Tómat – basilíku súpa

Það er aðeins farið að kólna og verða heldur hráslagalegt úti svo við höldum okkur í súpu uppskriftunum í bili.  Þessa súpu hef ég gert mjög oft í gegnum tíðina og brá heldur betur í brún þegar ég áttaði mig á því að hún væri ekki hér á síðunni.  Hún er mjög einföld og fljótleg.  Það er sniðugt að bera fram gróft brauð eða hrökkbrauð með pestó með henni en einnig er gott að bera fram harðsoðin egg með henni til að gera máltíðina próteinríkari.

Hráefni:

 • 1 msk hitaþolin steikingarolía
 • 5-6 gulrætur
 • 2 stönglar sellerí
 • 1 lítri vatn
 • 2 grænmetistengingar eða notið soð í staðinn fyrir vatnið (eða hluta af vatninu)
 • 1-2 msk pizzakrydd
 • 2 msk grænt pestó
 • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að setja smá sætu á móti tómötunum)
 • 1 flaska (400 ml) tómat passata
 • væn lúka af basiliku
 • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

 1. Hitið olíu í potti.
 2. Setjið gulrætur og sellerí út í pottinn ásamt pizzakryddinu og leyfið þessu að malla rólega í kryddinu í smástund.
 3. Bætið öllu saman við pottinn og sjóðið í uþb. 10 mín eða þangað til gulræturnar eru orðnar mjúkar.
 4. Þið ráðið hvort þið maukið súpuna eða hafið hana tæra með grænmetisbitunum.  Það er bara smekksatriði.

 

Ef þið þolið mjólkurvörur er hrikalega gott að setja nokkrar matskeiðar af rifnum parmesan út í pottinn.

Verði ykkur að góðu 🙂

 

Kjúklingasúpa með kúrbítsnúðlum

Hér er á ferðinni dásamleg haustsúpa.  Hún er einföld og góð sérstaklega fljótleg ef þið eigið til kjúklingaafgang til að nota.  Mér finnst gott að setja svolítið vel af kryddmaukinu og leyfa því aðeins að rífa í.  Þannig verður þetta ágætis haust / flensu súpa.  Hér að neðan er uppskrift af geggjuðu kryddmauki sem þið getið búið til sjálf.

Ég verð að viðurkenna að ég varð alveg hissa hvað kúrbítsnúðlurnar mældust vel fyrir hjá krökkunum (ég hef greinilega ekki nógu mikla trú á þeim 😉 )  Ég ætlaði upphaflega að setja venjulegar hrísgrjónanúðlur hjá þeim en kúrbítsnúðlur fyrir okkur fullorðna fólkið en þegar það kom í ljós að engar hrísgrjónanúðlur voru til ákvað ég bara að prófa þetta og það voru allir bara mjög sáttir.  Svo eftir það nota ég bara kúrbítsnúðlur.   Nú er uppskerutími fyrir kúrbít og þar af leiðandi er hann bæði ódýr og lítur vel út.  Það er því um að gera að nota tækifærið og prófa sig áfram í kúrbítsnúðlugerðinni

 

 

Hráefni:

 • 1 msk hitaþolin steikingarolía
 • 1 msk curry paste eða heimatilbúið kryddmauk (uppskrift að neðan)
 • 1 liter kjúklinga- eða grænmetissoð, heimatilbúið eða keypt, eða 1 liter vatn og 2 grænmetisteningar
 • 4-500 gr eldað kjúklingakjöt eða meira grænmeti ef þið viljið hafa þetta fyrir grænmetissúpu
 • 3 gulrætur
 • 3 vorlaukar
 • safi úr 1/2 lime
 • 2 msk tamari sósa
 • 1/2 kúrbítur (skerið hann hálfan eftir endilöngu)
 • væn lúka af fersku kryddi til dæmis: steinselja, basilika og/eða kóríander
 • salt og pipar
 • Ég skreytti súpudiskana með fersku kóríander og blaðlauksspírum en endilega notið hugmyndaflugið 🙂

Aðferð:

