Heilsuátak anyone ??

Hvað ætli margir hafi slegið leitarorðið “detox”, “heilsuátak” eða önnur heilsutengd orð inn í leitarvafrann hjá sér fyrsta mánuð ársins.  Ég veit allavegna að inboxið mitt er að fyllast af allskonar gylliboðum um tilboð í hin og þessi heilsutengdu prógramm sem öll eiga að það sameiginlegt að gera líf mitt ennþá betra 2020!… og til þess að vera alveg hreinskilin þá viðurkenni að ég var búin að googla 2.janúar  hvernig ég kæmis í toppform á 12 vikum þegar fjölskyldan ætlar í smá frí til Spánar… en batnandi fólki er best að lifa, er það ekki ?

Það er ekkert skrítið að í byrjun árs líði okkur þannig að “nú þurfum við nú aldeilis að gera eitthvað í okkar málum”.  Flestir hafa lifað aðeins hærra en venjulega síðustu vikurnar á árinu með tilheyrandi mat og drykk.  Það er ekkert skrýtið að margir upplifa það að vera útþandir og bólgnir eftir frí.  En lífið snýst um jafnvægi, stundum leyfum við okkur meira en annars,  en aðalmálið er hvað við gerum dags daglega.  Þegar fríið er búið er tími til að taka upp betri siði.  Fylla ísskápinn af fersku grænmeti og hætta að hreinsa upp síðustu konfektmolana sem þér þykja ekki góðir undir venjulegum kringumstæðum !

En er heilsuátak endilega málið ?  Nýtt ár þýðir auðvitað ákveðin tímamót og þar af leiðandi góður tími til að tími til að taka upp betri venjur og setja sér ný markmið.  En hvað liggur að baki, ertu að refsa þér fyrir hegðunina síðustu vikurnar eða langar þig í átak af því að þú vilt virkilega það besta fyrir þig og þarft hvatningu til að koma þér af stað og ná markmiðunum.

Það að hugsa um heilsuna sína ætti ekki að vera áhugamál heldur einfaldlega hluti af lífinu sjálfu.  Það hvernig okkur líður dagsdaglega hefur í raun áhrif á hver við erum.  Hvaða orku við höfum til að takast á við lífið okkar og verkefnin okkar.  Næringin okkar hefur áhrif á hvort við nennum hinu og þessu.  Þannig að okkar dagsdaglega líðan fer mikið eftir því hvernig við hugsum um okkur sjálf.  Fáum við nægan svefn ?  Fáum við góðan svefn?  Nærum við okkur vel ? Erum við að borða nóg, erum við að borða of mikið eða er það sem við borðum næringarríkt og litríkt?   Hreyfum við okkur nóg ?  Hreyfing er lífsnauðsynleg og ætti ekki að vera einhverskonar möguleiki fyrir áhugasama!

Það að taka málin í sínar hendur í byrjun árs og ákveða að hugsa vel um sig á nýju ári þarf ekki endilega að vera það að kaupa nýtt kort í ræktinni, skrá sig í einhverskonar átak og setja markið á það að vera komin í toppform um páskana.

Það getur verið það að byrja strax í dag að taka góðar ákvarðanir til þess að þér líði betur á morgun.

 • Til dæmis það að fara í góða gönguferð (það er reyndar snjóstormur og appelsínugul viðvörun þegar þetta er skrifað og mögulega þegar þú lest þetta).  Ganga er frábær heyfing, þú þarft ekki sérstakan útbúnað, hún kostar ekkert,  það er lítil hætta á meyðslum og hún hefur góð andleg áhrif auk þess að bæta svefn (nema gönguferðin sé tekin seint á kvöldin gæti það haft öfug áhrif) og góð áhrif á meltingu.
 • Það gæti verið það að fara fyrr upp í rúm á kvöldin, ekki með símann heldur góða bók.
 • Það gæti verið það að drekka 2-3 auka glös af vatni yfir daginn.
 • Það gæti verið það að skipta 2 kaffibollum í vinnunni út fyrir te.
 • Það gæti verið það fara í gott bað í stað þess að vafra um í símanum á kvöldin.
 • Það gæti verið það að sleppa verkefnum öðru hverju til að fara á vinkonudeit.

