Kínóa pönnukökur

Eins og áður hefur komið fram elska ég Kínóa.  Finnst það bara eitthvað svo fullkomin fæða 🙂  Hér er enn ein hugmyndin hvernig hægt er að bæta Kínóa inn í mataræðið.  Það er að baka Amerískar pönnukökur og setja soðið Kínóa saman við.  Við það verða pönnukökurnar ennþá matarmeiri, næringarríkari og próteinríkari.  En það er algert frumskilyrði að grjónin hafi verið látin liggja í bleyti áður en þau voru soðin og skoluð vel svo grjónin séu ekki römm.  Það er góð hugmynd að baka stóran skammt og eiga inni í ísskáp eða frysti (og setja í brauðristina) handa litlum munnum.  Þessi hugmynd vaknaði þegar fjölskyldan borðaði kvöldmatinn mjög snemma og fór svo sund.  Þegar heim var komið voru allir svo svangir eftir sundið og eitthvað lítil til í kotinu.   Ég var fyrst pínu feimin við að setja mikið magn af grjónum út í en blandaði alltaf meira og meira þangað til öll grjónin voru komin út í deigið.  Kom skemmtilega á óvart hversu ljúffengt þetta var.  Eftir þetta hafa Kínóapönnukökur verið reglulega á borðum.

Hér kemur tvöföld uppskrift, enda dugir ekkert minna fyrir 5 manna fjölskyldu 🙂

Hráefni:

 • 5 dl spelt (fínt/ gróft)
 • 2 msk lyftiduft
 • 0,5 tsk salt
 • 2-3 msk hlynsýróp eða döðlumauk
 • 2 egg
 • 4 msk kókosolía/ smjör
 • 5-6 dl vökvi (vatn, mjólk, rísmjólk, möndlumjólk, kókosmjólk)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2-4 dl soðið kínóa

Aðferð:

 1. Blandið saman þurrefnum í skál.
 2. Í aðra fara egg, olían, sykurinn, vanilludroparnir og hluti af vökanum.
 3. Blandið vel saman með písk þangað til blandan er orðin slétt.
 4. Blandið svo rólega saman við þurru efnin og hrærið rólega.
 5. Bætið svo kínóa saman við og restinni af vökvanum.

Deigið á að vera frekar þykkt, ef ykkur finnst pönnukökurnar allt of þykkar og lengi að bakast þá bætið þið bara meira vökva saman við.

Hitið viðloðunarfría pönnu og hafið hana meðal heita.  Hellið deigi á pönnuna og bíðið þangað til “loftbólurnar” hætta þá er komin tími til að snúa við.  Bakið í 20-40 sek á hinni hliðinni og þá ætti pönnukakan að vera klár.

amerískar pönnukökur

Það er mjög gaman að leika sér með amerískar pönnukökur, ég set oft einhverja hollustu út í þegar ég baka þær.  T.d. Chia fræ, Lucuma duft eða Hveitikím.  Það er hægt að setja hvað sem er ofan á, t.d. smjör, ost, sultu, hnétusmjör, möndlusmjör en á sunnudagsmorgnum þá er skylda að fá sér íslenskt smjör og ekta hlynsýróp 😉  Það er frábært að eiga þessar inni í skáp og grípa í eina og eina t.d. eftir skóla eða í kvöldkaffi 🙂

Kínóa morgungrautur

Þar sem morguninn er sá tími sem flestir eru á hraðferð, mæli ég með því að vera búin að sjóða grjónin áður. Sjá hér. Þannig er hægt að gera þennan frábæra, holla, próteinríka, nærringarríka, orkugefandi og bragðgóða morgunmat á 5 mín.

Setjið soðið Kínóa í pott ásamt smá vatni og hitið í 5 mín.  Bætið við smá vanillu ásamt smá Himalayjasalti/ sjávarsalti og gott að setja væna skeið af kókosolíu útí.

