Uppáhalds smákökurnar

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft ég hef bakað þessar kökur.   Það er í raun alveg óskyljanlegt af hverju uppskriftin er ekki þegar á blogginu.  Við erum að tala um að  þegar fjölskyldan fór til Svíþjóðar fyrir tveimur árum bakaði ég 10-falda uppskrift af þessum kökum.   Já ég er ekki að grínast… þið haldið væntanlega núna  að ég sé alveg gúgúgaga en fyrir vikið við áttum alltaf til fullkomið nesti, hvort sem það var á flugvellinum, í Gröna Lund eða bara með morgunkaffinu.  Síðan þá (og einnig fyrir þann tíma) hafa þessar kökur verið bakaðar fyrir hin ýmsu tilefni og mjög oft þegar þarf að redda nesti á núll -einni.  Því fyrir utan að vera þræl góðar þá eru þær alveg þrusu fljótlegar líka.  Þessar kökur eru því tilvaldar í nesti í sumar hvort sem það er í millilandaflug eða í lautarferð.

Hráefni:

1 dl kókosolía (brædd)

1 dl kókospálmasykur (má líka hafa 50/50 Kókospálmasykur og Stevíu strásætu)

1 egg

1 tsk vínsteinslyftiduft

2 dl möndlumjöl

1 dl kókosmjöl

1/2 tsk salt

50 g dökkt súkkulaði, saxað

1/2 dl sólblómafræ

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna t.d. með því að setja rétt magn í glas eða krukku og setja það ofan í annað ílat með heitu vatni.
  2. Saxið súkkulaðið.
  3. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel saman.
  4. Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið.
  5. Bakið í 10-12 mín við 180°c

 

Eins og sést á hráefnislistanum eru þessar ljúfu smákökur bæði mjólkur- og glúteinlausar.

Verði ykkur að góðu 🙂

Svo má minna á að ennþá eru örfá sæti laus á síðasta námskeiðið fyrir sumarfrí: Sumarleg sætindi, sem verður næsta mánudag í Spírunni.   Allar nánari upplýsingar eru að finna  hér  

Eggjahræra með kínóa og kóríanderpestói

Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat.  Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA.  Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin!   Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.

hádegismatur

Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).

Hráefni:

  • soðið kínóa
  • egg
  • kókosolía
  • góð ólífuolía
  • salt og pipar
  • steinselja
  • grænmeti af eigin vali

(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
  2. Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
  3. Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
  4. Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda  því ekki alveg saman  heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
  5. Stráið fersku steinseljunni yfir.
  6. Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
  7. Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum.  Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.

Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.

Dásamlega gott kóríander pestó

  • 1 dl kóríander (ferskt)
  • 1/2 dl pekanhnetur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 lime (safinn) – má vera minna
  • 1 dl kaldpressuð ólífuolía
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
  2. Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Karrý kókos grænmetissúpa

Bragðgóð, einföld og fljótleg súpa í miðri vikunni.  Það er virkilega gott að nota bakað grænmeti svo endilega næst þegar þið bakið grænmeti, takið smá til hliðar og búið til súpu næsta dag.  Þessi súpa er líka tilvalin mánudagssúpa, ef þið eigið bakað grænmeti í ísskápnum frá helginni.  Það er líka tilvalið að bæta kjúkling eða fisk saman við súpuna, allt eftir smekk hvers og eins.

karrý kókos grænmetissúpa

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 tsk tandoori krydd eða önnur góð kryddblanda
  • 4 dl bakað grænmeti (sellerírót, sætar kartöflur og gulrætur í aðalhlutverki)
  • 6-7 dl vatn
  • 1/2 rauð paprika í litlum bitum
  • 1 dl kókosmjólk
  • 1 grænmetiskraftur
  • væn lúka steinselja
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíu í potti.
  2. Setjið kryddið í pottinn og leyfið því að malla aðeins í olíunni.
  3. Setjið bakaða grænmetið saman við og veltið upp úr kryddblöndunni.
  4. Bætið við vatni, kókosmjólk og grænmetiskrafti.
  5. Bætið paprikunni  og steinseljunni saman við.
  6. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur en svo er gott að leyfi henni að standa aðeins, hún verður enn betri þannig.

Það er langbest að eiga til afgang af bökuðu grænmeti því þá tekur matseldin mjög stuttan tíma. Það má líka brytja grænmeti niður og sjóða með súpunni en það kemur bara sérstaklega gott bragð ef notað er bakað grænmeti. Ef þið eigið ekki til afgang af bökuðu grænmeti, skerið þá niður 1/2 sellerírót, 1/2 sæta kartöflu og 2 gulrætur og bakið í ofni í 25 mín v/ 200°c.

fullsizerender6

Verði ykkur að góðu 🙂

Ofurhollar smákökur fyrir þá sem nenna ekki að baka

Snilldar smákökur frá vinkonu minni henni Steinunni Aðalsteinsdóttur, oftast kennd við Heilsuhótelið í Reykjanesbæ.  Í síðustu viku var þar haldin mjög fróðlegur fyrirlestur um meltinguna.  Fyrirlesarinn var Chad Keilen sem vinnur á Heilsuhótelinu.  Hann er með BSc í Heilsuvísindum og alger sérfræðingur sem gaman er að hlusta á.  Hann útskýrði hlutina á mannamáli og var t.d. með kaðal til að sýna okkur hversu langur ristillinn er, mjög sjónrænt og fræðandi.  Hann gaf okkur mörg góð ráð hvernig hægt er að styðja við betri meltingu með einföldum ráðum.