 1. Eldið kjúklinginn ef þið eigið hann ekki til eldaðan, (það er tilvalið að gera þessa súpu úr afgöngum.)   a) Ef þið eruð með bringur, skerið þær í litla bita og steikið smá kjúklingakryddi.   b) Ef þið eruð með kjúklingalæri finnst mér best að krydda vel og steikja svo á báðum hliðum og setja svo í ofn í 20 mín (við 180°)
 2. Hitið olíu í potti og setjið kryddmaukið út í og leyfið því að hitna vel.
 3. Setjið kjúklingasoðið (eða vatnið og teningana) út í pottinn.
 4. Skerið gulrætur í langa strimla og bætið út í.
 5. Leyfið súpunni að malla í  10 mín.
 6. Setjið kjúklinginn saman við.
 7. Bætið við tamari sósu, limesafanum og smakkið til með salti og pipar.
 8. Skerið niður kúrbítinn í lengjur.  Það er hægt að fá allskonar tæki til að búa til grænmetis “núðlur”  en ég fékk minn skera í Dúka fyrir einu ári síðan og er mjög ánægð með hann. Hann er kannski ekki tillvalin í fjöldaframleiðslu en fínn í svona smotterí.

Hér kemur uppskrift af geggjuðu heimatilbúnu kryddmauki sem er sniðugt að búa til og frysta svo í litlum bitum.  

 • 2 hvítlauksgeirar
 • Vænn biti af engifer
 • 1 rauður ferskur chillipipar (ath. Gott að taka fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
 • 1,5 msk garam masala – eða önnur góð karrý kryddblanda
 • 1,5 msk arabískar nætur – kryddblanda frá Pottagöldrum
 • 1 msk túrmerik
 • 1 msk cumin
 • 1 tsk salt
 • væn lúka af ferskum kóríander, helst stilkum (ef ykkur líkar ekki kóríander þá má líka setja steinselju í staðinn)
 • 1/2 dl möndlur
 • 1 sítróna – safinn
 • 3-4 litlar döðlur
 1. Allt sett í litla matvinnsluvél og maukað.
 2. Maukinu skipt í litlar kúlur of fryst.
 3. Þetta kryddmauk einfaldar svo mikið eldamennsku frá grunni og á næstum vikum ætla ég að gefa ykkur fleiri uppskriftir þar sem þið getið nýtt ykkur þetta kryddmauk.

Gangi ykkur vel

Einföld og fljótleg mexíkósk kjúklingasúpa

Börnin á bænum elska kjúklingasúpu og þar af leiðandi verður hún oft fyrir valinu hér á bæ.  Það er frekar langt síðan ég hef sett súpu uppskrift inn á vefinn og því alveg komin tími til.  Flestum súpu uppskriftum hef ég þurft að breyta örlítið síðusta árið eftir að ég komst að því að ákveðnir hlutir fara mjög illa í meltinguna mína.  Já maður er alltaf að læra á sjálfan sig og uppgvöta eitthvað nýtt.  Ég vona þó að það komi að því fyrr en seinna að ég geti bætt þessum hlutum inn í fæðið aftur.   Við erum til dæmis að tala um lauk og  hvítlauk, já þannig að það útskýrir hversvegna ég hef þurft að breyta flestum uppskriftum því ég var með lauk í ÖLLU!   Ég sakna lauksins mjög mikið en það hefur þó eitthvað jákvætt komið út úr þessu þar sem börnunum finnst maturinn betri ef eitthvað er og ég er fljótari að elda 🙂

Fyrirmyndin af þessari súpu er súpan hennar Ebbu Guðnýjar, sjá r !  Ég smakkaði hana fyrst hjá mömmu og hún sló í gegn.  Hún hefur breyst hjá mér heilmikið í tímanna rás.  Hér að neðan er útgáfan eins og ég hef eldað hana með engum lauk.

