Yndislegur “creamy” mangóís

Þessi mangóís er dásamlega góður.  Hann er líka svo sumarlegur og fallegur á litinn og tilvalin til að lýsa upp skammdegið.  Ég hlakka svo til að fá mér svona ís um helgina og ætla að passa mig á því að gera ríflegan skammt í þetta skiptið því hann kláraðist alltof fljótt síðast 😉

IMG_3485

Hráefni:

 • 3-4 dl mangó (ég notaði frosið)
 • 3 dl Epla- og mangósafi (frá Sollu)
 • 1 dl kasjúhnetur (búnar að liggja í bleyti í ca 4 tíma)
 • 1 msk kókosolía
 • 2 msk hlynsýróp eða agave (má sleppa því safinn gefur svo mikla sætu)
 • 1 ferna kókosmjólk eða 2 dl af kókosmjólk úr dós (ekki Lite)
 • 1/2 msk sítrónusafi

Aðferð:

Kasjúhneturnar settar í blandara ásamt smá vökva og blandað þangað til silkimjúkt. Þá er restinni bætt saman við og blandað vel. Þeir sem búa svo vel að eiga ísvél setja hann auðvitað í ísvélina en við hin setjum ísinn í box og inn í frysti. Ef þið notið frosið mangó verður ísinn tilbúin fyrr, síðast þá tók það uþb. 4-5 klst.  Ég hrærði í honum á ca klukkutíma fresti eða ca 4 x.  Það er gott að leyfa honum að standa aðeins upp á bekk áður en þið gæðið  ykkur á honum svo það séu engar ísnálar í honum.

IMG_3461

IMG_1866

Þetta finnst mér vera langbesta kókosmjólkin til að nota í ísgerð.  Það er ekkert í henni nema 80 % kókoskjöt og vatn.  Ég hvet ykkur til að lesa innihaldslýsinguna þegar þið kaupið kókosmjólk því innihald er mjög mismunandi og misjafnt hvað er sett mikið af allskonar aukaefnum.

IMG_3484

Ég hvet ykkur til að prufa því þetta er þvílík dásemd og hver var að tala um að ís væri óhollur ?

Verði ykkur að góðu 🙂

Einhverjum kann að finnast það vesen að vera að leggja kasjúhnetur í bleyti og nota þær.  Auðvitað má alveg sleppa þeim.  En þær gefa ísnum mikla fyllingu og skemmtilega rjómakennda áferð.  Þær gera ísinn líka mun næringarmeiri en hann yrði annars.  Kasjúhnetur eru nefnilega alveg dásamlega hollar.  Þær innihalda lægra fituinnihald en flestar aðrar hnetur og það sem meira er þær innihalda sömu góðu fituna og er í ólífuolíunni (oleic acid).  Þar af leiðandi eru þær góðar fyrir hjartaheilsuna.  Þær innihalda mikið magn af kopar, mangan, tryptófan, magnesíum og fosfór.  Tryptófan er einmitt byggingarefni fyrir serótónín sem er nú aldeilis gott að framleiða sem mest af núna í skammdeginu fyrir sálartetrið. Magnesíum er nauðsynlegt fyrir beinin og gott fyrir taugakerfið svona til að nefna eitthvað.  Þannig að ég segi áfram kasjúhnetur því þær eru sannkallaðar hamingjuhnetur. 

Yngingarsúpan

Hljómar nafnið á þessari súpu ekki vel ?

Hún varð til eitt kalt haustkvöld í fyrra þegar tvær uppskriftir urðu að einni og er búin að elda hana mjög oft síðan.  Hún hefði líka getið heitið sætkartöflu-gulrótarsúpa, en um sama leyti og þessi súpa varð til var bókin hennar Þorbjargar, “10 árum yngri á 10 vikum” að koma út og þegar ég komst að því að nær allt sem er í þessari súpu telst hafa “yngjandi” áhrif á líkamann festist þetta nafn við og situr sem fastast 🙂  Þessi súpa er fljótleg og hentar bæði buddunni og heilsunni mjög vel.

