Geggjuð Tíramísú “ís” kaka

Þetta er nú spennandi.   Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn glöð með uppskrift eins og ég er núna og það sem mig hlakkar til að deila henni með ykkur 🙂   Ég hef alltaf haldið upp á tíramísú en það er langt síðan ég hef gert “alvöru” en maður minn, þessi er sko ekki síðri.  Ef þið hafið ekki prufað að gera hrákökur með fyllingu úr kasjúhnetum hvet ég ykkur til þess að prófa sem fyrst.  Ég hef verið með þannig kökur á sætinda námskeiðunum mínum og þær slá alltaf í gegn.  Súkkulaði pekanbakan og Límónukökurnar eru í uppáhaldi hjá mér en þessi kaka er klárlega komin í fyrsta sæti núna.  Þegar ég sá þessa girnilegu uppskrift frá Helga-gabriela.com datt mér loksins í hug að setja kaffi í þessar kökur.

Tíramísú

Ég veit að þetta gæti litið út fyrir að vera flókið, en þetta er auðveldara en þú heldur 😉

Botninn:

 • 3 dl pekan hnetur
 • 1 dl heslihnetur (má líka nota valhnetur)
 • 1 dl kókosmjöl
 • 2,5 dl döðlur (má líka setja 50/50 döðlur og apríkósur)
 • 2 msk kókosolía (brædd)
 • örlítið salt
 1. Setjið hneturnar ásamt öðrum þurrefnum í matvinnsluvél og vinnið vel, bætið svo kókosolíunni og döðlunum smátt og smátt út í. (Kannski er óþarfi að nota allar döðlurnar, skoðið aðeins áferðina á deiginu, við viljum hafa hann svolítið stökkan og alls ekki of klístraðann.) Ég nota oftast fersku döðlurnar sem fást í grænmetiskælinum, en passið ykkur bara á því að taka steinana úr þeim 😉
 2. Setjið botninn í form og kælið meðan þið búið til fyllinguna.

Þið getið bæði notað stórt mót eða mörg lítil.

IMG_1308

Fyllingin:

 • 300 g kasjúhnetur  (lagðar í bleyti í amk. 4 klst og vatninu svo hellt af þeim)
 • 1 dl hlynsýróp
 • 1,5 dl kókosolía (brædd)
 • 1 tsk vanilluduft (hreint)
 • 2 – 3 dl sterkt kaffi
 • 4-5 msk kakó (ath. þetta fer ekki í strax)
 1. Allt sett í blandara og blandað þangað til silkimjúkt.
 2. Hellið helmingnum af fyllingunni í formið og frystið.
 3. Búið til karamellusósu (uppskrift hér fyrir neðan) og hellið yfir kökuna og stingið svo aftur í frost.
 4. Bætið kakóinu við fyllinguna sem eftir er í blandaranum, blandið vel saman og hellið yfir karamellusósuna.
 5. Þegar súkkulaðifyllingin hefur náð að stífna má setja súkkulaðilag yfir kökuna en hinsvegar má líka alveg bara brytja niður dökkt súkkulaði og setja yfir kökuna þegar hún er borin fram.

Karamellusósan:

 • 2/3 dl hlynsýróp
 • 3 msk möndlusmjör
 • 1 tsk vanilluduft
 1. Allt sett í blandara og blandað vel þangað til áferðin er eins og karamella
 2. Hellið yfir kaffifyllinguna sem ætti að vera búin að harðna aðeins.

IMG_1309

 

Súkkulaði yfir:

 • 1/2 dl kakó
 • 1/4 dl hlynsýróp
 • 1/2 dl kókosolía
 • 1/2 dl kakósmjör
 • örlítið vanilluduft
 • örlítið himalayjasalt

Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði, bætið öllu saman við og hrærið vel.  Smyrjið ofan á kökuna og kælið.

Það má líka bara búa til plötu úr þessu súkkulaði og saxa yfir kökurnar, þetta lítur nefnilega ótrúlega vel út en súkkulaðið var með pínu vesen þegar við vorum að gæða okkur á þessari dásemd.  Það var það hart að það var eiginlega eina í stöðunni að borða það bara sér (sem var auðvitað bara gott mál) en ég sé fyrir mér að ef það er gerð stór kaka (eins og ég ætla að gera um helgina)  þá á súkkulaðið örugglega eftir að brotna í allar áttir þegar kakan er skorin…svo næst þegar ég geri þessa köku mun ég setja súkkulaðið saxað yfir hana.

photo 3(6)

Hér sést kakan á “hlið” og þá sjást lögin: botninn – kaffi fylling – karamellusósa – súkkulaðifylling – súkkulaði ásamt hnetum og mórberjum!

Þið getið leikið ykkur með uppskriftina, til dæmis búið til 2 lög af fyllingu en borið svo karamellusósuna fram með, eða haft karamellusósuna efst… um að gera að leika sér svolítið 😉

Gangi ykkur vel og mikið væri nú gaman að heyra hvernig þessi dásemd smakkaðist!

Published by

Leave a Reply