Risarækjur með kryddmauki og mangósalat

Jæja, hér kemur uppskriftin af risarækjuréttinum sem vakti ekkert smá mikla athygli um daginn. Ég held að ég hafi aldrei fengið jafn mikil viðbrögð við neinni uppskrift fyrr né síðar. Þetta er ein af uppskriftunum á 3ja vikna Gott start námskeiðinu sem er í gangi akkúrat núna. Við bjuggum einmitt til þennan rétt í vikunni og féll hann í mjög góðan jarðveg. Kryddmaukið má að sjálfsögðu nota líka á fisk, kjúkling eða lambakjöt. Frystið afganginn af kryddmaukinu og notið síðar.

Grænt kryddmauk

3 cm (um það bil) engifer

  • 3 stk grænt chili
  • 3 cm (u.þ.b.) engifer
  • 3 þurrkaðar döðlur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sítróna (safinn)
  • væn lúka steinselja
  • 2 msk góð karrý kryddblanda (Hægt að nota indverska eða tælenska karrý blöndu og eins má líka nota mexíkó kryddblöndu)
  1. Setjið allt í litla matvinnsluvél og vinnið þangað til vel maukað.
  2. Setjið bökunarpappír í box og setjið maukið á pappírinn með matskeið. Passið að hafa gott pláss á milli þannig að þegar maukið frosnar þá er auðvelt að taka 1 msk í einu til að nota. Setjið bökunarpappír á milli laga.

Það má gjarnan margfalda þessa uppskrift og gera tvöfalda eða þrefalda þar sem maukið er geymt í frysti. Úr þessu mauki er gott að búa til milda karrýsósu með kókosmjólk sem hægt er að nota sér eða sem grunn fyrir til dæmis kjúklingarétt eða linsubaunarétt.

Risarækjur með kryddmauki og mangó salat

  • 1 msk avókadó ólía
  • 500 gr risarækjur
  • 2 msk kryddmaukið (hér á undan)
  • 1-2 hvítlauksrif (pressuð)
  1. Setjið rækjurnar ásamt 2 msk af kryddmauki í lokað ílát og leyfið því að marinerast í a.m.k. 1 klst.
  2. Hitið olíu á pönnu og byrjið á því að setja hvítlaukin á pönnuna. Steikið svo rækjurnar í hvítlauksolíunni þangað til þær eru eldaðar í gegn, það tekur um það bil 4-6 mín.

Ef rækjurnar eru frosnar, látið þá buna á þær með köldu vatni, þær afþýðast fljótt þannig.

Mangósalat

(magn af hverju hráefni fer eftir smekk og fjölda)

  • klettasalat
  • mangó í litlum bitum
  • rauð paprika í litlum bitum
  • vorlaukur smátt saxaður
  • kóríander (þeir sem hata kóríander sleppa honum) 

Ég hvet ykkur til að prófa þennan rétt næst þegar sólin skín.

Verði ykkur að góðu.

Fljótlegt morgunmúslí

Hér kemur mjög fljótleg og einföld uppskrift sem ég hvet ykkur til að prufa ef þið eruð ekki vön að búa til ykkar eigið múslí.  Oft leynist mikill sykur í keyptu múslíi þó það sé ekki algilt.  Það er mjög fljótlegt að búa til múslí og gaman að þróa sínar eigin uppáhaldsblöndur.  Oft blanda ég saman hráefnunum þegar ég er að elda kvöldmatinn eða eftir kvöldmat og sting inn í ofninn meðan hann er ennþá heitur.   Þetta er vinsælt á mínu heimili og því geri ég oft tvöfalda uppskrift.   Þegar ég vil svo dekra extra mikið við börnin bý ég til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði en uppskriftin af því er í sumar uppskriftabókinni.  Hver veit nema ég deili þeirri uppskrift fljótlega 😉

Ef ykkur langar í fleiri hugmyndir af morgunverði og millimáli eða vantar bara að drífa ykkur af stað verður matreiðslunámskeið í næstu viku (þar sem við nota bene búum til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði ;).  Allt um það hér: https://heilsumamman.com/2020/09/22/haust-namskeid-2020/

Okkur þykir gott að setja múslí út á þykkan smoothie en einnig er það notað út á Gríska jógúrt, hreina Örnu Ab mjólk eða jafnvel út á morgungrautinn.