IMG_3445

Hráefni:

 • 2 stórar gulrætur eða 4 litlar
 • 1 sæt kartafla (stór)
 • 2-3 cm af engifer
 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • teskeið af curry paste kryddmauki
 • 1-2 msk af mango chutney (má sleppa)
 • 2-3 msk kraftur (Tasty kjúklinga eða grænmetiskraftur)
 • 2 msk af tómatpuré
 • 1 tsk turmeric
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk paprika
 •  ca 1,5 litrar af vatni

Aðferð:

Allt sett í pott og soðið í 20 mín. Sett í blandarann og maukuð eða maukuð með töfrasprota.

Í lokin má bragðbæta með salti og pipar.  Svo er bæði fallegt, gott og hollt að skreyta með ferskum kryddjurtum og hnetum ( í þessu tilfelli steinselja og pecan hnetur).

Mér finnst best að hafa þessa súpu svolítið þykka og hún er líka frekar sterk svo það má alveg bæta vatni út í eftir smekk.  Yfirleitt þynni ég hana svolítið fyrir krakkana, en það verður að viðurkennast að þessi súpa er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá þeim, þó að þau láti sig nú hafa það að borða hana.  En það er aðallega okkur foreldrunum sem finnst hún góð.

Verði ykkur að góðu 🙂

Piparkökumúffur (Kryddbrauð)

Þessi uppskrift varð til í síðustu viku.  Hún gæti líka heitið “Glúteinlaust kryddbrauð úr grautarafgang”, en mér fannst það ekki alveg nógu rómó.  Þegar maður eldar hafragraut úr glúteinlausum höfrum/ eða almennt glúteinlausa morgungrauta sem kosta 1000 kr/ kg, þá tímir maður ekki að henda afganginum í ruslið.  Yfirleitt set ég hann inn í ísskáp og reyni að nota í bollur, pönnukökur eða annan bakstur en það tekst ekki alltaf.  En nú er ég búin að leysa málið, Kryddbrauð sem gengur undir nafninu piparkökumuffins er búið að gera allt vitlaust á heiminu í síðustu viku og búið að baka  það 3 sinnum.

Piparkökumuffins

Hráefni:

 • 3 dl mjöl (annaðhvort glúteinlaust eða bara spelt ef þær þurfa ekki að vera glúteinlausar)
 • 1,5 dl sykur (eða 2 dl af döðlumauki)
 • 2 msk sykurrófusýróp (fæst í heilsubúð) eða bara Agave, hlynsýróp eða hunang
 • 3 dl afgangur af hafragraut eða öðrum morgungraut
 • 1,5 dl haframjöl (glúteinlaust ef þær eiga að vera glúteinlausar)
 • 1,5 dl mjólk (hafra, möndlu, rís, lífræn eða bara kusu)
 • 1 tsk engifer
 • 1 tsk negull
 • 2 tsk kakó
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2 tsk kanill
 • 0,5 tsk salt

Öllu hrært saman og sett í muffins bökunarplötu. Bakað við 180°c í 25-30 mín (ég er komin niður á það að minn ofn bakar þær á nákvæmlega 28 mín)

Þessar múffur eru svo dásamlegar, tekur ekki meira en 5-10 mín að hræra saman, eru ódýrar og svo lyktin sem kemur í húsið, maður minn, hún er svo dásamleg að ég vildi að ég gæti tappað henni á flöskur.  Það er eiginlega sama lyktin og þegar maður bakar piparkökur nema þetta er svona “aðeins” fljótlegra.

Uppskriftin gefur 24 stk.

