Hvíti chia grauturinn

Hæ aftur 🙂

Búin að vera í dásamlegu sumarfríi og bara búin að vera í fríi frá blogginu líka.   Við fjölskyldan nutum þess að vera í tæpar 3 vikur í Stokkhólmi og nágrenni.  Yndisleg borg sem ég mæli með að þið heimsækið.  Prófuðum í fyrsta skipti íbúðarskipti og ég á pottþétt eftir að segja ykkur meira frá því síðar.

photo 1 (1) photo 2 (1)

Í svona fríi er nú ýmislegt sem fer úr skorðum í mataræðinu en að mínu mati er tvennt sem skiptir máli.   Í fyrsta lagi er það að NJÓTA!   Njóta þess að borða góðan mat og njóta þess að vera til og ALLS EKKI vera með eitthvert samviskubit.  Í öðru lagi að horfa á heildarmyndina, ef við höldum nokkrum hlutum í góðu lagi, erum til dæmis með mikið af grænmeti með matnum, borðum mikið af ávöxtum og berjum, pössum að drekka mikið vatn, hreyfum okkur mikið og fáum meirii svefn en vananlega vinnur það á móti öllu hinu.

Það er tvennt sem ég gerði alla ferðina og fannst muna miklu og það er annars vegar sítrónuvatnið á morgnanna og hitt var chia grauturinn.  Chia fræin eru svo svakalega trefjarík og halda meltingunni í toppformi.  Mörgum finnst chia grauturinn svo ógirnilegur svona grár og ljótur og slepjulegur en þá er um að gera að prófa hvíta chia grautinn.  Topp útgáfan er að sjálfsögðu heimagerða möndlumjólkin en þar sem ég var ekki með aðgengi að blandara úti notaði ég keypta kókosmjólk en aðal dekrið var að setja þau út í jógúrt.  Þar sem 2 af börnunum eru nánast mjólkurlaus voru þau alveg vitlaus í mjólkurlausa jógúrtið frá Planti, fékkst í mörgum bragðtegundum og þeim fannst erfitt að velja hvað væri best, sennilega creamy vanilla.  Þessi jógúrt eru unnin úr óerfðabreyttu soja en þau eru að sjálfsögðu langt frá því að vera sykurlaus.  En þetta var skemmtileg tilbreyting.

En í dag ætla ég að gefa ykkur uppskriftina af hvíta chia grautnum með heimagerðu möndlumjólkinni.

Hvítur chiagrautur

Hráefni:

(handa einum)

  • 2 msk chia fræ
  • 200 ml vatn /möndlumjólk / jógúrt

Aðferð:

  1. Hrærið saman chia fræjum og vatni eða möndlumjólk.
  2. Látið liggja í ca. 10 mín.
  3. Bætið við ávöxtum t.d. epli, mangó eða berjum
  4. Ofaná er gott að setja mórber, kókosflögur, hnetur eða kanil

 

Heimagerða möndlumjólkin

Gerir uþb. 2 lítra

  • Möndlur 250gr
  • Vatn 1,5-2 litrar
  • 2 döðlur
  • 1/2 tsk hreint vanilluduft
  1. Leggjið möndlurnar í bleyti yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af og skolið möndlurnar vel.
  3. Setjið nú í blandara, möndlurnar ásamt hreinu vatni. Það er gott að byrja á því að setja lítið meðan þær eru að maukast en bæta svo við meira vatni.
  4. Ég sigtaði mjólkina hér áður fyrr en er hætt því og hef hana bara nokkuð “grófa” til að hún sé næringarríkari. Hér getið þið líka hellt henni í gegnum sigti ef þið viljið hafa hana “fínni”.

Mjólkin geymist í um það bil 4 daga í ísskáp.

hvíti chia grauturinn

En svo er það líka þannig að allur matur bragðast betur utandyra í góðu veðri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaði chia búðingur

Sparilegur chia grautur tilvalin fyrir helgarnar og sumarfríið.  Stútfullur af næringu og vítamínum.   Litli minn 3ja ára ELSKAR þennan morgunverð 🙂

Súkkulaði chia búðingur

Fyrir 1

Hráefni:

  • 2 dl vatn og/eða möndlumjókl (eða önnur mjólk að eigin vali)
  • 1/4 avakadó eða 1/2 ef það er mjög lítið
  • 2 msk chia fræ
  • 1 tsk kakó
  • örlítil hrein vanilla (þarf ekki en er mjög gott)
  • 1 mjúk stór daðla (eða 2-3 dropar stevía)

Aðferð:

  1. Setjið allt nema chia fræin í blandara og blandið vel saman.
  2. Hellið blöndunni í skál og blandið chia fræjunum vel saman við.
  3. Bíðið í uþb 10 mín og njótið.
  4. Berið fram með peru eða banana og einhverju góðgæti t.d. mórberjum, kókosflögum, valhnetum, kakónibbum eða öðru súperfæði.

