Besta meðlætið – klettasalat með bökuðum rauðrófum og ristuðum pekanhnetum

Það er eiginlega alger skandall að þessi uppskrift sé ekki á síðunni þar sem hún er ein af mínum uppáhalds.  Þessa uppskrift hef ég gert mjög oft og vekur yfirleitt mikla hrifiningu.   Það passar mjög vel með lambakjöti og nautasteik en einnig passar það líka dásamlega vel með grænmetisbuffum og hnetusteik.

Rauðrófusalat

Hráefni: miðað við eina skál sem passar fyrir 5 manns 

  • klettasalat – 1 poki
  • bakaðar rauðrófur  – 2-3 meðal stórar
  • ristaðar pekanhnetur 1-2 dl (eftir smekk)
  • fetaostur (val)

Lögur fyrir rauðrófurnar:

  • 1 msk hlynsýróp – kreista safa úr mandarínu fyrir alveg sykurlausa útgáfu
  • 1 msk edik
  •  örlítið salt og pipar

 

Aðferð: 

  1. Bakið rauðrófur með því að vefja þær inn í álpappír og baka í 180°heitum ofni í 60-80 mín (eftir stærð).  Prófið að taka þær út og stinga með prjón eða mjóum hníf til að ath. hvort þær eru mjúkar í gegn.  Þetta má gera 1-2 dögum áður en salatið er búið til.
  2. Ristið pekan hnetur með því að setja þær á ofnplötu og baka við 150°í 10 – 13 mín.  Þegar þær hafa kólnað er gott að grófsaxa þær.
  3. Þegar þið hafið bakað og kælt rauðrófuna skerið þið hana í bita og setjið í skál.
  4. Setjið sýrópið og edikið yfir rauðrófurnar ásamt salti og pipar og blandið vel.  Leyfið þeim að liggja í þessum legi í amk. 15 mín áður en þið blandið saman salatinu, má alveg vera lengri tími.
  5. Byrjið á því að setja klettasalatið í skál eða á fat. Rauðrófurnar fara næst á fatið/skálina og við endum á pekanhnetunum. Fetaosturinn fer síðast og oftast ber ég hann fram sér þar sem ekki allir þola mjólkurvörur.

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Næringarríkt nammi – rafbók

Nú er hún komin, uppfærð e-bók sem inniheldur uppáhalds uppskriftirnar.  Nú hef ég uppfært hana ásamt því að bæta við fleiri uppskriftum.   Þetta eru uppskriftirnar sem við höfum notað á nammi námskeiðunum svo ef þú ert ein/einn af þeim sem ekki komst á námskeið hefurðu frábært tækifæri til að eignast uppskriftirnar.

Allar uppskriftirnar eru bragðgóðar, einfaldar og án mjólkurafurða og glúteins.  Einnig er ekki notaður hvítur sykur og reynt að halda sætu í lágmarki.  Við notumst við náttúrulega sætu eins og döðlur, hlynsýróp og kókospálmasykur.   Ekki er nein gervisæta notuð í þessum uppskriftum.

Bókin kostar 1490 kr og kemur á bæði pdf og epub formi.  Þú smellir á myndina og þá ertu komin á sölusíðuna.  Þar velurðu bókina og gefur upp allar þær upplýsingar sem beðið er um.   Ástæðan fyrir því að þú velur lykilorð er sú að ef þú týnir bókinni úr símanum eða færð þér nýjan síma geturðu hvenær sem er farið og sótt bókina aftur eftir að þú hefur keypt hana.

Smelltu hér eða á myndina til að kaupa bókina 

 

Ég er að nota nýtt forrit til að geta tekið á móti greiðslum með kreditkorti svo nú þarf ekki lengur að millifæra til að koma á námskeið og kaupa rafbækur.  Ég er mjög spennt fyrir þessari nýjung og vona svo sannarlega að þetta komi ykkur vel og einfaldi okkur öllum lífið 🙂

 

 

 

Kryddaðir hafraklattar

Mjúkir og kryddaðir hafraklattar.  Tilvaldir með tebollanum eða kaffibollanum.   Hversdags eða um helgina !

Það tekur stuttan tíma að baka þessa klatta en því miður eru þeir fljótir að klárast.  Það hefur enn ekki reynt mikið á geymsluþolið á þessum kökum á þessu heimili 😉

 

Þessi uppskrift gerir um 20-25 klatta

Hráefni. 

  • 4 dl haframjöl
  • 1,5 dl kókosmjöl
  • 1,5 dl fræ (sólblóma/ sesam)
  • 100 g smjör/ 1 dl olía
  • 2 egg
  • 1 dl kókospálmasykur (má minnka fyrir sykurminni útgáfu)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 tsk kanill
  • 1/2 tsk negull
  • smá salt
  • 60 gr smátt saxað dökkt súkkulaði ( notum líka stundum hvítt súkkulaði með til hátíðarbrigða) og það má líka skipta súkkulaðinu út fyrir 1 dl af smátt söxuðum döðlum

 

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í  180°C
  2. Bræðið smjörið eða olíuna (ef þið notið kókosolíu)
  3. Pískið eggin vel og blandið smjörinu/olíunni saman við þau ásamt sykrinum.
  4. Bætið þurrefnunum saman við blönduna.
  5. Setjið deigið á bökunarpappír  (1 msk hver kaka)
  6. Bakið í  12-15 mín.

Þær mega vera örlítið mjúkar þegar þær koma út úr ofninum því þær harðna þegar þær kólna.  

 

Ljúffengt lambagúllas

Nú hefur heldur betur kólnað og veturinn mættur á svæðið.  Það kallar klárlega á heitan “mömmumat” eða “ömmumat”.   Eitthvað heitt og kryddað sem hlýjar okkur að innan.

