5 atriði til að fá börn til að borða grænmetið sitt

Hér er pistill sem ég skrifaði fyrir Foreldrahandbókina í vetur en gleymdist alltaf að setja hingað inn,

Hvernig fáum við börnin til að borða meira af grænmeti því það er jú aðalmálið í góðu og næringarríku mataræði:

Framsetning : Það er hægt að gera grænmeti meira aðlaðandi með því að skera það í stangir og dýfa í einhverskonar dýfu eða hummus.  Það er líka hægt að nota kökumót og skera út blóm úr gúrkunum eða gulrótunum.  Það er líka alltaf jafn skemmtilegt að búa til karla og kerlingar á disknum með því að nota papriku fyrir munn, gúrku fyrir augu þó að það megi víst ekki leika sér að matnum, eða hvað ?

Nefna grænmetið flottum nöfnum: Það þarf ekki að vera flóknara.  Það var gerð könnun í skólum í Bandaríkjunum sem sýndi fram á það að það borgar sig að gefa grænmetinu nafn.  Já Magnús Scheving vissi hvað hann söng þegar hann markaðsetti „íþróttanammi“!

Könnunin var gerð af Cornell University’s Food and Brand Lab í 5 skólum.  Könnunin stóð yfir í 3 daga en einn daginn var grænmetið merkt sem “X-Ray Vision Carrots,” “Power Punch Broccoli,” “Tiny Tasty Tree Tops” and “Silly Dilly Green Beans“ en hina dagana var grænmetið aðeins merkt sem grænmeti dagsins.  Ég ætla að leyfa ykkur að nota hugmyndarflugið hvað væri hægt að kalla þessa hluti á íslensku en niðurstöðurnar voru áhugaverðar.  Þá daga sem grænmetið var merkt þessum skemmtilegu nöfnum var neyslan 66 % en var aðeins 32 % hina dagana!

Umbunarkerfi: Það virkar yfirleitt vel á börn.  Hér er ein hugmynd: takið blað og búið til nokkra dálka.  Efst er hægt að teikna mynd af grænmetinu, það er nauðsynlegt að hafa bæði myndir af grænmeti sem barninu finnst gott og svo nokkrar tegundir sem eru aðeins meiri áskorun.  Best er að hafa alla litina, borða allan regnbogann.  Hver biti gæti gefið 1 stjörnu. Það sem barninu þykir gott er hægt að skera í stærri bita en annað í minni bita.  Ákveðið hvað margar stjörnur þarf til að fá verðlaun.  Verðlaunin þurfa ekki að vera eitthvað dýrt, það gæti t.d. verið að barnið fái að velja hvað er í kvöldmatinn þegar það er búið að fylla blaðið, það þarf að bara að vera eitthvað sem heillar og getur verið mjög mismunandi eftir aldri. Verðlaunin geta líka verið það að fá flottan límmiða neðst í hverjum dálk þegar búið er að fylla dálkinn.  Það er hægt að útfæra þetta á svo ótrúlega margan hátt.  En það er talað um að það þurfi að smakka mat 12 x til að bragðlaukarnir venjist honum svo með því að barn fær stjörnu í hvert skipti sem það fær sér bita af einhverju sem það myndi annars ekki borða aukast alltaf líkurnar á því að á einhverju tímabili fari barninu að finnast þessi fæðutegund betri.

Fela grænmetið í matnum: Þetta getur verið mjög einfalt, það er hægt að taka allskonar grænmeti, mauka það og setja í súpur og pottrétti. Það er líka hægt að fela ýmislegt í hristingum og sjeikum. Til dæmis ef þið mynduð spyrja börnin mín myndu þau ekki segjast borða Avacado, þau myndu sennilega segja „ojjjj nei“ en þau borða Avacado í hverri viku, stundum 2-3x, þau vita bara ekki að það er avacadóið sem gerir seinniparts hristinginn svona skemmtilega mjúkan. Þau myndu líka segja þetta ef þau væru spurð um sellerí „ojjjjj sellerí“ en þau vita ekki að ég nota sellerí mjög mikið, bæði í súpur, pottrétti og meira að segja í hristinga.

Gott fordæmi: Jafnvel þó svo það sé ekki mikill áhugi fyrir grænmeti borgar sig að hafa það alltaf í boði og þá venst barnið á það að sjá það og hver veit nema einn daginn ákveði það að fá sér bita.  Það hefur líka áhrif hvernig fordæmi við sýnum.  Grettum við okkur yfir sumu grænmeti eða erum við dugleg að fá okkur stóran skammt á diskinn og njóta þess. Segjum við „mmmmm hvað þetta er góð paprika, eða „mmm hvað þetta er safaríkur tómatar“ .  Það er líka hægt að tala um ávinninginn af því að borða grænmetið, t.d. „það er svo gott fyrir kroppinn að fá grænmeti, það er svo mikið af vítamínum í því“, og „það gerir hárið okkar og neglurnar fallegar“ eða „það gefur okkur kraft og hjálpar okkur að hlaupa hraðar“.  Þetta virkar örugglega betur en „þú átt að borða grænmetið“ því börnum finnst gaman að vita af hverju.

Þess má geta að mörg þessara ráða virka líka á foreldra sem þurfa að vera duglegri að borða grænmetið sitt 😉

Gangi ykkur vel 🙂

Heimild: (http://foodpsychology.cornell.edu/outreach/whatname.html)

Published by

Leave a Reply