Þetta er einn af þessum þægilegu fljótlegu réttum sem er svo gott að grípa til í miðri viku. Ég er oft með eitthvað fljótlegt og einfalt á mánudagskvöldum því þá daga nota ég gjarnan til að útbúa hitt og þetta fyrir vikuna. T.d. gera múslí, möndlumjólk, baka bananabrauð, pestó eða hvað sem er á dagskrá þá vikuna. Og þá er ágætt að þurfa ekki að standa á haus í eldamennsku líka.
Sjóðið pasta (ég nota Sollu spelt pasta)
Búið til pestó (gott að gera tvöfalda uppskrift, þá er hægt að nota nóg með pastanu og samt nægur afgangur eftir). Þið getið auðvitað keypt pestó en það er svo ótrúlega auðvelt að gera það sjálfur og er svo miklu ódýrara, fyrir utan að maður getur kryddað algerlega eftir sínu höfði, þannig að ég mæli algerlega með því.
Blandið saman pestó og pasta, brytjið niður kjúkling (best ef það er til afgangur, þá er þetta svo dásamlega fljótlegt) og bætið saman við. Toppurinn er að eiga feska basiliku og setja vel af henni með.
Fetaostur passar dásamlega vel með þessu og fullt fullt fullt af fesku sallati
Svo er tilvalið að smella saman sallatinu og pastanu og taka með sér í vinnuna daginn eftir 🙂
Vinkona mín er snillingur og hún kenndi mér að klippa pastað með skærum fyrir litla munna. Litli herramaðurinn á heimilinu er alveg að fíla það í tætlur 🙂 Helmingi fljótlegra heldur en að vera að skera með hníf og gaffli.
Verði ykkur að góðu 🙂
Published by