Þegar þarf að fjarlægja mjólkurvörur úr fæðunni.

Eftir að ég skrifaði póstinn um mjólkuróþolið hjá stelpunni minni hef ég fengið fjöldann allan af fyrirspurnum varðandi málið, í gegnum facebook, heimasíðuna og tölvupóst.  Það er virkilega gaman að hafa vakið marga til umhugsunar og tilganginum með skrifunum virkilega náð.

Margir hafa spurt mig hvernig við gerðum þetta.  Mörgum vext þetta í augum því mjólkurvörur eru stór hluti af daglegri fæðu hjá mörgum.  Hérna ætla ég að lista niður nokkrar hugmyndir.

Lesa utan á umbúðir  –  Þetta er auðvitað lykilatriði því mjólk og mjólkurafurðir,  t.d. undanrennuduft eða mjólkurduft leynast víða.  Fyrstu verslunarferðirnar gætu tekið aðeins lengri tíma þar sem þarf að lesa utan á allt.  Þið getið í raun bókað að það sé mjólkurduft í öllu nammi ( nema dökku súkkulaði, after eight, dökkum súkkulaðirúsínum og sumu hlaupi).  Sama á við um svo til allt kex, tilbúnar kökur, tilbúna rétti osv.fr.  Sama á auðvitað við um allt sem er til í skápunum heima, það þarf að vera duglegur að lesa utan á allt.

Nota í staðinn –  Það er ýmislegt hægt að nota í staðinn fyrir mjólkurvörur í matargerð án þess að gera of miklar breytingar.  T.d. er hægt að kaupa rísmjólk, haframjólk, sojamjólk eða möndlumjólk (mæli eindregið með heimagerðri möndlumjólk) og nota í allar uppskriftir þar sem annars væri mjólk.  Svo er líka oft hægt að nota vatn, t.d. í pönnukökur, brauð og margt fleira og spara þannig heilmikinn pening.  Það er auðvelt að nota kókosmjólk allstaðar þar sem annars á að vera rjómi eða rjómaostur.  Erfiðast er sennilegast að nota eitthvað annað en ost ofan á pizzu eða ofnrétti.  Það eru þó ýmsar hugmyndir til og ýmsilegt sem ég á eftir að prufa sjálf og líka eitthvað sem bíður eftir því að koma því á heimasíðuna.  Það eru til mjólkurlausir ostar víða en enn sem komið er hef ég ekki smakkað neitt sem er sambærilegt á bragðið.

Skipulagning og undirbúningur –  Best er að gera matseðil fyrir vikuna, finna rétti sem öllum finnast góðir og eru mjólkurlausir, helst eitthvað sem allir eru vanir og breytingarnar því ekki svo dramatískar.  Fylla inn í matseðilinn allar máltíðir dagsins, líka millimál.  Það er gott að fylla það líka inn á matseðilinn það sem maður ætlar að útbúa svona til að vera extra skipulagður og lenda ekki í vandræðum.   Það er mjög erfitt að vera með barn sem er svangt og ekkert til sem það má borða.  Fyrir mig hefur t.d. virkað að nota eitt kvöld í viku og útbúa hitt og þetta til að eiga, t.d. möndlumjólk, muffins, pestó, múslí, bananabrauð osv.fr.

Einbeita sér að því sem má borða – Þegar það þarf að taka eitthvað út úr fæðinni, hvort sem það er mjólk eða eitthvað annað, einblínum við oft á það sem má ekki borða og verðum upptekin af því.  Það er líka mikilvægt að hugsa um allt sem má borða.  Það sem er mjólkurlaust eru t.d. allir ávextir og allt grænmeti.  Öll fræ, hnetur, kókos, kakó og þar af leiðandi er hægt að útbúa endalaust af nammi og kökum úr þessu hráefni.

Við gerum smoothie hér á bæ 1 – 2x á dag og hefur algerlega komið í staðinn fyrir allt sem heitir jógúrt, skyr, súrmjólk, bíómjólk, skyrdrykki osv.fr.  Það er lítið mál að gera smoothie að kalkmiklum drykk með því að setja í hann möndlur, sesamsjör (tahini), möluð hörfræ eða grænkál.  En mjög margir fara strax að hafa áhyggjur af ónægri kalkneyslu þegar mjólkurvörurnar detta út.

Það eru endalausir möguleikar við að matreiða fisk, kjöt og kjúkling, en það er bara búið að venja okkur á að nota ost og rjóma í svo margar uppskriftir.  Allt korn er auðvitað mjólkurlaust, en mörg okkar eru búin að venja okkur á að borða smjör, ost og smurost ofan á brauð.  En það er margt annað álegg í boði: sultur  (helst sykurlausar eða heimagerðar með litlum hrásykri), túnfisksalat,  hnetusmjör (helst lífrænt því hitt er stútfullt af sykri), eplaskífur, sesamsmjör og allskonar jurtakæfur og venjulegar kæfur (ath. innihaldslýsingu) og svo lengi mætti telja.