Súkkulaði chia búðingur

 

Góða helgi 🙂

Hamp chia grautur

Frábær morgunverður sem tekur enga stund að útbúa.  Þetta er uppáhaldið þessa dagana.  Það má líka setja meiri vökva, setja á flösku og taka með sér í nesti.  Ég gerði það í gær þegar ég hafi 0 mín fyrir hádegismat.   Ég fór á svakalega fræðandi og skemmtilega ráðstefnu um meltingarflóruna.  Algerir snillingar með fyrirlestra og hausin er enn að snúast í hringi og finna hugmyndir hvernig hægt er að bæta flóru fjölskyldunnar 😉

En aftur að grautnum,

Hamp chia grautur

Hráefni:

  • 2 msk chia fræ
  • 2 msk hampfræ
  • 2 dl vatn/möndlumjólk eða önnur mjólk/vökvi að eigin vali
  • 3 dropar stevía (eftir smekk)
  • kanill (líka eftir smekk)
  • Ávextir að eigin vali =  ég er á myndinni með mangó og perur
  • Gúmmilaði til að strá yfir að eigin vali =  ég er með mórber, goji ber og kakónibbur (blanda sem ég elska bæði út á grauta og í heimagert súkkulaði)

Aðferð:

  1. Setjið fræin í bleyti (nóg 10 mín en má vera yfir nótt)
  2. Bætið ávöxtum við og stráið gúmmilaði yfir

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Sítrónu- kókos morgunverðarkaka

Gerði  þessi stykki nú í vikunni og þvílík dásemd.  Með því að nota glúteinlausa hafra eru þau glúteinlaus, auk þess að vera án viðbætts sykurs og Chia fræin eru ofurfæða og eru sneisafull af kalki, Omega3 ofl.    Ég skal vera hreinskilin, þetta er svona pínu maus uppskrift, sem ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af því ég vil helst hræra öllu hráefninu saman í eina skál og hella í mót en ég á pottþétt eftir að gera þessa mjög oft.  Þetta er svona á milli þess að vera kaka og orkubar.  Gaman að gefa krökkunum holla köku um helgina sem er full af næringu, góð orkustykki fyrir þá sem eru í framkvæmdum og geggjað í helgar-morgunmatinn 🙂

Upprunalega uppskriftin er frekar lítil svo ég tvöfaldaði hana og veitti ekki af því hún féll í mjög góðan jarðveg 🙂

Tvöföld uppskrift:

  • 3 msk Chia fræ
  • 6 msk sítrónusafi
  • 2 bollar haframjöl – malað
  • Smá salt
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1,5 bolli (ca 3,5 dl) Kókosmjöl
  • 4 msk sítrónubörkur
  • 4 msk kókosolía (fljótandi)
  • 4 msk eplamús (ég smellti bara epli í pott og gufusauð í nokkrar mín og stappaði með gaffli)
  • ½ bolli Hunang eða Agave sýróp (má alveg minnka aðeins ef ykkur finnst þetta of mikil sæta)
  • 1 bolli döðlur smátt skornar
  • 4 msk kókosmjöl

Aðferð:

  1. Leggið Chia fræin í bleyti í sítrónusafanum og leyfið þeim að drekka í sig sítrónusafann í ca 15 mín
  2. Ef þið eigið ekki tilbúna eplamús, skrælið þá epli og gufusjóðið í nokkrar mínútur
  3. Malið haframjölið í matvinnsluvél
  4. Saxið döðlurnar smátt
  5. Rífið niður sítrónubörk
  6. Blandið saman haframjölinu,  kókosmjölinu, saltinu og lyftiduftinu.
  7. Blandið saman Chia fræjunum, eplamúsinni, hunangi/sýrópi, kókosolíunni og döðlunum  (smá tips, ef þið gufusuðuð epli þá bráðnar kókosolían þegar þið blandið þessu öllu saman 😉 )
  8. Blandið svo blautu efnunum saman við þurru efnin og blandið þangað til allt er búið að samlagast.
  9. Setjið deigið á bökunarplötu og stráið kókosmjölinu yfir.
  10. Bakið v/ 150°  í 25-28 mín

Njótið 🙂

Sítrónu- kókos morgunverðarkaka

Það er alveg spurning um að gera 2x tvöfalda næst og ná í fulla ofnskúffu. Þá endist skammturinn kannski lengur en í 2 daga 🙂

Sítrónu- kókos morgunverðarkaka

Suðrænn Chia grautur

Þessi morgunmatur er mjög frískandi og skemmtilegur.  Ég hef sjeikinn nokkuð þykkan og hann er borðaður úr skál og með múslí.

  • 1 mango eða 3-4 dl af frosnu
  • 3-4 dl ananas (frosin)
  • 3 msk chia fræ (búin að liggja í bleyti yfir nótt)
  • 2,5 dl kókosvatn
  • 2-3 msk kókosmjöl
  • 2 msk kókosolía
  • 3 msk hveitikím
  • 1-2 msk hunang

Allt sett í blandarann og blandað þangað til silkimjúkt.

Ef þið viljið hafa hann þynnri, þá bara slepppið þið kókosmjölinu og setjið meiri vökva.

Ef ykkur finnst hann ekki nógu sætur þá getið þið bætt nokkrum dropum af Steviu við (2-4 dropa).

Suðrænn Chia grautur