Besta meðlætið – klettasalat með bökuðum rauðrófum og ristuðum pekanhnetum

Það er eiginlega alger skandall að þessi uppskrift sé ekki á síðunni þar sem hún er ein af mínum uppáhalds.  Þessa uppskrift hef ég gert mjög oft og vekur yfirleitt mikla hrifiningu.   Það passar mjög vel með lambakjöti og nautasteik en einnig passar það líka dásamlega vel með grænmetisbuffum og hnetusteik.

Rauðrófusalat

Hráefni: miðað við eina skál sem passar fyrir 5 manns 

  • klettasalat – 1 poki
  • bakaðar rauðrófur  – 2-3 meðal stórar
  • ristaðar pekanhnetur 1-2 dl (eftir smekk)
  • fetaostur (val)

Lögur fyrir rauðrófurnar:

  • 1 msk hlynsýróp – kreista safa úr mandarínu fyrir alveg sykurlausa útgáfu
  • 1 msk edik
  •  örlítið salt og pipar

 

Aðferð: 

  1. Bakið rauðrófur með því að vefja þær inn í álpappír og baka í 180°heitum ofni í 60-80 mín (eftir stærð).  Prófið að taka þær út og stinga með prjón eða mjóum hníf til að ath. hvort þær eru mjúkar í gegn.  Þetta má gera 1-2 dögum áður en salatið er búið til.
  2. Ristið pekan hnetur með því að setja þær á ofnplötu og baka við 150°í 10 – 13 mín.  Þegar þær hafa kólnað er gott að grófsaxa þær.
  3. Þegar þið hafið bakað og kælt rauðrófuna skerið þið hana í bita og setjið í skál.
  4. Setjið sýrópið og edikið yfir rauðrófurnar ásamt salti og pipar og blandið vel.  Leyfið þeim að liggja í þessum legi í amk. 15 mín áður en þið blandið saman salatinu, má alveg vera lengri tími.
  5. Byrjið á því að setja klettasalatið í skál eða á fat. Rauðrófurnar fara næst á fatið/skálina og við endum á pekanhnetunum. Fetaosturinn fer síðast og oftast ber ég hann fram sér þar sem ekki allir þola mjólkurvörur.

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Sinnepsósan

Þessi sósa vekur alltaf mikla lukku.  Það má nota hana á samlokur eða þynna út með ólífuolíu og nota með grænmetisréttum.  7ára skvísan mín sem er með mjólkuróþol elskar þessa sósu og kemur oft í staðinn fyrir smjör.  T.d. góð með harðsoðnum eggjum og kjúklingaskinku.  Eða bara eggjum og káli.  Passar líka vel með gúrkusneiðum eða kjúklingi.  Og svo mætti lengi telja.  Og svo passar hún ægilega vel með kalda kjúklinga-pasta salatinu sem er svo vinsælt á sumrin.

sinnepsósa

 

Hráefni:

  • 5 msk Sollu-majones
  • 1 msk Sollu-gróft sinnep (má örugglega nota dijon sinnep eða önnur gróf sinnep)
  • 1 msk Akasíu hunang eða eitthvert annað gott hunang
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 – 2 msk ólífuolía
  • 1 msk túrmerik
  • örlítið herbamare eða annað gott salt

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og hrærið vel eða í litla krukku með loki og hristið vel.

Mjög einfalt, það er hægt að gera stóran skammt og eiga inni í ísskáp. Hef mest geymt svona sósu í viku í ísskáp (hún klárast alltaf svo fljótt) og það var í góðu lagi með hana.

Hin fullkomna íssósa sem harðnar

Hér er hún mætt, hin fullkomna íssósa.  Það sem er svo fullkomið við hana, fyrir utan bragðið auðvitað er það að hún harðnar en er samt líka mjúk á sama tíma.  Málið er það að ef ísinn er mjög kaldur (eins og heimagerði ísinn er oft) þá harðnar hún ofan á ísnum, en þar sem hún liggur meðfram ísnum er hún mjúk.