Í hléinu bauð hún Steinunn upp á þessar sérlega hollu smákökur sem þarf ekki að baka og tekur mjög stuttan tíma til að búa til og bragðlaukarnir verða ekki fyrir vonbrigðum.

photo (3)

Hráefni:

  • Perur (mjög sniðugar þessar litlu lífrænu sem fást á mörgum stöðum núna)
  • Hnetusmjör (eða möndlusmjör)
  • Hampfræ
  • Dökkt súkkulaði

Aðferð:

  1. Skerið peruna í sneiðar (Hér má að sjálfsögðu skipta út perunum fyrir epli)
  2. Setjið ca hálf teskeið af hnetusmjöri
  3. Stráið hampfræjunum yfir (ef ykkur þykir þau spes á bragðið ein og sér, passa þau dásamlega í þessari samsetningu)
  4. Skerið súkkulaði í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja “köku”
  5. Borðið strax 🙂

Ofangreindur fyrirlestur var liður í fjáröflun fyrir Helenu og Emelíu en þær eru dætur Chad og Rutar, eiginkonu hans.  Þær eru mjög mikið veikar, þurfa aðstoð allan sólarhringin og nú er það orðið svo að Emelía fær allt að 100 flog á dag.  Ástæða söfnunarinnar er Ameríkuför fjölskyldunnar til að leita frekari lækninga úti þar sem ekki er hægt að gera meira fyrir þær systur hér á Íslandi.  Þau þurfa sjálf að leggja út fyrir þessari kostnaðarsömu ferð.  Ég hvet ykkur til að kíkja á síðu söfnunarinnar!

Kjúklingavefja með mangósósu

Þægilegur, fljótlegur og sumarlegur kvöldmatur … tja eða bara hádegismatur 🙂

Þetta er ekki flókin uppskrift en við erum oft með eitthvað svona í matinn, sérstaklega um helgar.

Hráefni:

  • Tortillur:  keyptar eða bakaðar, ef ég næ ekki að baka sjálf kaupi ég yfirleitt spelt eða maístortillur frá Drangabakstri
  • Kjúklingur: steiktar bringur eða rifin niður heill kjúklingur
  • Grænmeti að eigin vali
  • Mangósósa

IMG_5878

kjúklingavefja

Hér koma svo 2 uppskriftir af mismunandi mangósósum:

Mangósósa I :

  • 2,5 dl grísk jógúrt (eða majones ef það er mjólkuróþol)
  • 2-4  msk mangó chutney
  • ca 0,5 – 1 tsk smátt brytjað engifer (fer eftir smekk hversu mikið þið setjið)

# Ef þið eruð með þykkri gerðina af grískri jógúrt þá mæli ég með því að setja 2-3 msk af ólífuolíu (grænni) 

Mangó-karrýsósa: 

  • 2,5 dl grísk jógúrt (eða majones)
  • 1 dl smátt saxað vel þroskað mangó
  • 3 tsk karrý eða góð karrýblanda (madras eða önnur góð)
  • 1 msk hlynsýróp

Súkkulaðikaka sem þarf ekki að baka

Þessa köku gerðum við mæðgurnar um síðustu helgi þegar önnur þeirra fékk vinkonu í heimsókn.  Klukkan var að verða fjögur, ég mátti ekki vera að neinu eldhúsveseni en öllum langaði í eitthvað gott.  Hér kemur afraksturinn.  Þetta tók okkur uþb. 15 mín frá því við byrjuðum og þangað til kakan var komin á borðið.

IMG_4471

Vinkonunni og stelpunum fannst kakan svo góð að þær fengu sér allar 3 sneiðar sem mér finnst nú bara frábær meðmæli 🙂

Hér kemur uppskriftin:

  • 1 bolli döðlur
  • 1 bolli kókos
  • 1 bolli pecan hnetur
  • 4-5 msk kakó
  • dash af vanillu og himalayja salti
  1. Döðlurnar lagðar í bleyti í smá stund og svo maukaðar með töfrasprota.
  2. Pecan hneturnar malaðar
  3. Öllu hrært saman.
  4. Kakan mótuð, við ákvaðum að leyfa hugmyndafluginu að ráða og mótuðum hana sem hjarta.

Krem ofaná:

  • 5 msk kókosolía
  • 5 msk hlynsýróp
  • 5 msk kakó
  • örlítið af vanillu og smá himalayjasalt

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman, ekki bræða kókosolíuna, heldur hafið hana við stofuhita.
  2. Smyrjið kreminu á kökuna og kælið.
  3. Skrautið ofan á er kókosflögur og mórber (mulberry) en gæti verið hvað sem er t.d. fersk jarðaber nammi namm 🙂

Hér koma fleiri myndir af kökunni sem er sú allra vinsælasta

 

IMG_4518

IMG_4945

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