Sumarið er yndislegur tími. Jafnvel þó svo að veðrið í ár hafi ekki verið neitt sérstakt (hér á suðurlandinu) er bara svo mikil stemming á sumrin. Það er tíminn fyrir sumabústaðaferðir, útilegur og ferðalög. Loksins tími til að njóta þess að slaka á með góðum vinum, borða saman og gera allskonar skemmtilega hluti. Það er alltaf pínu leiðinlegt þegar sumarið er búið en góðar minningar fylgja okkur inn í haustið og það er jú alltaf ágætt að fá rútínuna aftur. Börnin fara í skólann og meiri regla kemst á matar- og svefnvenjur.
Ég veit ekki með ykkur en sumarið er tíminn sem ég á það til að fitna, og það hefur verið þannig síðan ég man eftir mér. Á meðan internetið og fésbókin eru full af myndum af léttklæddu fólki hlaupandi um með vatnsbrúsann í annarri og með safaríka vatnsmelónu á kantinum er veruleikinn oft aðeins annar. Til dæmis var oft alveg ískalt í sumar, svo í staðinn fyrir það að vera hlaupandi úti var ég oft bara að hlýja mér inni með heitt kakó í annari og smáköku í hinni. Og í staðinn fyrir að fara í hressandi hjólaferð eða gönguferð í kvöldsólinni, kúrðum við okkur undir sæng í rigningunni og rokinu og horfðum á bíómynd með tilheyrandi huggulegheitum.
Það er ekkert gaman að sleppa öllu því sem við höfum vanið okkur á öllu því sem okkur finnst gott, og engin ástæða til. Besta leiðin til að koma hress undan sumrinu er sú að bæta við góðum venjum smátt og smátt allt árið um kring sem verða að lífstíl og við höldum okkur við þær jafnvel þó að við séum í fríi, einfaldlega af því að okkur líður svo vel af því. Ef við höldum okkur við góðar venjur yfir sumarið gerir ekkert mikið til þó að við slökum aðeins á og gerum vel við okkur á meðan við erum í fríi. En það er heldur verra ef við komumst ekki í góða rútínu aftur, höldum áfram í sukkinu og lendum í leiðinda vítahring.
Það sem ég gerði til þess að koma mér úr sumarfríis-sukk-gírnum var að taka 10 sykurlausa daga. Í 10 daga borðaði ég engan sykur og þannig komst ég á rétt ról aftur. Mæli hiklaust með því. Það sem kom mér reyndar mest á óvart eftir þessa 10 daga var það að það var ekki mittismálið breyttist ekki svo mikið en það var aðallega húðin sem leit mikið betur út og svo skýrleikinn í höfðinu. Ekki að ég hafi verið neitt sérstaklega óskýr áður, en allt í einu var eins og ég sæi alla hluti skýrar, fékk endalaust margar hugmyndir, prufaði allskonar nýja hluti í eldhúsinu og seint á kvöldin var ég ekki þreytt í hausnum þó ég væri orðin þreytt í kroppnum, ótrúlega góð tilfinning 🙂
En að lokum þá ég ákvað að taka saman 5 hluti sem gætu þér að komast úr sukk-gírnum og komast í hollustu-gírinn:
- Byrjaðu daginn á volgu sítrónuvatni eða ef þú þolir ekki sítrus ávexti kemur t.d. netlute sterkt inn. Rennur í gegn og hreinsar pípulagnirnar 😉
- Mundu eftir vatninu, sama gamla tuggann, en bara eitt af því mikilvægasta og líka eitt það auðveldasta og ódýrasta. Ágætt að miða við ca. 2 litra.
- Passaðu þig á því að borða nógu mikið af mat. Ef við borðum ekki nóg af alvöru mat byrjum við strax að leita í sykur og skjótfengna orku.
- Taktu nokkra daga í röð og fáðu þér grænan drykk, einn af mínum uppáhalds er Ananas og engifer sjeikinn, grænu plöntuefnin minnka sykurlöngunina og gefur okkur meiri orku.
- Hreyfðu þig, þú þarft ekki að bíða eftir því að kaupa kort í líkamsræktarstöð eða bíða eftir haustinu, eða bíða eftir einhverju námskeiði. Ekki bíða heldur drífðu þig bara út í göngutúr eða hjólatúr. 20 mínútur á dag á hverjum degi er fín hreyfing.
Besta ráðleggingin af öllum er sennilega sú að venja sig á eins hollt “sukk” og hægt er 😉
Gangi ykkur vel 🙂
Published by