Þetta er ein af mínum uppáhalds uppskriftum úr Heilsuréttum fjölskyldunnar. Sú bók er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki skrýtið að hún hafi slegið í gegn. Mæli með henni í öll eldhús 🙂
Þessi réttur er frábær laugardagsmatur. Krakkarnir eeeeeelska þennan mat. Eldri stelpan mín hefur fengið að hjálpa til þegar við gerum þennan rétt og finnst það rosalega mikið sport. Það þarf auðvitað bara að brýna vel fyrir þeim hversu hreinlætið er mikilvægt þegar við vinnum með kjúkling.
Uppskrift: (mínar athugasemdir eru skáletraðar)
- 1 dl spelt (má nota heilhveiti eða glúteinlaust mjöl)
- 1 stórt egg
- 8 dl kornflex (ég nota sollu kornflex)
- 2 msk olía
- 700 gr kjúklingalundir eða 4 kjúklingabringur skornar í 4-5 bita
- salt og pipar
Aðferð:
- Skerið kjúklinginn í bita og hitið ofninn í 250°C
- Setjið kornflex í matvinnsluvél ásamt olíu (stundum hef ég bara mulið kornflexið í poka með höndunum til að spara uppvask á matvinnsluvélinni)
- Setjið hveiti í eitt í ílát, egg í annað og kornflex í það þriðja. Kryddið speltið með salti og pipar (og allt í lagi að krydda hér eftir smekk)
- Takið kjúklingabitana, veltið upp úr mjölinu, svo eggjunum og síðast kornflexinu.
- Raðið á bökunarpappír og bakið í ca. 10-15 mín v. 250°C, snúið við með töng þegar tíminn er hálfnaður.
Mjög gott að bera fram með heimagerðri sinnepsósu, heimagerðri kokteilsósu eða tómatsósu. Ásamt góðu salati og bökuðum sætum kartöflum.
Góða helgi og verði ykkur að góðu 🙂