Eggjahræra með kínóa og kóríanderpestói

Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat.  Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA.  Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin!   Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.

hádegismatur

Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).

Hráefni:

  • soðið kínóa
  • egg
  • kókosolía
  • góð ólífuolía
  • salt og pipar
  • steinselja
  • grænmeti af eigin vali

(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
  2. Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
  3. Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
  4. Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda  því ekki alveg saman  heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
  5. Stráið fersku steinseljunni yfir.
  6. Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
  7. Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum.  Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.

Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.

Dásamlega gott kóríander pestó

  • 1 dl kóríander (ferskt)
  • 1/2 dl pekanhnetur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 lime (safinn) – má vera minna
  • 1 dl kaldpressuð ólífuolía
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
  2. Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaðisæla – ofurmorgunverður fyrir sælkera

Hérna kemur minn uppáhaldsmorgunverður þessa dagana.  Chia fræ, kínóa og hamfræ, toppað með ofurfæðu.  Það sem mér líður vel eftir þessa máltíð og verð ekki svöng fyrr en löööööngu seinna.  Þetta getur verið mjög fljótlegt, það er hægt að gera kalda grautinn kvöldið áður og jafnvel fyrir 3-4 daga í einu.  Um morguninn er svo bara að setja þetta í skál eða fallegt glas.  Oft hefur krukka verið notuð því það er svo þægilegt að geta hent ollu ofan í hrist og bætt svo bara ávöxtunum við daginn eftir.  Maðurinn minn fær oft svona krukku með sér í nesti í vinnuna til að hafa sem millimál og er mjög sáttur.

IMG_7328

Hráefni:  (2 skammtar)

  • 2 dl Soðið kínóa eða 3-4 msk tröllahafrar
  • 2 msk chia fræ
  • 2 dl möndlumjólk (eða önnur mjólk)
  • 1 msk kakó (má vera minna, mér finnst gott að hafa mikið kakóbragð)
  • 1-2 msk hampfræ
  • 1/2-1 pera
  • 1 msk kakónibbur
  • 1 msk mórber (mulberry)
  • nokkrar hnetur að eigin vali

  Aðferð:

Blandið saman soðnu kínóa, chia fræjum, hampfræjum og kakói.

IMG_7321

Hellið mjólkinni yfir og leyfið chia fræjunum að drekka í sig vökvann á meðan þið brytjið niður peruna ( eða annan ávöxt sem ykkur þykir góður.  Mér þykja perur bara passa svo svakalega vel með súkkulaði)

IMG_7323

Setjið peruna ofan á og setjið yfir hana kakónibbur og mórber.

IMG_7328

Þið getið svo bætt við meiri mjólk ef ykkur finnst þurfa.

IMG_7330

Það getur verið að einhverjum þyki grauturinn of rammur og þá má alveg bæta við nokkrum dropum af stevíu saman við.  Ég myndi ekki setja meira en 4-5 dropa í uppskriftina hér að ofan því perurnar gefa líka sætt bragð og mórberin.

Ég er nýbúin að eignast 2 svona dásamlega fallega latte bolla sem eru svo sætir (sýni ykkur hinn seinna) að ég nota hvert tækifæri til að nota þá.  Ég get ekki drukkið kaffi allan daginn svo ég nota þá undir morgungrautinn og fer bara töluvert glaðari inn í daginn að borða úr svona fallegu íláti 🙂

Ath. þessi uppskrift er á bls. 4 í nýjasta uppskriftarheftinu 🙂

Kínóaréttur með sveppum og trönuberjum

Þetta er ótrúlega góður Kínóa réttur.  Er mjög einfalt og tekur ekki nema örfáar mínútur ef þið eigið þegar soðið Kínóa inni í ísskáp.  Þessi samsetning af lauk, sveppum og trönuberjum er alveg einstaklega góð og eins og það kalli fram það besta hjá hvoru öðru.  Þessi uppskrift var í námsbókunum mínum svo ég á ekkert í henni nema það að ég bý þetta mjög reglulega til.