Hráefni: 

  • 2 dl grófar hafraflögur
  • 1,5 dl saxaðar möndlur (hér má sleppa möndlum og setja meira af höfrum og fræjum í staðinn)
  • 1,5 dl sólblómafræ eða önnur fræ að eigin vali
  • 1,5 dl kókosflögur (fara síðar á plötuna)
  • 1/2-1 dl þurrkaðir ávextir að eigin vali t.d. rúsínur, fíkjur eða trönuber
  • 4 msk kókosolía eða önnur góð hitaþolin olía
  • 2-3 msk hunang eða kókospálmasykur (má sleppa og hafa alveg ósætt)
  • örlítið salt

Aðferð: 

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og grófmalið eða saxið með hníf.
  2. Hitið olíuna ef hún er í föstu formi.  Ef þið ætlið að nota kókospálmasykurinn í stað þess að nota hunang er gott að bræða hann aðeins í olíunni.
  3. Blandið öllum þurrefnunum saman nema kókosflögum og þurrkuðu ávöxtunum í skál, hellið olíunni yfir ásamt hunanginu (eða kókospálmasykrinum) og blandið vel saman.
  4. Setjið í ofnskúffu og bakið í 20-25 mín við 150°c. Það er gott að velta múslíblöndunni fram og tilbaka 2x  á bökunartímanum með spaða svo hún brenni ekki.
  5. Þegar 5 mín eru eftir af tímanum bætið þið kókosflögunum og þurrkuðu ávöxtunum saman við.
  6. Takið ofnskúffuna út úr ofninum og leyfið blöndunni að kólna.
  7. Geymið í loftþéttu íláti.

Verði ykkur að góðu,

Bláberjadraumur

Ef þið elskið að fara í berjamó eins og ég eigið þið væntanlega nokkur box í frysti fyrir veturinn eins og ég.  Berjaspretta var töluvert betri en síðustu ár og ég naut þess í botn að tína ber.

Ég nota þau svo yfir veturinn í allskonar þeytinga og út á morgungrautinn.  En um síðustu helgi gerði ég köku sem okkur fjölskyldunni fannst mjög góð og mig langaði að deila með ykkur.

Þið getið að sjálfsögðu notað sólber, epli, rabbarbara eða eitthvað annað í staðinn fyrir bláber 🙂

 

 

Hráefni: 

  • 8 dl bláber
  • 1-2 msk kókospálmasykur
  • safi úr 1 sítrónu
  • 2,5 dl haframjöl
  • 1,5 dl möndlumjöl
  • 1,5 dl smátt saxaðar möndlur
  • 1,5 dl kókosflögur
  • 75 g smjör eða kókosolía (fyrir mjólkurlausa útgáfu)
  • 50 g kókospálmasykur
  • 1 tsk vanilludropar

 

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 180°
  2. Takið bláber úr frysti og setjið í eldfast mót (þið þurfið ekki að þýða bláberinn).  Stráið 1-2 msk af kókospálmasykri yfir bláberinn og kreystið safa úr hálfri sítrónu.
  3. Setjið  smjör, kókospálmasykur og vanilludropa í pott og bræðið saman.  Það er ekki víst að sykurinn bráðni alveg en við viljum a.m.k. fá fína karamellulykt í loftið.
  4. Setjið haframjöl, möndlumjöl, smátt saxaðar möndlur og kókosflögur í skál og blandið saman.
  5. Blandið að lokum smjörblöndunni saman við þurra hráefnið og setjið yfir bláberin.
  6. Setjið mótið inn í ofn og bakið í  30 mín.
  7. Berið fram með þeyttum rjóma, kókosrjóma eða jafnvel vanilluís.

 

  • Ef þið notið glúteinlausa  hafra er þessi uppskrift glúteinlaus.
  • Ef þið notið kókosolíu í staðinn fyrir smjör er hún vegan.

Verði ykkur að góðu

Kveðja,

Epla- og hindberjakaka með marsípantopp

Sunnudagskakan um síðustu helgi var jafn góð og hún leit út fyrir að vera.  Ég sýndi frá henni á Instagram og viðbrögðin létu ekki á sér standa … svo hér kemur uppskriftin handa ykkur.   Ef þig langar að sjá hvað ég er að bardúsa í eldhúsinu máttu gjarnan fylgjast með, ég reyni að setja eitthvað í “story” á hverjum degi eða svona hér um bil.

