Besti glúteinlausi pizzabotninn

Síðan ég var greind með glúteinóþol fyrir 2,5 ári er ég örugglega búin að prófa 50 mismunandi uppskriftir af pizzubotnum.  Allskonar mismunandi mjöl og samsetningar.  Sumt hefur mistekist alveg hrapalega og á tímabili var ég farin að raða álegginu bara á bökunarpappír 😉 Sumt hefur þó komið ágætlega út, ég var á tímabili komin upp á lagið að baka vefjur á pönnu úr Cassava mjöli sem ég notaði sem pizzubotn en vandinn við það er að Cassava mjöl fæst ekki hér á Íslandi (eða ég hef ekki séð það) og yfirleitt alltaf uppselt á Iherb þegar ég reyndi að panta það.

Það er jú alveg eitthvað úrval af keyptum pizzubotnum en þeir eru yfirleitt mjög dýrir og oft of þykkir fyrir minn smekk.   Ef ég er í algerri tímaþröng og kaupi botn kaupi ég vefjurnar frá Schär og nota þær sem pizzabotn.   En þar sem ég er alltaf að leita að lausn sem er bæði heilsusamlegri og hagkvæmari hef ég alltaf verið að prófa eitthvað nýtt.  Sumir hafa fengið háa einkunn og góða umsögn en hafa verið mjög tímafrekir sem hentar mér alls ekki klukkan 18.00 á föstudögum og ég vil bara græja pizzu NÚNA!

Hér á heimilinu er föstudagspizzan alltaf á sínum stað á hverjum einasta föstudegi svo það er til mikils að vinna að finna hinn fullkomna botn.  OK, sko höfum reyndar á eitt á hreinu þegar ég segi fullkomin botn.  Glúteinlaus pizzubotn verður aldrei neitt í líkingu við venjulegan djúsí hveiti pizzubotn, ég tala nú ekki um gúrmei súrdeigsbotn.  En þegar það er ekki í boði gerir maður aðeins minni væntingar.  Fullkomin botn þýðir því í mínum huga að hann sé einfaldur, fljótlegur, ódýr og bara þið vitið, nokkuð góður 😉  Mér finnst best að hafa botninn bara vel þunnan og hlaða bara frekar meira áleggi á.   Á þessum myndum er hráefnið reyndar kannski frekar fátæklegt, ólífur og tómatar.  Á góðum degi myndi ég bæta við sveppum og jafnvel serrano.

Um daginn póstaði Ebba Guðný uppskrift á Instagram sem ég sá og hugsaði “þessa samsetningu hef ég ekki gert”.  Tók mynd af skjánum og prófaði nokkrum dögum seinna.  Þvílíkur hittari.  Er búin að gera hann nokkrum sinnum og prófa að prófa að breyta smá í hina og þessa átt.

 

Hér kemur uppskriftin eins og ég hef gert hana eftir nokkrar tilraunir:

Hráefni:

  • 2 tsk fiber husk
  • 1 dl soðið vatn  (fiber husk + vatn blandað saman í bolla)
  • 2 dl glúteinlaust mjöl (möndlumjöl, rísmjöl eða tilbúin glúteinlaus mjölblanda – verður aðeins mismunandi eftir hvaða mjöl er notað, finnst best að blanda saman 2-3 tegundum frekar en að nota eingöngu eina tegund ) Í upphaflegu uppskriftinni er miðað við 100 g en ég er svo löt að teygja mig í viktina að mér hefur fundist mátulegt að nota 2 dl)
  • 2 msk ólífuolía (í upphaflegu uppskriftinni er 1 msk en mér finnst botninn mýkri að hafa þær 2)
  • Vel af kryddi t.d. pizzakrydd, oregano eða villijurtir frá Pottagöldrum

Aðferð: 

  1. Blandið saman hráefnunum og hnoið þannig að deigið verður fín kúla.
  2. Fletjið út á bökunarpappír.
  3. Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).
  4. Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.
  5. Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Blandið saman þannig að deigið verður fín kúla.

Fletjið út á bökunarpappír:


Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).

Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.

Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Vonandi finnst ykkur þessi botn jafn góður og mér 🙂

Verði ykkur að góðu…

Published by

Leave a Reply