 

 

Hráefni:

 • 600-800 ml vatn
 • 400 ml maukaðir tómatar eða passata
 • 2 gerlausir grænmetisteningar
 • 1/2 sæt kartafla (eða 2 litlar)
 • 3 gulrætur
 • 2 litlar nípur (eða eitthvað annað grænmeti sem ykkur þykir gott)
 • 1 rauð paprika
 • væn lúka steinselja
 • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að fá örlitla sætu á móti tómötunum)
 • 2 kjúklingabringur kryddaðar vel með cumin, papriku, svörtum pipar og oregno.
 • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

 1. Hitið vatnið í potti.
 2. Skerið sætu kartöfluna í litla bita og setjið út í vatnið. Sjóðið í ca. 10-12 mín.
 3. Skerið kjúklingabringunar í bita og steikið á pönnu og kryddið vel.  (hér er líka frábært að eiga til afgang af kjúkling, en bætið þá smá kryddi við súpuna.)
 4. Skerið niður gulrætur og nípu í litla bita en ekki setja út í strax.
 5. Þegar sæta kartaflan er orðin nokkuð mjúk undir tönn farið þá með töfrasprota og maukið hana saman við vatnið.
 6. Bætið út í pottinn grænmetisteningum, maukuðum tómötum, kókospálmasykrinum og grænmetinu.  Leyfið súpunni að malla í um það bil 10 mín.
 7. Bætið kjúklingnum saman við ásamt papriku og steinselju.
 8. Kryddið með salt og pipar og berið fram með lífrænum nachosflögum.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

Karrý kókos grænmetissúpa

Bragðgóð, einföld og fljótleg súpa í miðri vikunni.  Það er virkilega gott að nota bakað grænmeti svo endilega næst þegar þið bakið grænmeti, takið smá til hliðar og búið til súpu næsta dag.  Þessi súpa er líka tilvalin mánudagssúpa, ef þið eigið bakað grænmeti í ísskápnum frá helginni.  Það er líka tilvalið að bæta kjúkling eða fisk saman við súpuna, allt eftir smekk hvers og eins.

karrý kókos grænmetissúpa

Hráefni:

 • 1 msk kókosolía
 • 1 tsk tandoori krydd eða önnur góð kryddblanda
 • 4 dl bakað grænmeti (sellerírót, sætar kartöflur og gulrætur í aðalhlutverki)
 • 6-7 dl vatn
 • 1/2 rauð paprika í litlum bitum
 • 1 dl kókosmjólk
 • 1 grænmetiskraftur
 • væn lúka steinselja
 • salt og pipar

Aðferð:

 1. Hitið kókosolíu í potti.
 2. Setjið kryddið í pottinn og leyfið því að malla aðeins í olíunni.
 3. Setjið bakaða grænmetið saman við og veltið upp úr kryddblöndunni.
 4. Bætið við vatni, kókosmjólk og grænmetiskrafti.
 5. Bætið paprikunni  og steinseljunni saman við.
 6. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur en svo er gott að leyfi henni að standa aðeins, hún verður enn betri þannig.

Það er langbest að eiga til afgang af bökuðu grænmeti því þá tekur matseldin mjög stuttan tíma. Það má líka brytja grænmeti niður og sjóða með súpunni en það kemur bara sérstaklega gott bragð ef notað er bakað grænmeti. Ef þið eigið ekki til afgang af bökuðu grænmeti, skerið þá niður 1/2 sellerírót, 1/2 sæta kartöflu og 2 gulrætur og bakið í ofni í 25 mín v/ 200°c.

fullsizerender6

Verði ykkur að góðu 🙂

Blómkáls- og brokkolísúpa

Uppskerusúpa sumarsins.  Þessa gerði ég nokkrum sinnum í sumar og heppnaðist alltaf jafnvel.  Hún verður auðvitað lang best ef notað er glænýtt íslenskt blómkál og brokkolí.  Með því að sjóða hluta af grænmetinu fyrst og mauka svo verður súpan þykk og matarmikil.

blómkálssúpaHráefni:

 • 1 blómkálshaus (stór)
 • 1 brokkolíhaus (stór)
 • 1 laukur
 • 2-3 kartöflur
 • 1 sellerístöngull
 • 2 grænmetisteningar (ég nota gerlausa frá Rapunzel)
 • 8 dl vatn
 • 2 dl þykk kókosmjólk
 • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