IMG_3915

Þetta leysir líka vandamálið að bíða eftir að ísinn þiðni því heimagerði ísinn er oft vel frosin, því þar sem heit sósan lendir á ísnum mýkist hann miklu fyrr.

Þar fyrir utan er þessi íssósa er líka súper holl með engum gerviefnum og engum hvítum syrki.  Þetta er í raun uppskrift af heimagerðu súkkulaði sem er bara hellt yfir ísinn í stað þess að vera sett í mót og inn í kæli.

Hér er uppskriftin:

  • 2 msk  kakó
  • 2 msk kókosolía
  • 2 msk hlynsýróp/agave/akasíu hunang
  • 2 msk kakósmjör
  • örlítið salt og smá vanilla

Aðferð:

  1. Allt hitað rólega saman og hellt yfir ísinn.
  2. Ef það er afgangur (mjög ólíklegt) þá má setja hann í t.d. lítil sílíkonmót og inn í frysti

IMG_3904

 

Kakósmjör fæst t.d. í Bónus í Solluhillunni

IMG_3906

Ath. þar sem uppskriftin samanstendur af jafn miklu magni af öllum innihaldsefnunum er mjög auðvelt að gera hvaða magn sem er.  Ef uppskriftin er handa einum mætti nota 1 tsk af öllu.  Þessi uppskrift hér að ofan ætti að duga fyrir 4…en fer auðvitað eftir (súkkulaði)lyst 🙂

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Þeyttur kókosrjómi

Þetta er frábær hugmynd. Bæði fyrir þá sem eru með mjólkuróþol og líka alla hina.  Reyndar er það þannig að margir sem eru með mjólkuróþol þola samt rjóma og smjör í litlum skömmtum.  Það er vegna þess að þessar afurðir innihalda minna af mjólkurpróteinum og eru líka minna unnar.

Ég verð nú samt að koma því að hér að ég elska rjóma og finnst það eitt það besta í veröldinni 🙂  En það er alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt 🙂

En aftur að kókosrjómanum.

Setjið kókosmjólk inn í ísskáp í ca 1 klst eða í frysti í styttri tíma. Ekki nota Light útgáfu það er bara meira vatn í henni og því ekki alveg að virka þegar við ætlum að nota “rjómann”

IMG_3464

Opnið dósina og takið það sem er búið að harðna.  Setjið í skál og þeytið í smástund, það er nóg að nota pískara.

IMG_3465

IMG_3468

Það er gott að bragðbæta með smá vanilludufti og/eða smá hlynsýrópi.

Vökvann sem verður afgangs má geyma í ísskápnum og frábært að nota t.d. í smoothie.

IMG_3466

Það er hægt að leika sér með þetta og bæta við t.d. jarðaberjum eða hráu kakói og aðeins meiri sætu og búa þannig til kökukrem eða bara jarðaberjarjóma/ súkkulaðirjóma.

Hér gerði ég t.d. döðlukökuna hennar Ebbu Guðnýjar og setti á hana jarðaberjakrem úr kókosrjóma.

IMG_3478

Byrjaði á því að þeyta rjómann, setti frosin jarðaber í litlu matvinnsluvélina, bætti við hlynsýrópi  og hrærði svo allt saman.

IMG_3467

IMG_3469

Ég gef ekki upp nein  hlutföll því það er eiginlega bara smekksatriði, um að gera að prufa sig áfram 🙂

Ég fæ ekki leið á því  að hvetja ykkur til að lesa aftan á dósirnar/fernurnar þegar þið kaupið kókosmjólk.  Kókosmjólk og kókosmjólk er nefnilega alls ekki það sama.  Það er líka hægt að kaupa lífræna í heilsubúðum 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Túnfisksalat….kaupa eða gera sjálfur

Stelpurnar mínar elska túnfisksalat, sú eldri væri örugglega sátt við að fá það í nesti á hverjum einasta degi.  Maðurinn minn elskar líka túnfisksalat og öll fjölskyldan hans.  Áður en við kynntumst man ég ekki mikið eftir túnfissalati, það var frekar til rækjusalat eða hangikjötsalat heima.  En já, ég hef aldrei vitað til þess að okkur geti borðað jafn mikið túnfissalat og fjölskylda mannsins míns og þau eru búin að koma mér uppá bragðið 🙂   Ég ákvað að taka saman muninn á því að kaupa tilbúið eða að gera sjálfur.