Það er mjög auðvelt að búa til ís heima, bæði íspinna úr ávaxtasafa, en einnig er hægt að búa til allskonar ís úr t.d. kasjúhnetum, kókosmjólk, berjum, banana ofl. Hér á bæ gerum við oftast jarðaberjaís, súkkulaðiís, mangóís, bláberjaís ofl. Svo er líka hægt að kaupa mjólkurlausa ís í Krónunni, Hagkaup, Bónus og víðar en það borgar sig að lesa innihaldslýngu því oft er mikill sykur en gott að hafa möguleikann á að kaupa “venjulegan” ís stundum.

Einstaklingurinn vs. fjölskyldan: Það er misjafnt hvaða leið fólk fer, sumir taka alla mjólk út af heimilinu en aðrir halda áfram sínu striki og hafa sér mjólk og mat fyrir þann sem er með óþol.  Persónulega fannst okkur best að taka mjólkurvörurnar alveg út, nema það sem henni fannst vont t.d. fetaostur og svo höfum við haft smjör sem olli nokkru veseni fyrst en hún spáir ekkert í það í dag.  Það er til mjólkurlaust smjör í heilsubúðum en henni fannst það vont svo við höfum bara sleppt því.  Í dag búum við einstaka sinnum til ofnrétti eða pizzur með osti og þá fær hún sérmót og finnst það rosa sport.

Í okkar tilfelli var það líka þannig að þegar við prufuðum að drekka sjálf haframjólk, hrísmjólk og möndlumjólk henni til samlætis þá allt í einu hætti eiginmanninum að vera illt í maganum á hverjum einasta morgni, hin dóttir okkar var alltaf að tala um að henni væri illt í maganum hætti að kvarta, mér hefur alltaf fundist mjólk vera vond og var löngu farin að fá mér hrísmjólk út á múslíið og litli guttinn hætti að vera krónískt veikur í öndurnarfærunum (eftir að hafa fengið rs-vírusinn 3ja vikna) og hresstist allur eftir að hann hætti að borða smjör og ost (sem var þá eina mjólkurvaran sem hann borðaði) en það er eiginlega efni í sér færslu.  Í dag þolir sá litli 2ja ára alveg smjör og rjóma en við höfum lítið prufað að gefa  honum eitthvað annað.

Fá krakkana með sér – Best er að reyna að fá krakkana með sér í þetta. Útskýra fyrir þeim að mjólkin sé ekki góð fyrir líkamann þeirra og valdi þeim óþægindum (mismunandi í hverju tilfelli) og til að byrja með er þetta sennilega tilraun og útskýra þá að þetta sé tilraunaverkefni. Þegar þeim líður betur (þ.e.a.s. ef það er mjólkin sem er sökudólgurinn) er hægt að útskýra að það sé vegna þess að þau séu ekki að borða mjólkurmat.  Þegar þau finna að þeim líði betur verður þetta auðveldara.  Það er hægt að fá þau með sér í að ákvað hvað þau vilja fá ofan á brauð (ef þau eru vön að borða smjör og/eða ost) og fá þau til þess að smakka hvaða mjólk þeim finnist best.  Fá þau með sér í tilraunir á ís og nammi.  Oft gengur vel að fá börn með sér í lið ef þau fá að vera með í ráðum.

Stuðningur  –  Það munar mikið um það að fá stuðning. Ræða þetta við allra nánustu þannig að börnin séu ekki að fá mjólkurmat þegar þau fara í heimsóknir eða pössun annað.  Láta jafnvel fylgja lista með yfir það sem má gefa þeim að borða og hvað ekki (eitthvað sem er líklegt að þeim sé gefið).  Það getur nefnilega verið erfitt að standa á móti straumnum ef engin í kringum mann vill taka þátt í þessu.

Ávallt viðbúin – Það er nauðsynlegt að vera alltaf viðbúin og t.d. gott að vera með á sér ávaxtastangir (úr þurrkuðum ávöxtum), hrískökur, hrískökur með súkkulaði eða ávexti ef aðstæður eru þannig að öllum sé boðið upp á eitthvað sem má ekki fá. (fer auðvitað eftir aðstæðum hvað er sniðugast að hafa með).  Mér hefur fundist gott að bjóðast til þess að koma með bakkesli ef okkur er boðið í heimsókn til þess að tryggja að það sé eitthvað sem hún má borða og finnst gott.

Þetta er svona það helsta sem mér dettur í hug en það er af miklu að taka og örugglega mikið við þetta að bæta 🙂

Gangi ykkur öllum vel 🙂

Published by

One thought on “Þegar þarf að fjarlægja mjólkurvörur úr fæðunni.

Leave a Reply