Borið fram með mjólk/ rísmjólk/ möndlumjólk og allskonar gúmmílaði af eigin vali.  Yfirleitt set ég nokkra hluti á borðið og hver og einn velur fyrir sig. Uppáhaldsútgáfan mín er: Kanilsykur, bláber og kókosflögur

Hér eru nokkrar hugmyndir:  kanilsykur, rúsínur, þurrkuð trönuber, saxaðar hnétur eða möndlur, bláber, saxað epli eða kókosflögur.

Kínóa

Kínóa er glúteinlaust korn, reyndar telst það vera fræ frekar en korn.  Það er mjög næringarríkt, próteinríkt (það inniheldur allar 8 amínósýrurnar sem eru líkamanum nauðsynlegar), trefjaríkt og inniheldur góðar fitursýrur.  Það er skemmst frá því að segja að þetta litla korn er komið í algert uppáhald hjá mér.  Nú er það í boði í morgunmat, hádegismat og kvöldmat en kannski ekki allt sama daginn 😉   Það er sniðugast að elda mikið í einu og eiga svo tilbúið í skál inni í ísskáp.  Soðið Kínóa geymist í nokkra daga í loftþéttu íláti.

Þegar Kínóa fór að fást í Sollu hillunni í Bónus reyndi ég nokkrum sinnum að gera morgungraut úr því en hann var alltaf svo rammur að ég gafst upp á því.  En mér fannst gott að sjóða Kínóa og setja vel af grænmetiskrafti og nota svipað og hrísgrjón.

En málið er að það borgar sig að leggja grjónin í bleyti.  Skola vel fyrst og leyfa þeim svo að liggja í köldu vatni, amk. hálftíma eða yfir nótt.  Við það losnar efni sem heitir Sapponin af korninu.  Þetta er náttúrulegt skordýraeitur og það er gott að losna við það áður en við borðum grjónin.  Þegar þið hellið vatninu af grjónunum sjáið þið að vatnið er mjög gruggugt og líka mjög sterk lykt af því . Ef þetta er gert er ekki lengur þetta ramma bragð af því.

Þegar Kínóa er soðið:

Setjið 1 hluta af Kínóa í pott ásamt 2 hlutum af vatni og sjóðið í 20 mín

Eins og ég nefndi hér að ofan finnst mér sniðugast að sjóða mikið magn í einu og þá er t.d. mjög fljótlegt að búa til graut á morgnanna, þá þarf ekki að sjóða í 20 mín, heldur bara hita upp 🙂

KínóaKínóaKínóaKínóa

Amarant- Banana- Valhnetubrauð

Amarant er glúteinlaust korn,  bæði próteinríkt og mjög næringarríkt en kannski ekki mjög þekkt.  Ég prufaði að gera morgungraut með rúsínum og einhverju gúmmilaði og fannst það bara mjög gott en ég var ein um það og var vinsamlegast beðin um að hafa ekki aftur svona morgungraut. Þannig fór nú það!  En ég dó ekki ráðalaus og leitaði á veraldarvefnum og fann uppskrift af bananabrauði með Amarant og Valhnetum. Semsagt eintóm hollusta og gleði.  Þetta smakkaðist svona rosalega vel, ég bakaði brauðið í muffins bökunarplötunni og var fegin því brauðin voru mjög mjúk hefðu pottþétt verið klessubrauð hefði ég bakað það í stóru móti.  Þetta mæltist alveg agalega vel fyrir og var borðað í morgunmat ásamt berjasmoothie.

1 bolli eldað amarant (tekur 15 mín að sjóða, 1 hluti korn/2 hlutar vatn)

2 bollar gróft spelt

2 tsk vínsteinslyftiduft

1/2 bolli saxaðar valhnétur

3 stappaðir þroskaðir bananar

1/2 bolli hunang (þetta varð mjög sætt og mætti alveg vera minna hunang)

2 egg

3 msk olía/smjör (ég notaði kókosolíu)

1 tsk vanilla

Blandið þurrefnum saman í eina skál og blautu efnunum í aðra, bætið amarantinu saman við blauta efnið og svo þurrefnunum saman við. Bakið í ca 30 mín við 160°C

Sé fyrir mér að þetta sé flott í skólanestið í vetur 🙂

Amarant banana valhnétubrauð