möndlur, graskersfræ og kókosflögur)

Aðferð:

  1. Blandið súkkulaði hráefninu saman og leyfið blöndunni að kólna aðeins svo hún þykkni.
  2. Setjið blönduna í sílíkonmót eða hellið yfir bökunarpappír.
  3. Stráið yfir blönduna gotteríinu sem þið viljið nota.
  4. Stingið í ísskáp í ca. 30 mín eða í frysti í ca. 10 mín.
  5. Brjótið í litla (eða stóra) bita og setjið í skál og njótið í botn 🙂

 

Það er mjög þægilegt að nota sílíkonmót:

heimagert súkkulaði

Svo er bara að setja í fallega skál og njóta…..

heimatilbúið súkkulaði

Verði ykkur að góðu….

Amerískar súkkulaðibitakökur í hollari kantinum

Þessar eru hrikalega góðar og gefa keyptu transfitu-sykur kökunum ekkert eftir í bragði en eru töluvert betri fyrir kroppinn.   Ég hef bakað þær nokkrum sinnum en núna síðast þegar við fjölskyldan fórum í vikuferð í bústað í algera dekurferð og mig vantaði sárlega eitthvað hrikalega gott með morgunkaffinu mínu sem nota bene var oftast drukkið inni í rigningunni.  Ef það hefði verið sól og hiti hefði morgunkaffinu sennilega verið skipt út fyrir kælandi melónusneið 🙂  Það er ótrúlegt hvað veðrið hefur áhrif á fæðuval en það er önnur ella.

Amerískar súkkulaðibitakökur

Hráefni:

  • 150 gr kókosolía eða smjör
  • 1 dl  hrásykur (helst rapdura til að fá svona púðursykur-fíling)
  • 10 dropar af stevíu (eða 1/2 dl af hrásykri til viðbótar)
  • 2 egg
  • 2,5 dl spelt
  • 2,5 dl malaðar möndlur
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1,5 dl saxaðar hnetur (ég hef notað valhnetur en má nota t.d. heslihnetur, pecan eða jarðhnetur)
  • 150 gr 70 % súkkulaði  (ég hef líka notað 100 gr ef ég á ekki meira og það er bara í fínu lagi)

Aðferð:

  1. Bræða olíuna eða smjörið við lágan hita
  2. Þeyta saman egg og sykur og bæta svo olíunni saman við
  3. Blanda þurrefnunum saman
  4. Blanda þurru og blautu efnunum saman
  5. Bæta við hnetum og súkkulaði
  6. Baka í 10-12 mín við 180°C

Þetta er nokkuð stór uppskrift enda veitir ekki af þar sem þær klárast fljótt 🙂

Ca. 3 plötur / 40 kökur

Súkkulaðikaka sem þarf ekki að baka

Þessa köku gerðum við mæðgurnar um síðustu helgi þegar önnur þeirra fékk vinkonu í heimsókn.  Klukkan var að verða fjögur, ég mátti ekki vera að neinu eldhúsveseni en öllum langaði í eitthvað gott.  Hér kemur afraksturinn.  Þetta tók okkur uþb. 15 mín frá því við byrjuðum og þangað til kakan var komin á borðið.

IMG_4471

Vinkonunni og stelpunum fannst kakan svo góð að þær fengu sér allar 3 sneiðar sem mér finnst nú bara frábær meðmæli 🙂

Hér kemur uppskriftin:

  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli kókos
  • 1 bolli pecan hnetur
  • 4-5 msk kakó
  • dash af vanillu og himalayja salti
  1. Döðlurnar lagðar í bleyti í smá stund og svo maukaðar með töfrasprota.
  2. Pecan hneturnar malaðar
  3. Öllu hrært saman.
  4. Kakan mótuð, við ákvaðum að leyfa hugmyndafluginu að ráða og mótuðum hana sem hjarta.

