Valhnetukúlur

Æðislegar kúlur, bæði fyrir helgina og ekki síður til að gera vel við sig í hversdagsleikanum.  Krakkarnir eru vitlausir í þessar kúlur og þær hverfa alltaf mjög hratt.  Valhnetur eru svo hollar fyrir hjartað að þær mættu næstum kallast “lyf” (sjá athyglisverða grein) svo að við tölum nú ekki um hversu frábærar þær eru fyrir heilann og það er sko eins gott að vera með hann í lagi!

IMG_4135 - CopyHráefni:

  • 1 bolli valhnetur (1 poki frá himneskt)
  • 1 bolli döðlur
  • 1/2 bolli kókos
  • 1/3 bolli rúsínur
  • 4-5 msk kakó
  • örlítið himalayjasalt

Aðferð:

  1. Malið valhnetur
  2. Maukið döðlur (gott að liggja í bleyti í ca 20-30 mín)
  3. Blandið öllu saman.
  4. Veltið upp úr kókos.
  5. Kælið og njótið 🙂

Klassíski morgunsjeikinn

Hér er uppskrift af hinum klassíska morgunsjeik á þessu heimili.  Þó að ég sé alltaf að prufa eitthvað nýtt og mismunandi hvað fer í blandarann eftir því hvað er til hverju sinni þá er þessi gamli góði mjög oft gerður.  Góður á morgnana þegar hlutirnir þurfa að ganga hratt og hægt að gera hann næstum blindandi.  Yfirleitt geri ég hann þykkan og  hann er borðaður með múslí. Ef hann er í seinnipartshressingu er hann þunnur  (bætt við smá vatni) og drukkin með röri, en það er einmitt mjög mikilvægt 😉

IMG_3921

(Handa 5 manna fjölskyldu)

Hráefni:

  • 3 bollar ber og ávextir (bláber/jarðaber/ananas eða mangó)
  • 2 bollar vatn
  • 2 lúkur möndlur (búnar að liggja í bleyti yfir nótt)
  • 1 lúka af grænkáli eða spínati
  • 3-6 msk af eftirtöldu(eftir því hvað hendi er næst): möluð hörfræ, möluð graskersfræ, hveitikím, hampfræ
  • 1 msk hunang (ef þarf – fer eftir því hversu mikið af fræjum fer út í)

IMG_3930

Aðferð:

Ég byrja á því að setja möndlurnar í blandarann ásamt smá vatni og blanda vel í smástund áður en ég set restina út í.  Þar sem ég á ekki svona súper dúper blandara þá set ég ekki allt í einu heldur set hráefnið í blandarann í nokkrum lotum.  Ég enda alltaf á græna kálinu og hörfræjunum/ graskersfræjunum.  Ef þið notið hveitikím á að setja það út í bara alveg í lokin og helst bara rétt að hræra því saman við.

Það er mjög sniðugt að setja smá drykk í lítið glas og bæta út í hinu og þessu súperfæði, t.d. bee pollen, hveitigras, spirulina, klórellu eða eitthvað annað og skella í sig.  Sannkallað orkuskot 🙂

IMG_3929

Verði ykkur að góðu 🙂

Kínóaréttur frá Mexíkó

Tvö af uppáhaldshráefnunum mínum koma hér saman í ótrúlega bragðgóðum rétt.  Þessi réttur sem er svo einfaldur og góður getur bæði verið sem aðalréttur, meðlæti með t.d. kjúkling eða öðrum mexíkómat, það mætti nota hann sem fyllingu í tortillur, borða kalt daginn eftir og svo lengi mætti telja.

Ég sýð oft slatta af kínóa í byrjun vikunnar og reyni alltaf að eiga svartar baunir inni í frysti.  Svo í síðustu viku þegar ég tók þessa mynd tók aðeins um 10 mínútur að búa réttinn til.  Já það þarf ekki að vera tímafrekt að búa til hollan mat 🙂

IMG_3938

Hráefni:

  • 1 tsk olía
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 dl af maísbaunum (má líka nota 1 gula papriku)
  • 2 dl svartar baunir
  • 1 (rúmlega) tsk cumin (ekki kúmen)
  • 1 tsk paprika
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • 6 dl soðið kínóa
  • salt og pipar
  • 1 lúka af ferskum kóríander

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu og látið laukinn malla við lágan hita þangað til hann er orðin mjúkur. Bætið við hvítlauk og papriku (ef þið notið hana).
  2. Bætið við öllum kryddum, baunum og kínóa.
  3. Kryddið eftir smekk og skreytið með fersku kóríander.
  4. Tilbúið 🙂

Þessa uppskrift fann ég hér og ákvað að prufa þegar ég sá að 2487 manns höfðu skrifað ummæli og gefið 41/2 stjörnu 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Indverskur grænmetispottréttur

Þessi réttur er virkilega góður, frekar fljótlegur, ódýr og umfram allt mjög hollur 🙂

Krakkarnir borða yfirleitt vel og sérstaklega er það hvítlauksbrauðið sem slær í gegn.  Ég hef prufað hann nokkrum sinnum og kemur alltaf vel út, ég hef notað mismunandi grænmeti en þegar þessi mynd var tekin var ég með blómkál, tómata, gulan lauk og græna papriku. Í gær var ég með þetta á boðstólnum og þá notaði ég blómkál, rauðlauk, gulrætur og brokkolí.  Bæði var mjög gott og aðrar útfærslur sem ég hef gert líka svo það er um að gera að nota bara það sem er til í skápnum.