Allt sem við gerum hefur áhrif.  Það ætti ekki að snúast um allt eða ekkert.  Stundum er gott að bara byrja í dag á einhverju einu eða tvennu frekar frekar en að setja háleit markmið sem er ekki víst að við náum.  Þegar þú hefur prófað það í nokkra daga að fá þér daglega gönguferð, fara fyrr upp í rúm eða slaka í baði í stað þess að vafra um í símanum finnur þú hvað það gerir þér gott að þá er auðveldara að setja markmið fyrir næstu daga.  Í upphafi er fínt að setja niður markmið fyrir eina viku í einu þannig verður verkefnið ekki óyfirstíganlegt, erfitt eða fráhrindandi.

Nú hef ég nefnt, hreyfingu, svefn og slökun… en ekki má gleyma mataræðinu.   Besta ráðið er auðvitað það að venja sig á hreinan og næringarríkan mat allt árið.  Þannig að þó svo að við nælum okkur einstöku sinnum í einn eða tvo konfektmola, tertusneið eða bara stingum okkur beina leið ofan í Ben and Jerry’s ísdolluna þá er grunnurinn alltaf góður.  Maturinn sem við borðum ætti að vera hreinn og næringarríkur en ekki verksmiðjuframleiddur pakkamatur.  Við þurfum alvöru mat, nægt prótein, góða fitu, flókin kolvetni og nægar trefjar. Vítamínin fáum við svo í litríku grænmeti.

Ef þig vantar hugmyndir með mataræði þá er nú aldeilis góð hugmynd að skella sér á eitt eða fleiri matreiðslunámskeið.  Allt um það hér:  Námskeið vor 2020 

Gangi ykkkur vel í að hugsa vel um ykkur á hverjum degi 🙂

 

 

 

Að skipta úr sukkgírnum yfir í vellíðunargírinn

Mér finnst alltaf jafn fyndið skilin sem verða í matarmenningu landans milli fyrsta og annars janúar.  Í margar vikur hefur ekkert verið í dagblöðunum, facebook og fleiri miðlum nema djúsí uppskriftir af allskonar kökum og tertum, steikum, sósum og sælgæti.  Ég sat í makindum mínum og kíkti í tölvuna að morgni annars janúar, það var myrkur úti ennþá, öll börnin heima í fríi ennþá og ég naut í rólegheitum kaffibolla dagsins og maulaði með ljúffenga Lindorkúlu en það eina sem tók á móti mér var bara detox, safakúr, heilsuátak ásamt ótal mörgum facebook statusum vina minna sem höfðu vaknað um miðjan nótt og drifið sig í ræktina.  Úff og ég sem sat þarna bara með kaffið mitt og lindorkúluna…. fannst ég ekki alveg vera að standa mig 🙂

Ég styð það frekar að lifa hollu líferni allt árið um kring, ekki bara fyrstu 3 vikurnar í janúar en óneytanlega verða freistingarnar fleiri þegar það koma svona frí, það er eiginlega sama sagan með jólafrí, páskafrí og sumarfrí.  Við leyfum okkur meira af hinu og þessu og margt smátt gerir jú eitt stórt.  Aðeins fleiri kaffibollar, aðeins fleiri súkkulaðimolar, konfektmolar hér og þar osv.fr. ég held að ég þurfi ekkert að telja þetta allt saman upp, ég held að þið vitið alveg hvað ég er að meina 😉  Hér áður fyrr “datt” ég algerlega í það, leyfði mér allt og stóð uppi eftir fríin 3-4 kg þyngri og það var svo erfitt að snúa við blaðinu, lystin var orðin svo góð og sykurpúkinn var alveg brjálaður innan í mér.  Núna er jafnvægið sem betur fer meira þó maður sé nú vissulega búin að leyfa sér ýmislegt undanfarnar vikur 🙂

IMG_3935

Ég tók saman 10 hluti sem mér finnst vera hjálplegastir þegar kemur að því að skipta yfir úr sukkgírnum yfir í vellíðunargírinn.  Það að skipta um gír ætti vissulega að vera til að líða betur en ekki bara til að refsa sér með svelti.