 1. Brytjið niður 1/2 haus af blómkáli (gróflega)
 2. Skerið niður laukinn (þarf ekki að vera smátt)
 3. Skerið kartöflurnar í nokkra bita
 4. Skerið sellerístöngulinn niður í nokkra bita
 5. Setjið allt í pott ásamt 3-4 dl af vatni (nóg þannig fljóti yfir)
 6. Sjóðið í u.þ.b. 10 mín eða þangað til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
 7. Hellið súpunni í blandarann (ef hann þolir sjóðandi vökva) og maukið súpuna.  Þið getið líka notað töfrasprota.
 8. Bætið nú  restinni af blómkálinu, brokkolíinu og grænmetiskraftinum út í pottinn ásamt 4-5 dl af vatni.
 9. Sjóðið í 5-6 mín eða þangað til blómkálið og brokkolíð er orðið mjúkt.
 10. Bætið kókosmjólkinni saman við og kryddið með salt og pipar.

 

 

 

Taco súpa með eða án kjöts

Fjölskyldan elskar allan mat með mexíkó bragði og er örugglega ekki ein um það.  Þessi einfalda taco súpa er í miklu uppáhaldi.  Hún er líka alveg sérlega einföld ef til er afgangur af nautahakki.  Þar sem ég er alltaf að reyna að minnka neyslu á kjöti og koma grænmeti inn í staðinn og þar af leiðandi er þessi súpa að mínu skapi. Smá kjöt en fullt fullt af grænmeti.  Fyrir þá sem vilja sleppa kjöti er lítið mál að setja baunir í staðinn fyrir nautahakk, til dæmis Aduki baunir eða litlar brúnar linsubaunir.

Copy of IMG_9738

 

Hráefni:

 • 1 tsk kókosolía
 • 1 laukur
 • 4 gulrætur
 • 1 sellerí stöngull
 • 1 rauð paprika
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 3 msk tómatmauk
 • 400 ml maukaðir tómatar
 • 1 liter vatn
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk cajun bbq frá Pottagöldrum
 • 3 dl eldað nautahakk
 • 1 msk kókospálmasykur
 • fersk steinselja
 • salt og pipar
 • 1 litri vatn

Aðferð:

 1. Byrjið á því að elda hakkið ef þið búið ekki svo vel að eiga afgang inni í ísskáp. Kryddið kjötið eftir smekk. Ef þið notið baunir í stað kjöts, gerið þið baunirnar klárar, takið þær tilbúnar úr frysti eða opnið dósina og skolið þær.
 2. Brytjið niður allt grænmetið.
 3. Hitið olíu í potti, leyfið lauknum að malla í smástund við lágan hita.
 4. Bætið gulrótum saman við ásamt selleríinu og að lokum paprikunni (paprikan þarf minni tíma).
 5. Bætið tómötum, tómatmauki, kryddi saman við ásamt vatni og leyfið súpunni að malla í u.þ.b. 10 mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 6. Bætið kjötinu saman við (eða baununum), fersku steinseljunni og kryddið með salti og pipar.
 7. Það er mjög vinsælt að mylja nokkrar Lífrænar maísflögur yfir súpuna.

Hér er mynd af þessari dásemdar súpu með baunum…

Copy of IMG_9735

Prófið að setja avakadó yfir súpuna, það er mjög gott og bætir upp að það er engin ostur er yfir súpunni.

Þessir kraftar finnst mér æðislegir þar sem ég er ekki það dugleg að búa til mín eigin soð en þeir eru án gers og aukaefna.  Bæði til nautakraftur, kjúklinga, grænmetis og margt fleira.

Copy of IMG_9726

Uppáhalds kryddin mín:

Copy of IMG_9731

Og keramik potturinn rauði hækkar alltaf  hamingjustigið örlítið á hverjum degi þegar ég stend yfir pottunum 🙂

Copy of IMG_9728

Í flestum heilsubúðum og heilsuhillum stórmarkaða er hægt að fá þessar lífrænu nachosflögur sem þýðir að þær innihalda ekki erfðabreyttan maís.

IMG_1882

Það er nú alveg veðrið í dag fyrir svona kraftmikla haustsúpu, hver haustlægðin á fætur annarri.  En það þýðir víst ekkert að kvarta yfir því, bretta bara upp ermarnar, kveikja á kertum og búa til súpu 😉

Copy of IMG_9735

Verði ykkur að góðu 🙂