Verði ykkur að góðu 🙂

Ommeletturúlla – skyndibiti á 5 mín

Jæja, loksins kemur uppskrift, það er búið að vera mikið að gera undanfarið ásamt tölvuvandræðum á heimlinu.  En ég hef samt ekkert eldað neitt minna en venjulega og því búið að safnast upp myndir af allskonar hollu góðgæti. Ég ætla að byrja á kvöldmatnum síðastliðið föstudagskvöld.

Þetta er alger snilldarhugmynd og eina leiðin til að fá börnin mín til að borða eitthvað af káli.  Yfirleitt er það grænmetið sem þau eru minnst spennt fyrir en þegar ég býð upp á svona þá rennur það ofan í þau.

Þegar klukkan er korter í kvöldmat og allir eru orðnir svangir er ekki endilega fljótlegra að fara út í búð og kaupa eitthvað tilbúið.  Það er alveg hægt að fá sér bókstaflegan skyndibita heima 🙂

IMG_2947

Ég sá nýlega Romaine kál í Bónus, það er ílangt og dökkgrænt og það hentar alveg sérstaklega vel fyrir svona rúllur.

IMG_2943

Ommelettan:

 • 1 msk kókosolía
 • Egg – ég miða við ca 1,5 á mann
 • skvetta af mjólk (Hrísmjólk, möndlu, lífræn, kusu, bara það sem þið eruð vön að nota)
 • Krydd eftir smekk  (ég nota Salt, pipar, túrmerik, papriku, reykta papriku, cumin og jafnvel smá madras kryddblöndu)

Hræra eggjum, kryddi og mjólk vel saman, hita pönnuna, láta olíuna bráðna og setja svo blönduna á pönnuna, ég leyfi henni að “festast” aðeins saman áður en ég sný henni við og leyfi henni bara að detta svolítið í sundur svo hún sé í bitum.  Svo er bæði gott og hollt að setja smá steinselju yfir um það leyti sem hún er tilbúin.

IMG_2939

Salsa:

 • 4 Tómatar
 • 4 litlir vorlaukar
 • 1/2 lime (safinn)
 • Smá Herbamare

Blanda öllu vel saman

Svo er bara að taka kál, setja í það ommelettu og salsa og rúlla saman 🙂

IMG_2946

IMG_2945

Litli kallinn var alveg að missa sig yfir þessu síðasta föstudagsköld þegar ég tók þessar myndir og hrópaði af ákafa : lúlla lúlla lúlla og ég mátti hafa mig alla við að rúlla fyrir hann kálinu 🙂

Ég setti pestó á mínar rúllur til að byrja með en það var í raun alger óþarfi að hafa það með.  Það var líka gaman að oftast vilja stelpunar tómatsósu en í þetta skiptið fengu þær sé salsa án þess að minnast einu orði á tómatsósu og þeim fannst það ekkert smá gott.

Í ommelettuna nota ég reykta papriku.  Það er ekkert langt síðan ég fór að nota þetta krydd en þvílíkt nammi.  Það er svona bbq bragð af kryddinu og gefur þvílíka fyllingu.  Ef þið eruð ekki búin að kynnast því mæli ég með því að það fái að fljóta með heim í næstu verslunarferð 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Pestó pasta með/eða án kjúklings

Þetta er einn af þessum þægilegu fljótlegu réttum sem er svo gott að grípa til í miðri viku.  Ég er oft með eitthvað fljótlegt og einfalt á mánudagskvöldum því þá daga nota ég gjarnan til að útbúa hitt og þetta fyrir vikuna.  T.d. gera múslí, möndlumjólk, baka bananabrauð, pestó eða hvað sem er á dagskrá þá vikuna.  Og þá er ágætt að þurfa ekki að standa á haus í eldamennsku líka.

pestópasta

Sjóðið pasta (ég nota Sollu spelt pasta)

Búið til pestó (gott að gera tvöfalda uppskrift, þá er hægt að nota nóg með pastanu og samt nægur afgangur eftir).  Þið getið auðvitað keypt pestó en það er svo ótrúlega auðvelt að gera það sjálfur og er svo miklu ódýrara, fyrir utan að maður getur kryddað algerlega eftir sínu höfði, þannig að ég mæli algerlega með því.

pestó

Blandið saman pestó og pasta, brytjið niður kjúkling (best ef það er til afgangur, þá er þetta svo dásamlega fljótlegt) og bætið saman við. Toppurinn er að eiga feska basiliku og setja vel af henni með.