Volgt sítrónuvatn, netlute, soðið engifervatn eða annað gott te í morgunsárið – ég veit þið hafið heyrt þetta áður en þetta er virkilega góð leið til að hreinsa pípulagnirnar og koma kerfinu í gang 😉

Hörfræolía – á eftir sítrónuvatninu er allra meina bót, frábær smurning fyrir meltinguna fyrir daginn og góð næring fyrir húðina í kuldanum þessa dagana.

Grænn sjeik – ekki endilega bara á morgnanna heldur bara hvenær sem ykkur hentar yfir daginn.  Græna kálið er hreinsandi, næringarríkt, hjálpar okkur að verða basískari og minnkar sætuþörfina.

Góðir gerlar –  finnast undir heitinu: Ashidophilus, Multidophilus, Probiotics ofl ég er bæði hrifin af frá Solary, Optibach, Progastro og líka frá Bio-cult.  Spurðu bara í næstu heilsubúð, það er til mikið úrval.  Þegar við höfum innbyrgt mikinn sykur eða verið á lélegu fæði eru miklar líkur á því að þarmaflóran sé komin úr jafnvægi, það getur síðan gert okkur þreytt, valdið mikilli sætuþörf osv.fr. (Ef flóran er komin úr jafnvægi skapar það góð skilyrði fyrir candida sveppinn til að vaxa, en mikil sætuþörf, þreyta, pirringur, kláði í leggöngum og slæmar sprungur á hælum eru t.d. einkenni  ásamt ca. 50 öðrum atriðum).

Hreyfing – um leið og við byrjum að hreyfa okkur er eins og allt kerfið fari í gang.  Okkur langar frekar í eitthvað hollt og sætuþörfin minnkar.  Þú þarft ekki endilega að kaupa þér kort heldur byrjaðu bara á því að fara út að labba – bara strax í dag 🙂

Vatn – same old, same old, passaðu þig á því að drekka nóg, ódýrt og áhrifaríkt heilsuráð sem er ekki hægt að minnast of oft á.  Ef þú heldur þér vel “vökvuðum” eru minni líkur á því að þú látir freistast af einhverju sætmeti.

Meira grænmeti – Gefðu grænmetinu meira vægi á disknum, fáðu þér salat í hádegismat, epli eða gulrætur í millimál og mandarínu ef þig langar í eitthvað voða gott.  Maður verður svo ægilega ferskur af því.  Fullt af trefjum, ensímum og góðum plöntunæringarefnum.

Sofðu nóg – það er svo mikið myrkur þessa dagana og passaðu þig á því að fá næga hvíld.  Um leið og við erum svefnlaus er hætta á því að allar áætlanir um heilsuátak út í veður og vind.  Helsta ástæðan fyrir því að leita í sætindi, kaffi og aðra skjótfengna orku er þreyta.  Ef það gengur illa að snúa sólarhringnum við og þú liggur andvaka fram á nætur mæli ég með Magnesium slökun, það getur hjálpað okkur að slaka á og ná betri svefn.  Þú getur líka farið í gott bað fyrir svefninn og sett í það nokkra dropa af Lavender ilmkjarnaolíu en fyrst og fremst minnkaðu kaffið ef þetta er að hrjá þig.

D- vítamín – Það er engin sól þessa dagana svo númer 1,2 og 3 ekki gleyma D-vítamíninu.  Ef þig vatnar D-vítamín getur það útskýrt þreytu og slen sem verður svo til þess að þú freistast í allskonar óhollustu í leit að “orku”.