Krem ofaná:

  • 5 msk kókosolía
  • 5 msk hlynsýróp
  • 5 msk kakó
  • örlítið af vanillu og smá himalayjasalt

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman, ekki bræða kókosolíuna, heldur hafið hana við stofuhita.
  2. Smyrjið kreminu á kökuna og kælið.
  3. Skrautið ofan á er kókosflögur og mórber (mulberry) en gæti verið hvað sem er t.d. fersk jarðaber nammi namm 🙂

Hér koma fleiri myndir af kökunni sem er sú allra vinsælasta

 

IMG_4518

IMG_4945

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Snickerskaka

Þessi kaka er alveg dáááááásamleg. Segi ekki meira 🙂  Hún virkar kannski eitthvað flókin en ég myndi segja svona max 20 mínútur í undirbúning.  Fyrirmyndin af þessari köku er uppskrift frá Heilsuhúsinu en ég er búin að gera þónokkrar breytingar og birti hér mína útgáfu.

IMG_4349

Botn:

  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1/2 bolli möndlur
  • 1/2 bolli pecan hnetur

Millilag:

  • 2 dl hnetusmjör (án sykurs)
  • 2 msk kókosolía
  • 2 msk hlynsýróp

Ofan á:

  • 6 msk kakó
  • 6 msk hlynsýóp
  • 6 msk kakósmjör
  • 6 msk kókosolía
  • 3 msk jarðhnetur

IMG_4385

Aðferð:

  1. Leggjið dölurnar í bleyti í smástund og maukið svo með töfrasprota.
  2. Malið hneturnar og möndlurnar og blandið saman við döðlurnar ásamt kókosmjölinu.
  3. Setjið botninn í kökumót (fínt að nota bökunarpappír í botninn).
  4. Blandið vel saman hnetusmjöri, kókosolíu og hlynsýrópi  og dreifið ofan á botninn og kælið.
  5. Bræðið kakósmjörið við mjög lágan hita og blandið öllu saman, bætið jarðhnetunum út í súkkulaðið og hellið yfir kökuna.
  6. Kælið í ca. 30 mín og njótið 🙂

Það er líka sniðugt að skera hana í litla bita og hafa sem nammi. 

Það eru örugglega margir sem fara að spá hvað sé mikið af hitaeiningum í svona köku en það flotta er að maður er pakksaddur eftir eina sneið svo magnið verður aldrei mikið!

Verði ykkur að góðu og eigið góðan sunnudag 🙂

Hin fullkomna íssósa sem harðnar

Hér er hún mætt, hin fullkomna íssósa.  Það sem er svo fullkomið við hana, fyrir utan bragðið auðvitað er það að hún harðnar en er samt líka mjúk á sama tíma.  Málið er það að ef ísinn er mjög kaldur (eins og heimagerði ísinn er oft) þá harðnar hún ofan á ísnum, en þar sem hún liggur meðfram ísnum er hún mjúk.

IMG_3915

Þetta leysir líka vandamálið að bíða eftir að ísinn þiðni því heimagerði ísinn er oft vel frosin, því þar sem heit sósan lendir á ísnum mýkist hann miklu fyrr.

Þar fyrir utan er þessi íssósa er líka súper holl með engum gerviefnum og engum hvítum syrki.  Þetta er í raun uppskrift af heimagerðu súkkulaði sem er bara hellt yfir ísinn í stað þess að vera sett í mót og inn í kæli.

Hér er uppskriftin:

  • 2 msk  kakó
  • 2 msk kókosolía
  • 2 msk hlynsýróp/agave/akasíu hunang
  • 2 msk kakósmjör
  • örlítið salt og smá vanilla

Aðferð:

  1. Allt hitað rólega saman og hellt yfir ísinn.
  2. Ef það er afgangur (mjög ólíklegt) þá má setja hann í t.d. lítil sílíkonmót og inn í frysti

IMG_3904

 

Kakósmjör fæst t.d. í Bónus í Solluhillunni

IMG_3906

Ath. þar sem uppskriftin samanstendur af jafn miklu magni af öllum innihaldsefnunum er mjög auðvelt að gera hvaða magn sem er.  Ef uppskriftin er handa einum mætti nota 1 tsk af öllu.  Þessi uppskrift hér að ofan ætti að duga fyrir 4…en fer auðvitað eftir (súkkulaði)lyst 🙂

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