Flensusúpan (Indversk grænmetissúpa)

Hér kemur uppskrift af krassandi flensusúpu.  Það er ekkert betra en að fá eitthvað heitt og gott í kroppinn þegar maður liggur með flensu.  Í síðustu viku lá öll fjölskyldan lasin og ég eldaði þrisvar sinnum súpu (mismunandi) og passaði að hafa alltaf stóra skammta svo það væri nógur afgangur.  Hér áður fyrr þegar ég var barnlaus skrifstofuskvísa þá fannst mér það alltaf góð hugmynd að panta pizzu þegar ég var lasin (sem var reglulega) og mér fannst að þegar ég væri veik mætti ég borða fullt af nammi og súkkulaðikexi í “sárabætur”.  Nú er ég sem betur fer búin að læra það að gefa líkamanum almennilegt bensín þegar hann er að berjast við kvef eða flensu.  En aftur að súpunni,

IMG_3005

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 3 cm engifer
  • 1 væn tsk curry paste
  • 1 tsk cumin
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 2 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk kókospálmasykur, mango chutney eða önnur sæta
  • 2 msk tómatpuré
  • Grænmeti að eigin vali – t.d. í síðustu viku:  rauð paprika, græn paprika, gulrætur, sellerí, púrra.  örugglega gott að vera með blómkál líka, bara eftir smekk og lagerstöðu í grænmetisskúffunni.
  • Vatn, 1 líter (eða eftir smekk)
  • Steinselja (ef hún er til)

Aðferð:

  1. Hitið pott, bræðið kókosolíuna og svitið laukin aðeins.
  2. Bætið við hvítlauk, engifer, curry paste og kryddunum og blandið vel saman við meðal hita.
  3. Bætið við grænmetinu og leyfið því að veltast aðeins í kryddunum, bætið svo vatninu út í ásamt kraftinum og svo því sem eftir er.  Látið malla í ca 15 mín.
  4. Smakkið til og kryddið eftir smekk og stráið steinselju yfir ef hún er til.  Svona súpa finnst mér reyndar best daginn eftir þegar kryddin eru búin að jafna sig.

Fyrir utan það að fá sér súpu sem hitar manni að innan þá búa laukur, engifer, hvítlaukur og turmerik  búa yfir “lækninga” krafti og því um að gera að nota það mikið bæði þegar maður er veikur og sem forvörn.

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

One thought on “Flensusúpan (Indversk grænmetissúpa)

Leave a Reply