Matseðill – Ef þú ætlar að þér að kveðja súkkulaðiskrímslið er besta leiðin að borða nógu mikið af hollum og góðum mat.  Hann þarf þá að vera til í kotinu.  Gerðu vikumatseðil, ákveddu hvað þú ætlar að bjóða upp á í morgunmat, kvöldmat og allt þar á milli, gerðu innkaupalista og haltu þig við hann í búðinni.

IMG_4760

Þetta er það sem hjálpar mér og vonandi getur þetta nýst fleirum.

Gangi ykkur vel að skipta um gír 🙂

Sumarsukkið

Sumarið er yndislegur tími.  Jafnvel þó svo að veðrið í ár hafi ekki verið neitt sérstakt (hér á suðurlandinu) er bara svo mikil stemming á sumrin.  Það er tíminn fyrir sumabústaðaferðir, útilegur og ferðalög.  Loksins tími til að njóta þess að slaka á með góðum vinum, borða saman og gera allskonar skemmtilega hluti.  Það er alltaf pínu leiðinlegt þegar sumarið er búið en góðar minningar fylgja okkur inn í haustið og það er jú alltaf ágætt að fá rútínuna aftur.  Börnin fara í skólann og meiri regla kemst á matar- og svefnvenjur.

Ég veit ekki með ykkur en sumarið er tíminn sem ég á það til að fitna, og það hefur verið þannig síðan ég man eftir mér.   Á meðan internetið og fésbókin eru full af myndum af léttklæddu fólki hlaupandi um með vatnsbrúsann í annarri og með safaríka vatnsmelónu á kantinum er veruleikinn oft aðeins annar.  Til dæmis var oft alveg ískalt í sumar, svo í staðinn fyrir það að vera hlaupandi úti var ég oft bara að hlýja mér inni með heitt kakó í annari og smáköku í hinni.  Og í staðinn fyrir að fara í hressandi hjólaferð eða gönguferð í kvöldsólinni, kúrðum við okkur undir sæng í rigningunni og rokinu og horfðum á bíómynd með tilheyrandi huggulegheitum.

Það er ekkert gaman að sleppa öllu því sem við höfum vanið okkur á öllu því sem okkur finnst gott, og engin ástæða til.  Besta leiðin til að koma hress undan sumrinu er sú að bæta við góðum venjum smátt og smátt allt árið um kring sem verða að lífstíl og við höldum okkur við þær jafnvel þó að við séum í fríi, einfaldlega af því að okkur líður svo vel af því.  Ef við höldum okkur við góðar venjur yfir sumarið gerir ekkert mikið til þó að við slökum aðeins á og gerum vel við okkur á meðan við erum í fríi.  En það er heldur verra ef við komumst ekki í góða rútínu aftur, höldum áfram í sukkinu og lendum í leiðinda vítahring.

Það sem ég gerði til þess að koma mér úr sumarfríis-sukk-gírnum var að taka 10 sykurlausa daga.  Í 10 daga borðaði ég engan sykur og þannig komst ég á rétt ról aftur.  Mæli hiklaust með því.  Það sem kom mér reyndar mest á óvart eftir þessa 10 daga var það að það var ekki mittismálið breyttist ekki svo mikið en það var aðallega húðin sem leit mikið betur út og svo skýrleikinn í höfðinu.  Ekki að ég hafi verið neitt sérstaklega óskýr áður, en allt í einu var eins og ég sæi alla hluti skýrar, fékk endalaust margar hugmyndir, prufaði allskonar nýja hluti í eldhúsinu og seint á kvöldin var ég ekki þreytt í hausnum þó ég væri orðin þreytt í kroppnum, ótrúlega góð tilfinning 🙂

En að lokum þá ég ákvað að taka saman 5 hluti sem gætu þér að komast úr sukk-gírnum og komast í hollustu-gírinn:

 1. Byrjaðu daginn á volgu sítrónuvatni eða ef þú þolir ekki sítrus ávexti kemur t.d. netlute sterkt inn.  Rennur í gegn og hreinsar pípulagnirnar 😉
 2.  Mundu eftir vatninu, sama gamla tuggann, en bara eitt af því mikilvægasta og líka eitt það auðveldasta og ódýrasta. Ágætt að miða við ca. 2 litra.
 3. Passaðu þig á því að borða nógu mikið af mat. Ef við borðum ekki nóg af alvöru mat byrjum við strax að leita í sykur og skjótfengna orku.
 4. Taktu nokkra daga í röð og fáðu þér grænan drykk, einn af mínum uppáhalds er Ananas og engifer sjeikinn,  grænu plöntuefnin minnka sykurlöngunina og gefur okkur meiri orku.
 5. Hreyfðu þig, þú þarft ekki að bíða eftir því að kaupa kort í líkamsræktarstöð eða bíða eftir haustinu, eða bíða eftir einhverju námskeiði.  Ekki bíða heldur drífðu þig bara út í göngutúr eða hjólatúr. 20 mínútur á dag á hverjum degi er fín hreyfing.

Besta ráðleggingin af öllum er sennilega sú að venja sig á eins hollt “sukk” og  hægt er 😉

IMG_4945

 

Gangi ykkur vel 🙂

Þegar þarf að fjarlægja mjólkurvörur úr fæðunni.

Eftir að ég skrifaði póstinn um mjólkuróþolið hjá stelpunni minni hef ég fengið fjöldann allan af fyrirspurnum varðandi málið, í gegnum facebook, heimasíðuna og tölvupóst.  Það er virkilega gaman að hafa vakið marga til umhugsunar og tilganginum með skrifunum virkilega náð.

Margir hafa spurt mig hvernig við gerðum þetta.  Mörgum vext þetta í augum því mjólkurvörur eru stór hluti af daglegri fæðu hjá mörgum.  Hérna ætla ég að lista niður nokkrar hugmyndir.

Lesa utan á umbúðir  –  Þetta er auðvitað lykilatriði því mjólk og mjólkurafurðir,  t.d. undanrennuduft eða mjólkurduft leynast víða.  Fyrstu verslunarferðirnar gætu tekið aðeins lengri tíma þar sem þarf að lesa utan á allt.  Þið getið í raun bókað að það sé mjólkurduft í öllu nammi ( nema dökku súkkulaði, after eight, dökkum súkkulaðirúsínum og sumu hlaupi).  Sama á við um svo til allt kex, tilbúnar kökur, tilbúna rétti osv.fr.  Sama á auðvitað við um allt sem er til í skápunum heima, það þarf að vera duglegur að lesa utan á allt.

Nota í staðinn –  Það er ýmislegt hægt að nota í staðinn fyrir mjólkurvörur í matargerð án þess að gera of miklar breytingar.  T.d. er hægt að kaupa rísmjólk, haframjólk, sojamjólk eða möndlumjólk (mæli eindregið með heimagerðri möndlumjólk) og nota í allar uppskriftir þar sem annars væri mjólk.  Svo er líka oft hægt að nota vatn, t.d. í pönnukökur, brauð og margt fleira og spara þannig heilmikinn pening.  Það er auðvelt að nota kókosmjólk allstaðar þar sem annars á að vera rjómi eða rjómaostur.  Erfiðast er sennilegast að nota eitthvað annað en ost ofan á pizzu eða ofnrétti.  Það eru þó ýmsar hugmyndir til og ýmsilegt sem ég á eftir að prufa sjálf og líka eitthvað sem bíður eftir því að koma því á heimasíðuna.  Það eru til mjólkurlausir ostar víða en enn sem komið er hef ég ekki smakkað neitt sem er sambærilegt á bragðið.

