Linsubauna bolognese

Linsubaunir eru fáránlega hollar, stútfullar af næringu og svo eru þær mjög ódýrar.   Þær henta því frábærlega vel í upphafi árs þegar margir hafa kannski borðað aðeins of mikið síðustu vikurnar og buddan er létt.

Sjálfri finnst mér best að leggja allan pokann í bleyti í einu og sjóða.  Taka svo frá það sem ég er að fara nota en frysta hitt í mátulegum skömmtum.    Þannig er ég búin að flýta fyrir næst þegar eldað er úr linsubaunum.  Mörgum finnst vesen að þurfa að leggja baunirnar í bleyti en það er nú ekkert svo flókið 🙂   Sumir vilja meina að það þurfi ekki að leggja linsur í bleyti eins og aðrar baunir.  En við það að leggja baunir í bleyti verða þær auðmeltalengri… það þýðir á góðri íslensku að maginn blæs ekki upp af lofti eftir kvöldmat og síðan eruð þið fram eftir kvöldi að losa loft!   Ég legg alltaf linsur í bleyti líka af þessari enföldu ástæðu, þær verða auðmeltanlegri!

Uppskrift:  

(uppskrift handa 4-5)

 • 1 msk hitaþolin steikingarolía
 • 3-4 gulrætur
 • 1-2 sellerístönglar
 • 2-3 dl soðnar brúnar eða grænar linsur (1-1,5 dl ósoðnar)
 • 1 dós smátt maukaðir tómatar eða 400 ml passata
 • 2 msk tómatpuré
 • Kryddið vel með kryddum sem ykkur þykja góð, t.d. oregano, Villijurtir frá Pottagöldrum, paprikukrydd og cumin, samtals ca.  3-4 tsk
 • 1 stk  grænmetiskraftur, gerlaus
 • Væn lúka fersk steinselja og basilika ef þið eigið til.
 • smakkið til með salt og pipar

 

    Aðferð:   

 1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í uþb 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka. Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 15-20 mín.
 2. Hitið olíu á pönnu, bætið við gulrótum og sellerí og leyfið því að malla aðeins á pönnunni.
 3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í 15-20 mín.
 4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið kryddjurtunum saman við.
 5. Sjóðið spaghetti að eigin vali eða búið til “spaghetti” úr kúrbít með spíralskera.

 

Eins og ég nefndi hér að ofan þá verða baunirnar auðmeltanlegri við að liggja í bleyti.  Ef þið eruð tímabundin eða gleymið því þá eru  samt 15-20 mín betri en ekkert.

Published by

Leave a Reply