Ofurhollar smákökur fyrir þá sem nenna ekki að baka

Snilldar smákökur frá vinkonu minni henni Steinunni Aðalsteinsdóttur, oftast kennd við Heilsuhótelið í Reykjanesbæ.  Í síðustu viku var þar haldin mjög fróðlegur fyrirlestur um meltinguna.  Fyrirlesarinn var Chad Keilen sem vinnur á Heilsuhótelinu.  Hann er með BSc í Heilsuvísindum og alger sérfræðingur sem gaman er að hlusta á.  Hann útskýrði hlutina á mannamáli og var t.d. með kaðal til að sýna okkur hversu langur ristillinn er, mjög sjónrænt og fræðandi.  Hann gaf okkur mörg góð ráð hvernig hægt er að styðja við betri meltingu með einföldum ráðum.

Í hléinu bauð hún Steinunn upp á þessar sérlega hollu smákökur sem þarf ekki að baka og tekur mjög stuttan tíma til að búa til og bragðlaukarnir verða ekki fyrir vonbrigðum.

photo (3)

Hráefni:

  • Perur (mjög sniðugar þessar litlu lífrænu sem fást á mörgum stöðum núna)
  • Hnetusmjör (eða möndlusmjör)
  • Hampfræ
  • Dökkt súkkulaði

Aðferð:

  1. Skerið peruna í sneiðar (Hér má að sjálfsögðu skipta út perunum fyrir epli)
  2. Setjið ca hálf teskeið af hnetusmjöri
  3. Stráið hampfræjunum yfir (ef ykkur þykir þau spes á bragðið ein og sér, passa þau dásamlega í þessari samsetningu)
  4. Skerið súkkulaði í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja “köku”
  5. Borðið strax 🙂

Ofangreindur fyrirlestur var liður í fjáröflun fyrir Helenu og Emelíu en þær eru dætur Chad og Rutar, eiginkonu hans.  Þær eru mjög mikið veikar, þurfa aðstoð allan sólarhringin og nú er það orðið svo að Emelía fær allt að 100 flog á dag.  Ástæða söfnunarinnar er Ameríkuför fjölskyldunnar til að leita frekari lækninga úti þar sem ekki er hægt að gera meira fyrir þær systur hér á Íslandi.  Þau þurfa sjálf að leggja út fyrir þessari kostnaðarsömu ferð.  Ég hvet ykkur til að kíkja á síðu söfnunarinnar!

Published by

Leave a Reply