Fetaostur passar dásamlega vel með þessu og fullt fullt fullt af fesku sallati

pestópasta

Svo er tilvalið að smella saman sallatinu og pastanu og taka með sér í vinnuna daginn eftir 🙂

pestópasta

Vinkona mín er snillingur og hún kenndi mér að klippa pastað með skærum fyrir litla munna.  Litli herramaðurinn á heimilinu er alveg að fíla það í tætlur 🙂  Helmingi fljótlegra heldur en að vera að skera með hníf og gaffli.

pestópasta

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaði-hnetukaka með súkkulaði-bananakremi

Það sem er svo yndislegt við hrákökur er það er hægt að útbúa þær á örskotstundu þar sem það þarf ekki að baka þær.  Í síðustu viku fengum við mæðgunar góða gesti eftir leikskóla og ég átti bókstaflega EKKERT til að bjóða upp á og ætlaði að fara að bretta upp ermarnar og fara að baka en þar sem ég var eiginlega orðin alltof sein skellti ég í eina hráköku.  Eftir 15 mínútur var kakan tilbúin.  Mér finnst það svo dásamlegt að getað fengið mér svona köku og veit að um leið er ég að næra líkamann með hrikalega góðri næringu. Semsagt bara tóm hamingja og skemmtilegt að lífga upp á hversdagsleikann með þessum hætti 🙂

Hrákaka

Þetta er sami botninn og ég gerði þegar ég gerði Súkkulaðisælu með mangó-og hindberjum en í þetta sinn átti ég ekki mangó en viti menn ég átti einmitt fallegt og þroskað avacado sem breytti sér í dýrindis súkkulaðikrem 🙂

Botninn:

 • 1 bolli valhnetur
 • 1 bolli cashewhnetur/ pecanhnetur
 • 1/4 – 1/2  bolli hreint kakó (eftir því hversu dökkan þið viljið hafa botninn)
 • 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í smástund svo verði mjúkar)
 • Smá salt (himalayja eða sjávarsalt)
 • Smá vanilla

Hneturnar settar í matvinnsluvél  og malaðar, kakóinu bætt við og svo einni og einni döðlu í einu.  Að lokum  vanillu og salti.  Sett á disk, mótaður hringur og sett inn í frysti meðan kremið er gert.

Ef þið eigið ekki matvinnsluvél má mala hneturnar í lítilli matvinnsluvél (svona chopper sem fylgir oft með töfrasprotum) og mauka döðlurnar með töfrasprotanum og blanda að lokum öllu saman.

Hrákaka

Kremið:

 • 1 þroskað avacado
 • 1 þroskaður banani
 • 2-3 msk hreint kakó
 • 1-2 msk kókosolía
 • 2 msk einhver góð sæta (hunang, agave, hlynsýróp)
 • smá vanilla

Allt sett í skál og unnið með töfrasprota þangað til slétt og fallegt.  Smakkið til og breytið eftir smekk, meira kakó eða meiri sæta, smá salt, bara finna það sem ykkur finnst gott 🙂

Hrákaka

Setjið kremið á kökuna og inn í frysti/ísskáp í smá stund.

Hrákaka

Svo er bara að finna eitthvað til að skreyta með, ég fann nokkur frosin hindber og kókosflögur.

hrákaka

Þetta er fínasta seinnipartskaka, fínasti desert og góð ef sykurþörfin er að fara með fólkið yfir sjónvarpinu, bara við öll tækifæri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