En aftur að kökunni.  Ég veit ekki hvort megi kalla þessa köku “köku”, sennilega er þetta meira svona pæ … en samt er þetta ekki löglegt pæ því þá þyrfti skelin að vera hörð.  En nóg um tækimálin…  Ég elska eplakökur og bakaði eina slíka um þar síðustu helgi.  En í henni var vel af kanil og staðan er bara þannig að miðdóttirin hatar kanil.  Já, hún HATAR kanil, það er ekkert minna!   Svo ég lofaði að gera aftur eplaköku án kanils.  Það hljómaði eitthvað bragðlaust svo ég ákvað að poppa hana upp með hindberjum og smá heimatilbúnu marsípani.  Ég var með smá áhyggjur af því að hindberin myndu verða að safa en það gerðist ekki, ég setti þau á kökuna beint úr frysti og nánast beint inn í ofn og þau héldu sér svona fallega.

 

 

Hráefni: 

Botn: 

  • 100 g smjör (eða kókosolía fyrir mjólkurlausa útgáfu)
  • 2 dl möndlumjöl
  • 2 dl haframjöl
  • 1,5 dl kókospálmasykur

Fylling: 

  • 4-5 stór epli
  • 2 dl frosin hindber

marsípan : 

  • 2 dl möndlumjöl
  • 3-4 msk hlynsýróp
  • 1/2 tsk möndludropar

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 180°(blástur)
  2. Hrærið saman hráefnið í botninn og setjið í mót, ég var með 28 cm hringmót og botninn er frekar þunnur.
  3. Brytjið niður eplin í litla bita og setjið í mótið.
  4. Takið hindberin úr frysti og setjið ofan á eplin.
  5. Búið til marsíðan með því að hnoða saman möndlumjöli, hlynsýrópi og möndludropum og dreyfið því ofan á kökuna.  Það á að vera það blautt að það sé auðvelt að móta það en það má ekki molna niður.
  6. Bakið kökuna í 15-20 mín – fyglist vel með að hún verði ekki of dökk.  Ofnar eru misjafnir og gott að stilla fyrst á 15 mín og svo lengja tímann ef það þarf.

Verði ykkur að góðu og njótið vel

 

 

 

 

 

Linsubauna bolognese

Linsubaunir eru fáránlega hollar, stútfullar af næringu og svo eru þær mjög ódýrar.   Þær henta því frábærlega vel í upphafi árs þegar margir hafa kannski borðað aðeins of mikið síðustu vikurnar og buddan er létt.

Sjálfri finnst mér best að leggja allan pokann í bleyti í einu og sjóða.  Taka svo frá það sem ég er að fara nota en frysta hitt í mátulegum skömmtum.    Þannig er ég búin að flýta fyrir næst þegar eldað er úr linsubaunum.  Mörgum finnst vesen að þurfa að leggja baunirnar í bleyti en það er nú ekkert svo flókið 🙂   Sumir vilja meina að það þurfi ekki að leggja linsur í bleyti eins og aðrar baunir.  En við það að leggja baunir í bleyti verða þær auðmeltalengri… það þýðir á góðri íslensku að maginn blæs ekki upp af lofti eftir kvöldmat og síðan eruð þið fram eftir kvöldi að losa loft!   Ég legg alltaf linsur í bleyti líka af þessari enföldu ástæðu, þær verða auðmeltanlegri!

Uppskrift:  

(uppskrift handa 4-5)

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 3-4 gulrætur
  • 1-2 sellerístönglar
  • 2-3 dl soðnar brúnar eða grænar linsur (1-1,5 dl ósoðnar)
  • 1 dós smátt maukaðir tómatar eða 400 ml passata
  • 2 msk tómatpuré
  • Kryddið vel með kryddum sem ykkur þykja góð, t.d. oregano, Villijurtir frá Pottagöldrum, paprikukrydd og cumin, samtals ca.  3-4 tsk
  • 1 stk  grænmetiskraftur, gerlaus
  • Væn lúka fersk steinselja og basilika ef þið eigið til.
  • smakkið til með salt og pipar

 

    Aðferð:   

  1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í uþb 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka. Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 15-20 mín.
  2. Hitið olíu á pönnu, bætið við gulrótum og sellerí og leyfið því að malla aðeins á pönnunni.
  3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í 15-20 mín.
  4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið kryddjurtunum saman við.
  5. Sjóðið spaghetti að eigin vali eða búið til “spaghetti” úr kúrbít með spíralskera.