Ég er tiltölulega nýfarin að elska Kínóa.  Hér áður fyrr keypti ég einstaka sinnum  Kínóa og notaði í staðinn fyrir hrísgrjón en eftir að ég komst almennilega upp á lag með það gersamlega ELSKA ég það:) Það er fljótlegt að elda það og það er hægt að nota það í næstum því um það bil hvað sem er.  Það er glúteinlaust, próteinríkt, inniheldur mörg næringarefni, trefjar og auðmeltanlegt, er hægt að biðja um eitthvað betra?

Ég er ekki ein um það að elska Kínóa því Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur opinberlega lýst því yfir að árið 2013 verði  viðurkennt sem “Alþjóðlegt ár Kínóa.” Það var nefnilega það. Áfram Kínóa 🙂

En aftur að réttinum.

Miðað við ca 3 – 4

  • 1-2 msk olía
  • Nokkrir sveppir
  • 1 laukur (má líka vera rauðlaukur)
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 -2 msk grænmetiskraftur + smá vatn
  • Lúka af þurrkuðum trönuberjum
  • 4-5 dl af soðnu Kínóa (eða sjóðið skv.leiðbeiningum)

Aðferð:

  1. Setjið olíuna á pönnu og snöggsteikið sveppina, bætið lauk og hvítlauk út í.
  2. Bætið vatninu og grænmetiskraftinum á pönnuna og blandið vel saman.
  3. Setjið Kínóa út á pönnuna og blandið vel saman.
  4. Endið á því að setja trönuberin út í.

Gott með góðu sallati eða hverju sem er.  Í tilefni af því að ég átti bæði fallegt þroskað mangó og kóríander (ásamt rauðlauk og lime)  bjó ég til mangó-salsa sem við vinkonurnar boðuðum með þessum rétt og það var bara dásamlegt 🙂

kínóa

Kínóaréttur

Kínóa pönnukökur

Eins og áður hefur komið fram elska ég Kínóa.  Finnst það bara eitthvað svo fullkomin fæða 🙂  Hér er enn ein hugmyndin hvernig hægt er að bæta Kínóa inn í mataræðið.  Það er að baka Amerískar pönnukökur og setja soðið Kínóa saman við.  Við það verða pönnukökurnar ennþá matarmeiri, næringarríkari og próteinríkari.  En það er algert frumskilyrði að grjónin hafi verið látin liggja í bleyti áður en þau voru soðin og skoluð vel svo grjónin séu ekki römm.  Það er góð hugmynd að baka stóran skammt og eiga inni í ísskáp eða frysti (og setja í brauðristina) handa litlum munnum.  Þessi hugmynd vaknaði þegar fjölskyldan borðaði kvöldmatinn mjög snemma og fór svo sund.  Þegar heim var komið voru allir svo svangir eftir sundið og eitthvað lítil til í kotinu.   Ég var fyrst pínu feimin við að setja mikið magn af grjónum út í en blandaði alltaf meira og meira þangað til öll grjónin voru komin út í deigið.  Kom skemmtilega á óvart hversu ljúffengt þetta var.  Eftir þetta hafa Kínóapönnukökur verið reglulega á borðum.

Hér kemur tvöföld uppskrift, enda dugir ekkert minna fyrir 5 manna fjölskyldu 🙂

Hráefni:

  • 5 dl spelt (fínt/ gróft)
  • 2 msk lyftiduft
  • 0,5 tsk salt
  • 2-3 msk hlynsýróp eða döðlumauk
  • 2 egg
  • 4 msk kókosolía/ smjör
  • 5-6 dl vökvi (vatn, mjólk, rísmjólk, möndlumjólk, kókosmjólk)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2-4 dl soðið kínóa

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnum í skál.
  2. Í aðra fara egg, olían, sykurinn, vanilludroparnir og hluti af vökanum.
  3. Blandið vel saman með písk þangað til blandan er orðin slétt.
  4. Blandið svo rólega saman við þurru efnin og hrærið rólega.
  5. Bætið svo kínóa saman við og restinni af vökvanum.

Deigið á að vera frekar þykkt, ef ykkur finnst pönnukökurnar allt of þykkar og lengi að bakast þá bætið þið bara meira vökva saman við.

