Hvíti chia grauturinn

Hæ aftur 🙂

Búin að vera í dásamlegu sumarfríi og bara búin að vera í fríi frá blogginu líka.   Við fjölskyldan nutum þess að vera í tæpar 3 vikur í Stokkhólmi og nágrenni.  Yndisleg borg sem ég mæli með að þið heimsækið.  Prófuðum í fyrsta skipti íbúðarskipti og ég á pottþétt eftir að segja ykkur meira frá því síðar.

photo 1 (1) photo 2 (1)

Í svona fríi er nú ýmislegt sem fer úr skorðum í mataræðinu en að mínu mati er tvennt sem skiptir máli.   Í fyrsta lagi er það að NJÓTA!   Njóta þess að borða góðan mat og njóta þess að vera til og ALLS EKKI vera með eitthvert samviskubit.  Í öðru lagi að horfa á heildarmyndina, ef við höldum nokkrum hlutum í góðu lagi, erum til dæmis með mikið af grænmeti með matnum, borðum mikið af ávöxtum og berjum, pössum að drekka mikið vatn, hreyfum okkur mikið og fáum meirii svefn en vananlega vinnur það á móti öllu hinu.

Það er tvennt sem ég gerði alla ferðina og fannst muna miklu og það er annars vegar sítrónuvatnið á morgnanna og hitt var chia grauturinn.  Chia fræin eru svo svakalega trefjarík og halda meltingunni í toppformi.  Mörgum finnst chia grauturinn svo ógirnilegur svona grár og ljótur og slepjulegur en þá er um að gera að prófa hvíta chia grautinn.  Topp útgáfan er að sjálfsögðu heimagerða möndlumjólkin en þar sem ég var ekki með aðgengi að blandara úti notaði ég keypta kókosmjólk en aðal dekrið var að setja þau út í jógúrt.  Þar sem 2 af börnunum eru nánast mjólkurlaus voru þau alveg vitlaus í mjólkurlausa jógúrtið frá Planti, fékkst í mörgum bragðtegundum og þeim fannst erfitt að velja hvað væri best, sennilega creamy vanilla.  Þessi jógúrt eru unnin úr óerfðabreyttu soja en þau eru að sjálfsögðu langt frá því að vera sykurlaus.  En þetta var skemmtileg tilbreyting.

En í dag ætla ég að gefa ykkur uppskriftina af hvíta chia grautnum með heimagerðu möndlumjólkinni.

Hvítur chiagrautur

Hráefni:

(handa einum)

  • 2 msk chia fræ
  • 200 ml vatn /möndlumjólk / jógúrt

Aðferð:

  1. Hrærið saman chia fræjum og vatni eða möndlumjólk.
  2. Látið liggja í ca. 10 mín.
  3. Bætið við ávöxtum t.d. epli, mangó eða berjum
  4. Ofaná er gott að setja mórber, kókosflögur, hnetur eða kanil

 

Heimagerða möndlumjólkin

Gerir uþb. 2 lítra

  • Möndlur 250gr
  • Vatn 1,5-2 litrar
  • 2 döðlur
  • 1/2 tsk hreint vanilluduft
  1. Leggjið möndlurnar í bleyti yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af og skolið möndlurnar vel.
  3. Setjið nú í blandara, möndlurnar ásamt hreinu vatni. Það er gott að byrja á því að setja lítið meðan þær eru að maukast en bæta svo við meira vatni.
  4. Ég sigtaði mjólkina hér áður fyrr en er hætt því og hef hana bara nokkuð “grófa” til að hún sé næringarríkari. Hér getið þið líka hellt henni í gegnum sigti ef þið viljið hafa hana “fínni”.

Mjólkin geymist í um það bil 4 daga í ísskáp.

hvíti chia grauturinn

En svo er það líka þannig að allur matur bragðast betur utandyra í góðu veðri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

Leave a Reply