Hér kemur uppskrift sem ég fékk fyrir þó nokkru síðan en steingleymdi að setja hér inn. Uppskriftina fékk ég frá henni Bjarnýju Björgu Arnórsdóttur, sem er framkvæmdastjóri hjá Via health. Í opnunarpartýinu þeirra var þrælgóður eftirréttur í boði, að sjálfsögðu sykurlaus en sættur með stevíu. Í botninum var súkkulaðimúslí, þar ofan á grísk jógúrt og efst fersk jarðaber og örlítið súkkulaði. Ég bað Bjarnýju um uppskriftina af múslíinu og fékk jafnframt leyfi til að birta hana hér svo fleiri geta notið.
Múslíið er hér á bæ er oftast notað í morgunverð og jafnvel sem seinnipartsmillimál hjá yngri kynslóðinni því það er svo hrikalega gott. Ég á því miður enga mynd af múslíinu í eftirréttarbúningi en bæti úr því fljótlega.
Hráefni:
- 8 dl Tröllahafrar
- 4 dl kokosflögur
- 3 dl möndlur (heilar með hýði, saxaðar)
- 4 dl döðlur
- 2 dl vatn (döðlur og vatn sett saman í pott með loki og suðunni hleypt upp. Slökkt undir og leyft að standa i smá stund)
- 1 dl kakóduft
- 15 dropar af Via Health vanillu stevia
- 5 msk kókosolia
- 1 tsk vanilluduft
- 1 tsk kanill
- smá cayennepipar og nokkur saltkorn (ekta salt… ekki eitthvað drasl borðsalt. Helst himalayasaltið)
Aðferð:
- Öllum þurrefnunum blandað saman og sett til hliðar.
- Öll blautu efnin sett í matvinnsluvél og maukuð saman.
- Hellið soffunni yfir þurrefnin og blandið vel saman. Ágætt að fara í hanska og nota hendurnar til að hnoða saman.
- Skipt í tvennt og dreift í tvær ofnskúffur.
- Bakið við 150° -180° í ca 10-15 min. Það er mikilvægt að hræra reglulega.
- Slökkva svo á ofninum og gera smá rifu… leyfa muslíninu að standa inn þangað til ofninn er orðinn kaldur. Þá verður það stökkt og fínt. (Athugasemd frá mér: Ég hef reyndar tekið skúffurnar bara út því ég hef svo oft þurft að nota ofninn aftur og það hefur bara komið mjög vel út líka).
Hér er súkkulaði múslíið í morgunverð ásamt mangó-avakadó “jógúrti”
Verði ykkur að góðu 🙂