Hitið viðloðunarfría pönnu og hafið hana meðal heita.  Hellið deigi á pönnuna og bíðið þangað til “loftbólurnar” hætta þá er komin tími til að snúa við.  Bakið í 20-40 sek á hinni hliðinni og þá ætti pönnukakan að vera klár.

amerískar pönnukökur

Það er mjög gaman að leika sér með amerískar pönnukökur, ég set oft einhverja hollustu út í þegar ég baka þær.  T.d. Chia fræ, Lucuma duft eða Hveitikím.  Það er hægt að setja hvað sem er ofan á, t.d. smjör, ost, sultu, hnétusmjör, möndlusmjör en á sunnudagsmorgnum þá er skylda að fá sér íslenskt smjör og ekta hlynsýróp 😉  Það er frábært að eiga þessar inni í skáp og grípa í eina og eina t.d. eftir skóla eða í kvöldkaffi 🙂

Kínóa morgungrautur

Þar sem morguninn er sá tími sem flestir eru á hraðferð, mæli ég með því að vera búin að sjóða grjónin áður. Sjá hér. Þannig er hægt að gera þennan frábæra, holla, próteinríka, nærringarríka, orkugefandi og bragðgóða morgunmat á 5 mín.

Setjið soðið Kínóa í pott ásamt smá vatni og hitið í 5 mín.  Bætið við smá vanillu ásamt smá Himalayjasalti/ sjávarsalti og gott að setja væna skeið af kókosolíu útí.

Borið fram með mjólk/ rísmjólk/ möndlumjólk og allskonar gúmmílaði af eigin vali.  Yfirleitt set ég nokkra hluti á borðið og hver og einn velur fyrir sig. Uppáhaldsútgáfan mín er: Kanilsykur, bláber og kókosflögur

Hér eru nokkrar hugmyndir:  kanilsykur, rúsínur, þurrkuð trönuber, saxaðar hnétur eða möndlur, bláber, saxað epli eða kókosflögur.

Kínóa

Kínóa er glúteinlaust korn, reyndar telst það vera fræ frekar en korn.  Það er mjög næringarríkt, próteinríkt (það inniheldur allar 8 amínósýrurnar sem eru líkamanum nauðsynlegar), trefjaríkt og inniheldur góðar fitursýrur.  Það er skemmst frá því að segja að þetta litla korn er komið í algert uppáhald hjá mér.  Nú er það í boði í morgunmat, hádegismat og kvöldmat en kannski ekki allt sama daginn 😉   Það er sniðugast að elda mikið í einu og eiga svo tilbúið í skál inni í ísskáp.  Soðið Kínóa geymist í nokkra daga í loftþéttu íláti.

Þegar Kínóa fór að fást í Sollu hillunni í Bónus reyndi ég nokkrum sinnum að gera morgungraut úr því en hann var alltaf svo rammur að ég gafst upp á því.  En mér fannst gott að sjóða Kínóa og setja vel af grænmetiskrafti og nota svipað og hrísgrjón.

En málið er að það borgar sig að leggja grjónin í bleyti.  Skola vel fyrst og leyfa þeim svo að liggja í köldu vatni, amk. hálftíma eða yfir nótt.  Við það losnar efni sem heitir Sapponin af korninu.  Þetta er náttúrulegt skordýraeitur og það er gott að losna við það áður en við borðum grjónin.  Þegar þið hellið vatninu af grjónunum sjáið þið að vatnið er mjög gruggugt og líka mjög sterk lykt af því . Ef þetta er gert er ekki lengur þetta ramma bragð af því.

Þegar Kínóa er soðið:

Setjið 1 hluta af Kínóa í pott ásamt 2 hlutum af vatni og sjóðið í 20 mín

Eins og ég nefndi hér að ofan finnst mér sniðugast að sjóða mikið magn í einu og þá er t.d. mjög fljótlegt að búa til graut á morgnanna, þá þarf ekki að sjóða í 20 mín, heldur bara hita upp 🙂

KínóaKínóaKínóaKínóa