Skipulagning og undirbúningur –  Best er að gera matseðil fyrir vikuna, finna rétti sem öllum finnast góðir og eru mjólkurlausir, helst eitthvað sem allir eru vanir og breytingarnar því ekki svo dramatískar.  Fylla inn í matseðilinn allar máltíðir dagsins, líka millimál.  Það er gott að fylla það líka inn á matseðilinn það sem maður ætlar að útbúa svona til að vera extra skipulagður og lenda ekki í vandræðum.   Það er mjög erfitt að vera með barn sem er svangt og ekkert til sem það má borða.  Fyrir mig hefur t.d. virkað að nota eitt kvöld í viku og útbúa hitt og þetta til að eiga, t.d. möndlumjólk, muffins, pestó, múslí, bananabrauð osv.fr.

Einbeita sér að því sem má borða – Þegar það þarf að taka eitthvað út úr fæðinni, hvort sem það er mjólk eða eitthvað annað, einblínum við oft á það sem má ekki borða og verðum upptekin af því.  Það er líka mikilvægt að hugsa um allt sem má borða.  Það sem er mjólkurlaust eru t.d. allir ávextir og allt grænmeti.  Öll fræ, hnetur, kókos, kakó og þar af leiðandi er hægt að útbúa endalaust af nammi og kökum úr þessu hráefni.

Við gerum smoothie hér á bæ 1 – 2x á dag og hefur algerlega komið í staðinn fyrir allt sem heitir jógúrt, skyr, súrmjólk, bíómjólk, skyrdrykki osv.fr.  Það er lítið mál að gera smoothie að kalkmiklum drykk með því að setja í hann möndlur, sesamsjör (tahini), möluð hörfræ eða grænkál.  En mjög margir fara strax að hafa áhyggjur af ónægri kalkneyslu þegar mjólkurvörurnar detta út.

Það eru endalausir möguleikar við að matreiða fisk, kjöt og kjúkling, en það er bara búið að venja okkur á að nota ost og rjóma í svo margar uppskriftir.  Allt korn er auðvitað mjólkurlaust, en mörg okkar eru búin að venja okkur á að borða smjör, ost og smurost ofan á brauð.  En það er margt annað álegg í boði: sultur  (helst sykurlausar eða heimagerðar með litlum hrásykri), túnfisksalat,  hnetusmjör (helst lífrænt því hitt er stútfullt af sykri), eplaskífur, sesamsmjör og allskonar jurtakæfur og venjulegar kæfur (ath. innihaldslýsingu) og svo lengi mætti telja.

Það er mjög auðvelt að búa til ís heima, bæði íspinna úr ávaxtasafa, en einnig er hægt að búa til allskonar ís úr t.d. kasjúhnetum, kókosmjólk, berjum, banana ofl. Hér á bæ gerum við oftast jarðaberjaís, súkkulaðiís, mangóís, bláberjaís ofl. Svo er líka hægt að kaupa mjólkurlausa ís í Krónunni, Hagkaup, Bónus og víðar en það borgar sig að lesa innihaldslýngu því oft er mikill sykur en gott að hafa möguleikann á að kaupa “venjulegan” ís stundum.

Einstaklingurinn vs. fjölskyldan: Það er misjafnt hvaða leið fólk fer, sumir taka alla mjólk út af heimilinu en aðrir halda áfram sínu striki og hafa sér mjólk og mat fyrir þann sem er með óþol.  Persónulega fannst okkur best að taka mjólkurvörurnar alveg út, nema það sem henni fannst vont t.d. fetaostur og svo höfum við haft smjör sem olli nokkru veseni fyrst en hún spáir ekkert í það í dag.  Það er til mjólkurlaust smjör í heilsubúðum en henni fannst það vont svo við höfum bara sleppt því.  Í dag búum við einstaka sinnum til ofnrétti eða pizzur með osti og þá fær hún sérmót og finnst það rosa sport.