Hér er einföld uppskrift af lambagúllasi.  Þó að það taki réttinn 1,5 klst að eldast þarf ekki að standa yfir pottunum og fínt að nota tímann á meðan maturinn eldast til að sinna börnum og búi ….tja eða bara leggja sig, lesa blaðið eða taka stutta hiit æfingu á eldhúsgólfinu…. hvað sem ykkur langar til að gera 🙂

 

 

 

(Uppskrift fyrir 5)

Hráefni: 

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 500 g lambagúllas
  • 1 msk cumin
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 msk Villijurtir frá Pottagöldrum
  • 1 msk Karrý Madras eða Arabískar nætur (frá Pottagöldrum) eða önnur góð karrý kryddblanda
  • 3-4 gulrætur í sneiðum
  • 4-5 kartöflur í bitum
  •  Bætið við meira af grænmeti eftir smekk, t.d. kúrbít, sæta kartöflu eða brokkolí.
  • 5-6 dl vatn eða soð
  • 2 matskeiðar tómatmauk (paste)
  • 1 msk kókospálmasykur
  • 1-2 grænmetisteningar
  • 1/2  dl kókosmjólk eða rjómi
  • Smakkið til með salti og pipar

Aðferð: 

  1. Hitið olíu í potti.
  2. Setjið kjötið í pottinn ásamt kryddunum og steikið í smástund.
  3. Bætið við vatni/soði og grænmetisteningi ásamt tómatmauki og látið  malla við lágan hita í 1 klst.
  4.  Bætið grænmetinu saman við
  5.  Leyfið réttinum að malla rólega í 20 mín.
  6. Bætið kókosmjólk eða rjóma saman við og bragðbætið með salti og pipar.
  7.  Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum eða kínóa og fersku salati.

Sjúklega gott og einfalt súkkulaðimúslí

Hér er á ferðinni spari múslí sem börnin á bænum elska.  Það sem er sérstaklega skemmtilegt við þessa uppskrift er að hún er bæði einföld og fljótleg.  Það er mjög auðvelt að græja þetta múslí bara á meðan gengið er frá eftir kvöldmatinn.   Aðal ókosturinn er hversu stutt það staldrar við í krukkunni og klárast alltof fljótt.

 

Hráefni:

  • 4 dl grófar hafraflögur
  • 2 dl kókosflögur
  • 2 dl fræ (t.d. sólblómafræ, semsamfræ, hörfræ)
  • 2-4 msk kakó (hér er það spurning um smekk)
  • 3 msk kókosolía eða hitaþolin steikingarolía
  • 3 msk hlynsýróp eða hunang

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Blandið öllu saman í skál og setjið í ofnskúffu.
  3. Bakið í 25 mín.
  4. Leyfið blöndunni að klólna og geymið svo í loftþéttum umbúðum.

 

Einföld og fljótleg mexíkósk kjúklingasúpa

Börnin á bænum elska kjúklingasúpu og þar af leiðandi verður hún oft fyrir valinu hér á bæ.  Það er frekar langt síðan ég hef sett súpu uppskrift inn á vefinn og því alveg komin tími til.  Flestum súpu uppskriftum hef ég þurft að breyta örlítið síðusta árið eftir að ég komst að því að ákveðnir hlutir fara mjög illa í meltinguna mína.  Já maður er alltaf að læra á sjálfan sig og uppgvöta eitthvað nýtt.  Ég vona þó að það komi að því fyrr en seinna að ég geti bætt þessum hlutum inn í fæðið aftur.   Við erum til dæmis að tala um lauk og  hvítlauk, já þannig að það útskýrir hversvegna ég hef þurft að breyta flestum uppskriftum því ég var með lauk í ÖLLU!   Ég sakna lauksins mjög mikið en það hefur þó eitthvað jákvætt komið út úr þessu þar sem börnunum finnst maturinn betri ef eitthvað er og ég er fljótari að elda 🙂

Fyrirmyndin af þessari súpu er súpan hennar Ebbu Guðnýjar, sjá r !  Ég smakkaði hana fyrst hjá mömmu og hún sló í gegn.  Hún hefur breyst hjá mér heilmikið í tímanna rás.  Hér að neðan er útgáfan eins og ég hef eldað hana með engum lauk.

 

 

Hráefni:

  • 600-800 ml vatn
  • 400 ml maukaðir tómatar eða passata
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 1/2 sæt kartafla (eða 2 litlar)
  • 3 gulrætur
  • 2 litlar nípur (eða eitthvað annað grænmeti sem ykkur þykir gott)
  • 1 rauð paprika
  • væn lúka steinselja
  • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að fá örlitla sætu á móti tómötunum)
  • 2 kjúklingabringur kryddaðar vel með cumin, papriku, svörtum pipar og oregno.
  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Hitið vatnið í potti.
  2. Skerið sætu kartöfluna í litla bita og setjið út í vatnið. Sjóðið í ca. 10-12 mín.
  3. Skerið kjúklingabringunar í bita og steikið á pönnu og kryddið vel.  (hér er líka frábært að eiga til afgang af kjúkling, en bætið þá smá kryddi við súpuna.)
  4. Skerið niður gulrætur og nípu í litla bita en ekki setja út í strax.
  5. Þegar sæta kartaflan er orðin nokkuð mjúk undir tönn farið þá með töfrasprota og maukið hana saman við vatnið.
  6. Bætið út í pottinn grænmetisteningum, maukuðum tómötum, kókospálmasykrinum og grænmetinu.  Leyfið súpunni að malla í um það bil 10 mín.
  7. Bætið kjúklingnum saman við ásamt papriku og steinselju.
  8. Kryddið með salt og pipar og berið fram með lífrænum nachosflögum.

 

Verði ykkur að góðu 🙂