salla

Fyrst kemur uppskriftin eins og hún er oftast á okkar heimili:

  • 1 dós túnfiskur
  • 1/2 dós Sollu-majones (mjólkuróþolsskvísan fær bara majones en ég set oft Lífræna gríska jógúrt með handa okkur hinum)
  • 1 tsk gróft sinnep (er með Sollu-sinnep í ísskápnum núna)
  • 2 til 3 msk Extra virgin ólífuolía (græna)
  • skvetta af sítrónusafa
  • smá salt (himalayja, sjávarsalt eða Herbamare)
  • smá svartur pipar
  • 1 tsk turmerik (verður reyndar mjög gult en turmerik er svo geggjað hollt en samt svo lítið bragð af því svo það er alger snilld að leyfa því að vera með)
  • 1/2 púrra, rauðlaukur eða laukur
  • 2-3 harðsoðin egg

Ég gerði salat um daginn, reiknaði út kostnaðinn og hann var eftirfarandi:  salatið vóg 400 gr, þar af var 140 gr túnfiskur eða um 35 % og salatið kostaði 330 kr.

Ef ég hefði keypt ódýrasta salatið í Bónus hefði ég borgað fyrir dósina 225 kr, en hún er bara 200 gr svo ég hefði þurft að kaupa 2 til að fá sama magn, þær hefðu kostað 450 kr.  Þau box innihalda 30 % túnfisk, sem er heldur minna.

Þannig að það er töluvert ódýrara að gera sitt salat sjálfur jafnvel þó notaður sé lífrænn majones.  Fyrir utan að heimagerða salatið getur innihaldið miklu meira af eggjum og minna af sósu, meiri lauk, og góð innihaldsefni eins og túrmerik og græna ólífuolíu.

Ef gert er heimatilbúið salat er maður líka laus við öll rotvarnarefni.  Og það er athyglisvert að í sumum tegundum er notað rotvarnarefnið E211 sem margir eru viðkvæmir fyrir og það hafa t.d. verið gerðar rannsóknir á tengslum þess við ofvirkni og heðgunarvanda (þá var því blandað saman við litarefni sem líka hafa verið gangrýnd og bönnuð í nokkrum löndum).  Það hafa verið gerðar rannsóknir en þær rannsóknir hafa ekki sýnt á fullnægjandi hátt að þetta rotvarnarefni sé skaðlegt heilsunni og þar af leiðandi ekki bannað.  En einhver ástæða er fyrir því að þessar rannsóknir voru gerðar.  Persónulega finnst mér ekki spennandi að borða eitthvað sem hefur þetta vafasama orðspor eða gefa barninu mínu sem er mjög viðkvæmt fyrir aukaefnum.

Að búa til túnfisksallat er eitthvað sem flestum krökkum finnst skemmtilegt.  Það er gaman að tína skurnina utan af eggjunum, skera þau og blanda þessu öllu saman.

Ég hvet ykkur til þess að velja heimatilbúið næst 🙂

 

 

Einfaldasta og ódýrasta Pesto í heimi

Í vor var ég var að búa til pestó en átti engar hnetur til að setja í það.  Það kom ekki að sök og þessi útgáfa sló algerlega í gegn og hefur síðan þá verið gert á þennan ofur einfalda hátt.

  • 10 sólþurrkaðir tómatar ca (nota þurrkuðu tómatana frá Sollu, læt þá liggja í bleyti áður en ég nota þá.)
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 hvítlauksrif
  • smá herbamare
  • 0,5 dl extra virgin ólífuolía
  • 0,5 dl lífræn sólblómaolía

Setjið tómatana í mini matvinnsluvélina, matvinnsluvél eða blandara og maukið. Pressið hvítlauk og blandið saman við ásamt olíunum.

Bragðið og hollustan fer svo upp á hærra plan ef það er til fersk basilika og/eða oregano til að setja saman við.

pestó