Í okkar tilfelli var það líka þannig að þegar við prufuðum að drekka sjálf haframjólk, hrísmjólk og möndlumjólk henni til samlætis þá allt í einu hætti eiginmanninum að vera illt í maganum á hverjum einasta morgni, hin dóttir okkar var alltaf að tala um að henni væri illt í maganum hætti að kvarta, mér hefur alltaf fundist mjólk vera vond og var löngu farin að fá mér hrísmjólk út á múslíið og litli guttinn hætti að vera krónískt veikur í öndurnarfærunum (eftir að hafa fengið rs-vírusinn 3ja vikna) og hresstist allur eftir að hann hætti að borða smjör og ost (sem var þá eina mjólkurvaran sem hann borðaði) en það er eiginlega efni í sér færslu.  Í dag þolir sá litli 2ja ára alveg smjör og rjóma en við höfum lítið prufað að gefa  honum eitthvað annað.

Fá krakkana með sér – Best er að reyna að fá krakkana með sér í þetta. Útskýra fyrir þeim að mjólkin sé ekki góð fyrir líkamann þeirra og valdi þeim óþægindum (mismunandi í hverju tilfelli) og til að byrja með er þetta sennilega tilraun og útskýra þá að þetta sé tilraunaverkefni. Þegar þeim líður betur (þ.e.a.s. ef það er mjólkin sem er sökudólgurinn) er hægt að útskýra að það sé vegna þess að þau séu ekki að borða mjólkurmat.  Þegar þau finna að þeim líði betur verður þetta auðveldara.  Það er hægt að fá þau með sér í að ákvað hvað þau vilja fá ofan á brauð (ef þau eru vön að borða smjör og/eða ost) og fá þau til þess að smakka hvaða mjólk þeim finnist best.  Fá þau með sér í tilraunir á ís og nammi.  Oft gengur vel að fá börn með sér í lið ef þau fá að vera með í ráðum.

Stuðningur  –  Það munar mikið um það að fá stuðning. Ræða þetta við allra nánustu þannig að börnin séu ekki að fá mjólkurmat þegar þau fara í heimsóknir eða pössun annað.  Láta jafnvel fylgja lista með yfir það sem má gefa þeim að borða og hvað ekki (eitthvað sem er líklegt að þeim sé gefið).  Það getur nefnilega verið erfitt að standa á móti straumnum ef engin í kringum mann vill taka þátt í þessu.

Ávallt viðbúin – Það er nauðsynlegt að vera alltaf viðbúin og t.d. gott að vera með á sér ávaxtastangir (úr þurrkuðum ávöxtum), hrískökur, hrískökur með súkkulaði eða ávexti ef aðstæður eru þannig að öllum sé boðið upp á eitthvað sem má ekki fá. (fer auðvitað eftir aðstæðum hvað er sniðugast að hafa með).  Mér hefur fundist gott að bjóðast til þess að koma með bakkesli ef okkur er boðið í heimsókn til þess að tryggja að það sé eitthvað sem hún má borða og finnst gott.

Þetta er svona það helsta sem mér dettur í hug en það er af miklu að taka og örugglega mikið við þetta að bæta 🙂

Gangi ykkur öllum vel 🙂

Fitubrennsluátakið

Í byrjun desember var ég með stórar yfirlýsingar um að ég ætlaði að taka þátt í fitubrennsluátaki í desember á vegum fitubrennsla.is.  Svona ef einhver hefði tekið eftir þessu ákvað ég nú segja ykkur frá því hvernig það gekk, svona svo þið færuð ekki að álykta að ég hefði gefist upp eins og 40 % þeirra sem tóku þátt.  Já það getur verið pressa að fara í átak í desember.

Ég er reyndar ekki sérstaklega hrifin af átökum yfirleitt, og ég held að ég hafi fengið leið á því hér á árum áður að vera endalaust “í átaki”.  Ég er eiginlega meira fyrir það að vera bara í hollustu og almennu jafnvægi allt árið um kring.  En ég ákvað að taka þátt að þessu sinni þar sem ég vissi að ég þyrfi að fara út úr þægindahringnum, sennilega er hvað erfiðast að standast freistingar í desember því þær eru bókstaflega allstaðar.  Ég fann að ég var farin að detta í smákökubakstur og farin að hreyfa mig minna svo ég skellti mér.

