Hamp chia grautur

Frábær morgunverður sem tekur enga stund að útbúa.  Þetta er uppáhaldið þessa dagana.  Það má líka setja meiri vökva, setja á flösku og taka með sér í nesti.  Ég gerði það í gær þegar ég hafi 0 mín fyrir hádegismat.   Ég fór á svakalega fræðandi og skemmtilega ráðstefnu um meltingarflóruna.  Algerir snillingar með fyrirlestra og hausin er enn að snúast í hringi og finna hugmyndir hvernig hægt er að bæta flóru fjölskyldunnar 😉

En aftur að grautnum,

Hamp chia grautur

Hráefni:

 • 2 msk chia fræ
 • 2 msk hampfræ
 • 2 dl vatn/möndlumjólk eða önnur mjólk/vökvi að eigin vali
 • 3 dropar stevía (eftir smekk)
 • kanill (líka eftir smekk)
 • Ávextir að eigin vali =  ég er á myndinni með mangó og perur
 • Gúmmilaði til að strá yfir að eigin vali =  ég er með mórber, goji ber og kakónibbur (blanda sem ég elska bæði út á grauta og í heimagert súkkulaði)

Aðferð:

 1. Setjið fræin í bleyti (nóg 10 mín en má vera yfir nótt)
 2. Bætið ávöxtum við og stráið gúmmilaði yfir

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Gojiberja ofurnammi

Mmmmm, þetta er algert ofurnammi.  Goji berin eru svo góð fyrir ónæmiskerfið og valhneturnar stútfullar af omega-3 fyrir heilabúið.  Krakkarnir mínir eru alveg vitlaus í þetta og góð tilbreyting frá öllu súkkulaðinamminu ég geri oft.  Þetta er önnur útgáfa af Valhnetukúlunum.

Ofur gojiberja nammiHráefni:

 • 1 bolli Valhnetur
 • 1/2 bolli möndlur
 • 1/2 bolli Kókosmjöl
 • 2 msk Goji ber
 • 1 bolli Döðlur
 • örlítið himalayjasalt

Aðferð:

 1. Leggjið dölurnar og goji berin í bleyti og maukið svo með töfrasprota.
 2. Malið valhneturnar og möndlurnar og blandið saman við kókosmjölið.
 3. Blandið öllu vel saman og mótið kúlur.
 4. Veltið upp úr kókos eða einhverju öðru og kælið.

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaði-hrískökur með skrauti

Nammið sem sló í gegn á okkar heimili síðastliðið föstudagskvöld.  Það var líka heilmikið sport hjá heimasætunum að búa það til sjálfar.  Þetta er svo skemmtileg hugmynd og hægt að leika sér með hana endalaust 🙂

Súkkulaði-hrískökunammi

Hráefni:

Hrískökur  (ég notaði Lífrænar frá Sollu)

Súkkulaði (annaðhvort bræða súkkulaði eða búa til sitt eigið)

Skraut (ég brytjaði niður kókosflögur, Goji ber, Pecan hnetur og rúsínur)

Aðferð:

Ég bjó til súkkulaði, hér er uppskriftin:

5 msk kakó

5 msk kakósmjör

5 msk agave sýróp

2 msk kókosolía

(þetta dugði á 10-11 hrískökur)

Súkkulaði-hrískökur með skrauti

Kakósmjörið látið bráðna yfir vatnsbaði og svo öllu blandað saman.  Ég lét súkkulaðið bíða og þykkna aðeins áður en það fór á hrískökurnar. Ef það er of þunnt rennur það bara í gegnum hrískökurnar.  Það má líka bræða dökkt súkkulaði, það er fljótlegra 🙂

Það má setja hvað sem er ofan á, bara láta hugmyndaflugið ráða.

Súkkulaði-hrískökur með skrauti

Það var pínu fyndið að önnur dóttir mín harðneitar að borða hnetur (þ.e.a.s. ef þær eru sýnilegar) og hin hefur hingað til harðneitað að smakka Goji ber (drekkur þau samt oft í smoothie án þess að vita af því ) 🙂
En þegar þetta tvennt var orðið skraut þá var það svo spennandi og var borðað með bestu lyst.

Verði ykkur að góðu 🙂

Bleikur skvísu sjeik

Þessi er ægilega fallegur og frísklegur.  Það er yfirleitt alltaf sjeik í seinnipart kaffitíma hjá okkur og allir mjög sáttir við það.  Þeir eru mismunandi á litinn og þennan daginn vildu prinsessurnar á heimilinu fá flottan bleikan sjeik.

Full kanna, fyrir ca. 4

 • Kókosvatn (eða vatn)
 • 2 græn epli
 • ca 500 gr af berjum, ég notaði frosin: Kirsuber, jarðaber, bláber, hindber
 • 3 msk Möluð hörfræ
 • 3 msk hveitikím
 • 2 msk olía hörfræolía eða Kókosolía (ath. ef drykkurinn er mjög kaldur fer kókosolían öll í litla kekki)

skvísusjeik

Ég hef keypt möluð hörfræ í Kosti.  Það er mjög þægilegt að smella þeim í drykki og bakstur.  Þau eru stútfull af Omega3 en við nýtum það ekki þegar fræin eru heil.  Mér finnst nauðsynlegt að setja einhverja góða næringu í sjeikina, ekki bara ávexti og ber heldur góða olíu, trefjar, prótein osv.fr.  Það má líka smella einhverri ofurfæðu útí t.d. goji berjum, eða Lucuma dufti.

Súkkulaði-berja ofur drykkur

Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af því að blanda súkkulaði og berjum saman í smoothie en eftir að hafa hlustan á fyrirlestur með David Wolfe, Superfood sérfræðingi, var ég ólm í að finna einhverja góða blöndu þar sem þetta tvennt færi saman.  Samkvæmt honum er súkkulaði (hreint) það sem inniheldur mest andoxunarefni í veröldinni, hvorki meira né minna.  Og það sem meira er virðast andoxunaráhrifin þrefaldast ef súkkulaði og berjum er blandað saman.  Þannig að ég fór að blanda og endaði á þessum svaðalega ofur-sjek.  Bragðið kom mér verulega á óvart og hann hefur verið uppáhald síðan og er dásamlegur seinnipartinn til að fylla á tankinn áður en tómstundir, heimalærdómur, kvöldmatargerð og önnur heimilisstörf taka við.

 1. 1-2 lúka möndlur (búnar að liggja í bleyti)
 2. 1-2 dl vatn
 3. 2,5 dl jarðaber
 4. 2,5 dl bláber
 5. 2 msk kakó
 6. 1-2 tsk kakósmjör
 7. 1 msk kakónibbur
 8. 2 msk hampfræ
 9. 1-2 msk kókosolía
 10. 2 msk hunang
 11. 1 tsk acai duft (ef þið eigið það til)
 12. 3 msk hveitikím

Byrjið á því að blanda saman möndlum og vatni svo úr verði mjúk möndlumjólk. Blandið öllu hinu saman við og blandið þangað til silkimjúkt.  Bætið hveitikíminu út í síðast og helst bara hræra því rólega saman við.

Súkkulaði berja ofur drykkur