 

Eins og ég nefndi hér að ofan þá verða baunirnar auðmeltanlegri við að liggja í bleyti.  Ef þið eruð tímabundin eða gleymið því þá eru  samt 15-20 mín betri en ekkert.

Besti glúteinlausi pizzabotninn

Síðan ég var greind með glúteinóþol fyrir 2,5 ári er ég örugglega búin að prófa 50 mismunandi uppskriftir af pizzubotnum.  Allskonar mismunandi mjöl og samsetningar.  Sumt hefur mistekist alveg hrapalega og á tímabili var ég farin að raða álegginu bara á bökunarpappír 😉 Sumt hefur þó komið ágætlega út, ég var á tímabili komin upp á lagið að baka vefjur á pönnu úr Cassava mjöli sem ég notaði sem pizzubotn en vandinn við það er að Cassava mjöl fæst ekki hér á Íslandi (eða ég hef ekki séð það) og yfirleitt alltaf uppselt á Iherb þegar ég reyndi að panta það.

Það er jú alveg eitthvað úrval af keyptum pizzubotnum en þeir eru yfirleitt mjög dýrir og oft of þykkir fyrir minn smekk.   Ef ég er í algerri tímaþröng og kaupi botn kaupi ég vefjurnar frá Schär og nota þær sem pizzabotn.   En þar sem ég er alltaf að leita að lausn sem er bæði heilsusamlegri og hagkvæmari hef ég alltaf verið að prófa eitthvað nýtt.  Sumir hafa fengið háa einkunn og góða umsögn en hafa verið mjög tímafrekir sem hentar mér alls ekki klukkan 18.00 á föstudögum og ég vil bara græja pizzu NÚNA!

Hér á heimilinu er föstudagspizzan alltaf á sínum stað á hverjum einasta föstudegi svo það er til mikils að vinna að finna hinn fullkomna botn.  OK, sko höfum reyndar á eitt á hreinu þegar ég segi fullkomin botn.  Glúteinlaus pizzubotn verður aldrei neitt í líkingu við venjulegan djúsí hveiti pizzubotn, ég tala nú ekki um gúrmei súrdeigsbotn.  En þegar það er ekki í boði gerir maður aðeins minni væntingar.  Fullkomin botn þýðir því í mínum huga að hann sé einfaldur, fljótlegur, ódýr og bara þið vitið, nokkuð góður 😉  Mér finnst best að hafa botninn bara vel þunnan og hlaða bara frekar meira áleggi á.   Á þessum myndum er hráefnið reyndar kannski frekar fátæklegt, ólífur og tómatar.  Á góðum degi myndi ég bæta við sveppum og jafnvel serrano.

Um daginn póstaði Ebba Guðný uppskrift á Instagram sem ég sá og hugsaði “þessa samsetningu hef ég ekki gert”.  Tók mynd af skjánum og prófaði nokkrum dögum seinna.  Þvílíkur hittari.  Er búin að gera hann nokkrum sinnum og prófa að prófa að breyta smá í hina og þessa átt.

 

Hér kemur uppskriftin eins og ég hef gert hana eftir nokkrar tilraunir:

Hráefni:

  • 2 tsk fiber husk
  • 1 dl soðið vatn  (fiber husk + vatn blandað saman í bolla)
  • 2 dl glúteinlaust mjöl (möndlumjöl, rísmjöl eða tilbúin glúteinlaus mjölblanda – verður aðeins mismunandi eftir hvaða mjöl er notað, finnst best að blanda saman 2-3 tegundum frekar en að nota eingöngu eina tegund ) Í upphaflegu uppskriftinni er miðað við 100 g en ég er svo löt að teygja mig í viktina að mér hefur fundist mátulegt að nota 2 dl)
  • 2 msk ólífuolía (í upphaflegu uppskriftinni er 1 msk en mér finnst botninn mýkri að hafa þær 2)
  • Vel af kryddi t.d. pizzakrydd, oregano eða villijurtir frá Pottagöldrum

Aðferð: 

  1. Blandið saman hráefnunum og hnoið þannig að deigið verður fín kúla.
  2. Fletjið út á bökunarpappír.
  3. Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).
  4. Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.
  5. Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Blandið saman þannig að deigið verður fín kúla.

Fletjið út á bökunarpappír:


Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).

Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.

Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Vonandi finnst ykkur þessi botn jafn góður og mér 🙂

Verði ykkur að góðu…