Gerði þessi stykki nú í vikunni og þvílík dásemd. Með því að nota glúteinlausa hafra eru þau glúteinlaus, auk þess að vera án viðbætts sykurs og Chia fræin eru ofurfæða og eru sneisafull af kalki, Omega3 ofl. Ég skal vera hreinskilin, þetta er svona pínu maus uppskrift, sem ég er yfirleitt ekki mjög hrifin af því ég vil helst hræra öllu hráefninu saman í eina skál og hella í mót en ég á pottþétt eftir að gera þessa mjög oft. Þetta er svona á milli þess að vera kaka og orkubar. Gaman að gefa krökkunum holla köku um helgina sem er full af næringu, góð orkustykki fyrir þá sem eru í framkvæmdum og geggjað í helgar-morgunmatinn 🙂
Upprunalega uppskriftin er frekar lítil svo ég tvöfaldaði hana og veitti ekki af því hún féll í mjög góðan jarðveg 🙂
Tvöföld uppskrift:
- 3 msk Chia fræ
- 6 msk sítrónusafi
- 2 bollar haframjöl – malað
- Smá salt
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 1,5 bolli (ca 3,5 dl) Kókosmjöl
- 4 msk sítrónubörkur
- 4 msk kókosolía (fljótandi)
- 4 msk eplamús (ég smellti bara epli í pott og gufusauð í nokkrar mín og stappaði með gaffli)
- ½ bolli Hunang eða Agave sýróp (má alveg minnka aðeins ef ykkur finnst þetta of mikil sæta)
- 1 bolli döðlur smátt skornar
- 4 msk kókosmjöl
Aðferð:
- Leggið Chia fræin í bleyti í sítrónusafanum og leyfið þeim að drekka í sig sítrónusafann í ca 15 mín
- Ef þið eigið ekki tilbúna eplamús, skrælið þá epli og gufusjóðið í nokkrar mínútur
- Malið haframjölið í matvinnsluvél
- Saxið döðlurnar smátt
- Rífið niður sítrónubörk
- Blandið saman haframjölinu, kókosmjölinu, saltinu og lyftiduftinu.
- Blandið saman Chia fræjunum, eplamúsinni, hunangi/sýrópi, kókosolíunni og döðlunum (smá tips, ef þið gufusuðuð epli þá bráðnar kókosolían þegar þið blandið þessu öllu saman 😉 )
- Blandið svo blautu efnunum saman við þurru efnin og blandið þangað til allt er búið að samlagast.
- Setjið deigið á bökunarplötu og stráið kókosmjölinu yfir.
- Bakið v/ 150° í 25-28 mín
Njótið 🙂
Það er alveg spurning um að gera 2x tvöfalda næst og ná í fulla ofnskúffu. Þá endist skammturinn kannski lengur en í 2 daga 🙂
Ein spurning er ekki glúten í haframjöli?
Hæ Kristín,
Það er hægt að kaupa glúteinlaust haframjöl. Ég kaupi það í Kosti, held að það sé ódýrast þar. Það er glúteinlaust og lífrænt og kostar 900 og eitthvað kílóið.
Kær kveðja,
Oddrún