Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat. Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA. Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin! Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.
Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).
Hráefni:
- soðið kínóa
- egg
- kókosolía
- góð ólífuolía
- salt og pipar
- steinselja
- grænmeti af eigin vali
(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)
Aðferð:
- Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
- Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
- Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
- Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda því ekki alveg saman heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
- Stráið fersku steinseljunni yfir.
- Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
- Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum. Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.
Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.
Dásamlega gott kóríander pestó
- 1 dl kóríander (ferskt)
- 1/2 dl pekanhnetur
- 1/2 tsk salt
- 1/2 lime (safinn) – má vera minna
- 1 dl kaldpressuð ólífuolía
- Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
- Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.
Verði ykkur að góðu 🙂