Fyrst var keppnisskapið alveg að fara með mig og ég ætlaði auðvitað að vinna og farin að hugsa í hvað ég ætlaði að nota 100.000 kallinn sem ég myndi vinna en sá draumur rann fljótt út í sandinn.  Eftir að hafa misst 1,5 kg fyrstu vikuna og verið fáránlega dugleg varð sonurinn veikur.  Eftir 3 svefnlausar nætur varð ég líka hálf lasin og komst ekkert að æfa í marga dag.

Þarna var nokkuð ljóst að ég var ekki að fara að vinna og ég róaði keppnisskapið aðeins og setti mér ný markmið.  Ég ætlaði bara að fara í keppni við sjálfa mig borða minna og hreyfa mig meira en ég hefði annars gert. Því undir venjulegum kringumstæðum hefði ég þyngst um 3-4 kg.  Það tókst.

Ég var ekki tilbúin til þess að sleppa öllu því ég vissi að það myndi aðeins þýða það að ég myndi missa mig þegar átakinu væri lokið. Og þetta var jú gert fyrir mína heilsu og engan annan.

Í lokin var ég alveg að verða vitlaus því vigtin hreyfðist ekki.  Þegar 2 dagar voru eftir langaði mig bara til þess að hætta út af þessum tveimur digital stöfum sem stóðu á vigtinni.  Ég trúði ekki að ég væri farin að láta vigtina hafa þessi áhrif.  Ég á nefnilega ekki vigt og vigta mig svo til aldrei en þarna var ég farin að vigta mig á hverjum einasta degi.  En vigtin segir ekki allt.  Langt því frá.

Eftir 4 vikur, hafði ég aðeins misst 1,3 kg, fituprósentan minnkað um 1,3 % en jú 11 cm farnir 🙂

Ég var mjög ánægð að hafa tekið þátt og ég er ekki viss um að innkaupakarfan hefði litið svona út 2.janúar hefði ég ekki verið á leið í mælingu 5.janúar

IMG_3447

Það sem ég lærði á þessum mánuði og langaði að deila með ykkur:

1. Svefninn skiptir öllu.  Þá daga sem ég svaf lítið, gerðist ekkert alveg sama hvað ég borðaði hollt eða hreyfði mig.

2. Vigtin skiptir ekki öllu.  Mælum með málbandi eða bara horfum í spegil.

3. Það þarf að passa sig á því að borða ekki of lítið.  Það eina sem ég græddi á þvi var það að vera svöng og hrikalega pirruð (fjölskyldan getur staðfest þetta).

Það getur vel verið að ég hefði séð meiri árangur hefði ég ekki fengið mér “trít” á hverjum degi.  Ég fékk mér alltaf eftirmat ef hann var í boði, borðaði fullt af heilsunammi og kasjúhnetuís.  En passaði skammtastærðirnar.  Ég einbeitti mér að því að borða ekki eftir klukkan átta en frekar leyfa mér frekar eitthvað gott fyrri part dags.  Ég t.d. leyfði mér yfirleitt eitthvað eftir hádegismatinn með kaffibolla dagsins. Og naut þess í botn.  Maður á aldrei að borða eitthvað með samviskubiti, bara njóta , alltaf 🙂

Þann 30.des áttum við hjónin brúðkaupsafmæli og fórum út að borða á Vox og þar hefði t.d. verið fáránlegt að borða dýrindis máltíð með samviskubiti.  Ég fékk þann geggjaðasta eftirrétt sem ég hef smakkað og það sem ég naut þess í botn.  Það er nefnilega staður og stund fyrir allt.

IMG_3325

Það var gott að byrja janúar í betra formi en í byrjun desember en ég var fegin þegar átakinu var lokið og ég gat bara borðað minn mat í ró og næði og hætt að stíga á vigtina á hverjum degi. Þvílíkur innri friður.

Ég ætla hinsvegar að halda áfram og borða hollt og hreyfa mig það sem eftir er ársins og vonandi þið líka 🙂