Sunnudagskakan um síðustu helgi var jafn góð og hún leit út fyrir að vera. Ég sýndi frá henni á Instagram og viðbrögðin létu ekki á sér standa … svo hér kemur uppskriftin handa ykkur. Ef þig langar að sjá hvað ég er að bardúsa í eldhúsinu máttu gjarnan fylgjast með, ég reyni að setja eitthvað í “story” á hverjum degi eða svona hér um bil.
En aftur að kökunni. Ég veit ekki hvort megi kalla þessa köku “köku”, sennilega er þetta meira svona pæ … en samt er þetta ekki löglegt pæ því þá þyrfti skelin að vera hörð. En nóg um tækimálin… Ég elska eplakökur og bakaði eina slíka um þar síðustu helgi. En í henni var vel af kanil og staðan er bara þannig að miðdóttirin hatar kanil. Já, hún HATAR kanil, það er ekkert minna! Svo ég lofaði að gera aftur eplaköku án kanils. Það hljómaði eitthvað bragðlaust svo ég ákvað að poppa hana upp með hindberjum og smá heimatilbúnu marsípani. Ég var með smá áhyggjur af því að hindberin myndu verða að safa en það gerðist ekki, ég setti þau á kökuna beint úr frysti og nánast beint inn í ofn og þau héldu sér svona fallega.
Hráefni:
Botn:
- 100 g smjör (eða kókosolía fyrir mjólkurlausa útgáfu)
- 2 dl möndlumjöl
- 2 dl haframjöl
- 1,5 dl kókospálmasykur
Fylling:
- 4-5 stór epli
- 2 dl frosin hindber
marsípan :
- 2 dl möndlumjöl
- 3-4 msk hlynsýróp
- 1/2 tsk möndludropar
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°(blástur)
- Hrærið saman hráefnið í botninn og setjið í mót, ég var með 28 cm hringmót og botninn er frekar þunnur.
- Brytjið niður eplin í litla bita og setjið í mótið.
- Takið hindberin úr frysti og setjið ofan á eplin.
- Búið til marsíðan með því að hnoða saman möndlumjöli, hlynsýrópi og möndludropum og dreyfið því ofan á kökuna. Það á að vera það blautt að það sé auðvelt að móta það en það má ekki molna niður.
- Bakið kökuna í 15-20 mín – fyglist vel með að hún verði ekki of dökk. Ofnar eru misjafnir og gott að stilla fyrst á 15 mín og svo lengja tímann ef það þarf.
Verði ykkur að góðu og njótið vel
Published by