IMG_3587

Hráefni:

  •  Blómkál, 1 haus
  • 1 laukur / rauðlaukur
  • 2 tómatar (má líka vera 2 gulrætur)
  • (má líka bæta við brokkolí eða grænni papriku, allt eftir smekk)
  • 1 msk kókosolía
  • 1 msk curry paste (ég nota frá Patkas)
  • 1 msk smátt saxað engifer
  • 1 msk grænmetisteningur
  • 1 dl kókosmjólk
  • fersk steinselja

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíu á pönnu ásamt kryddmaukinu og engiferinu.
  2. Þegar það er orðið heitt er laukurinn settur á pönnuna og hitaður vel og svo er grænmetinu bætt út í.
  3. Þegar það er orðið vel heitt í gegn (ef það er of mikill hiti á pönnunni er gott að setja smá vatn svo það brenni nú ekki við botninn) má setja kókosmjólkina út í ásamt grænmetiskraftinum og leyfa þessu að malla í nokkrar mínútur og gott að baka brauðin á meðan.
  4. Steinseljan sett út í þegar pannan er komin af hellunni

IMG_3585

Hvítlauks – nan brauð:  Ég notaði tortillu uppskriftina en minnkaði aðeins speltið en bætti við hveitikím og sesamfræ í staðinn.  Þessi bakstur var mjög fljótlegur því ég hafði brauðin frekar þykk og óregluleg.  Þegar ég var búin að baka þau penslaði ég þau með hvítlauksolíu.  Þau vöktu þvílíka lukku.

Verði ykkur að góðu 🙂

Ódýr og einföld súkkulaðikaka

Þemað núna í janúar er ódýrt þar sem flestir hafa sennilega eytt vel í mat í síðasta mánuði.  Þessi kaka er ótrúlega einföld, góð og ódýr.  Ég fékk uppskriftina hjá vinkonu minni en er búin að minnka aðeins sykurinn og nota spelt í stað þess að nota hvítt hveiti.  Virkilega góð sunnudagskaka.

 IMG_3563

Hráefni:

  • 2 egg
  • 1,5 dl hrásykur
  • 0,75 dl olía (ég nota oftast kókosolíu, vínberjakjarnaolíu í dökkri flösku eða lífræna sólblómaolíu)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl kakó
  • 2 dl sterkt kaffi (líka gott að setja heitt vatn eða mjólk)
  • 3,5 dl spelt (fínt og gróft til helminga)
  • 3/4 tsk salt
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið saman egg, sykur og vanillu og bætið svo olíunni saman við.
  2. Blandið saman kakói og vökva.
  3. Hellið kakóblöndunni út í eggjablönduna.
  4. Blandið saman spelt, salti og lyftidufti og hrærið samann við kakóblönduna.
  5. Setjið í lausbotna form 26 cm (best að fóðra með bökunarpappír) og baka í 20-25 mín við 200°C

Ofan á finnst mér best að leggja plötu af 70 % súkkulaði og leyfa henni að bráðna á heitri kökunni og slétta svo úr.  Set yfirleitt smá af kókosolíu  (1 tsk – 1 msk) svo kremið verði ekki grjóthart og brotni í allar áttir þegar kakan er skorin.

IMG_3570

Það er sérstaklega gott að gera þessa köku með sterku expresso kaffi en kannski betra að nota vatn eða mjólk (möndlu, rís, hafra, eða venjulega) ef kakan er bökuð fyrir lítil börn. 

Verði ykkur að góðu 🙂

Flensusúpan (Indversk grænmetissúpa)

Hér kemur uppskrift af krassandi flensusúpu.  Það er ekkert betra en að fá eitthvað heitt og gott í kroppinn þegar maður liggur með flensu.  Í síðustu viku lá öll fjölskyldan lasin og ég eldaði þrisvar sinnum súpu (mismunandi) og passaði að hafa alltaf stóra skammta svo það væri nógur afgangur.  Hér áður fyrr þegar ég var barnlaus skrifstofuskvísa þá fannst mér það alltaf góð hugmynd að panta pizzu þegar ég var lasin (sem var reglulega) og mér fannst að þegar ég væri veik mætti ég borða fullt af nammi og súkkulaðikexi í “sárabætur”.  Nú er ég sem betur fer búin að læra það að gefa líkamanum almennilegt bensín þegar hann er að berjast við kvef eða flensu.  En aftur að súpunni,

IMG_3005

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 3 cm engifer
  • 1 væn tsk curry paste
  • 1 tsk cumin
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 2 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk kókospálmasykur, mango chutney eða önnur sæta
  • 2 msk tómatpuré
  • Grænmeti að eigin vali – t.d. í síðustu viku:  rauð paprika, græn paprika, gulrætur, sellerí, púrra.  örugglega gott að vera með blómkál líka, bara eftir smekk og lagerstöðu í grænmetisskúffunni.
  • Vatn, 1 líter (eða eftir smekk)
  • Steinselja (ef hún er til)

Aðferð:

  1. Hitið pott, bræðið kókosolíuna og svitið laukin aðeins.
  2. Bætið við hvítlauk, engifer, curry paste og kryddunum og blandið vel saman við meðal hita.
  3. Bætið við grænmetinu og leyfið því að veltast aðeins í kryddunum, bætið svo vatninu út í ásamt kraftinum og svo því sem eftir er.  Látið malla í ca 15 mín.
  4. Smakkið til og kryddið eftir smekk og stráið steinselju yfir ef hún er til.  Svona súpa finnst mér reyndar best daginn eftir þegar kryddin eru búin að jafna sig.

Fyrir utan það að fá sér súpu sem hitar manni að innan þá búa laukur, engifer, hvítlaukur og turmerik  búa yfir “lækninga” krafti og því um að gera að nota það mikið bæði þegar maður er veikur og sem forvörn.

Verði ykkur að góðu 🙂