Kornflexkjúllinn sívinsæli

Þetta er ein af mínum uppáhalds uppskriftum úr Heilsuréttum fjölskyldunnar.  Sú bók er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki skrýtið að hún hafi slegið í gegn.  Mæli með henni í öll eldhús 🙂

Þessi réttur er frábær laugardagsmatur.  Krakkarnir eeeeeelska þennan mat. Eldri stelpan mín hefur fengið að hjálpa til þegar við gerum þennan rétt og finnst það rosalega mikið sport.  Það þarf auðvitað bara að brýna vel fyrir þeim hversu hreinlætið er mikilvægt þegar við vinnum með kjúkling.

IMG_4312

Uppskrift:  (mínar athugasemdir eru skáletraðar)

  • 1 dl spelt (má nota heilhveiti eða glúteinlaust mjöl)
  • 1 stórt egg
  • 8 dl kornflex (ég nota sollu kornflex)
  • 2 msk olía
  • 700 gr kjúklingalundir eða 4 kjúklingabringur skornar í 4-5 bita
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kjúklinginn í bita og hitið ofninn í 250°C
  2. Setjið kornflex í matvinnsluvél ásamt olíu (stundum hef ég bara mulið kornflexið í poka með höndunum til að spara uppvask á matvinnsluvélinni)
  3. Setjið hveiti í eitt í ílát, egg í annað og kornflex í það þriðja. Kryddið speltið með salti og pipar (og allt í lagi að krydda hér eftir smekk)
  4. Takið kjúklingabitana, veltið upp úr mjölinu, svo eggjunum og síðast kornflexinu.
  5. Raðið á bökunarpappír og bakið í ca. 10-15 mín v.  250°C, snúið við með töng þegar tíminn er hálfnaður.

IMG_4306

IMG_4309

Mjög gott að bera fram með heimagerðri sinnepsósu, heimagerðri kokteilsósu eða tómatsósu.  Ásamt góðu salati og bökuðum sætum kartöflum.

Góða helgi og verði ykkur að góðu 🙂

Mexíkó kjúllasalat

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum og oft eldaður um helgar.  Létt, gott, einfalt og umfram allt frá mexíkó svo það getur ekki klikkað.

IMG_3072

Þetta  er nú frekar einfalt, kjúklingur, salat, hugsanlega baunir og nokkrar nachosflögur.  Galdurinn liggur hinsvegar í salatsósunni.

Hér kemur uppskriftin:

  • 0,5 dl ólífuolía
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • 2 msk akasíuhunang
  • 1 hvítlauksrif
  • 0,5 tsk kóríander
  • 0,5 tsk paprika
  • 0,5 tsk cumin
  • 0,5 tsk salt
  • 1 msk oregano

Blandið öllu saman, mér finnst best að setja allt í krukku með loki og hrista vel saman.

IMG_3061

IMG_3062

Salat: Hér fer hráefnið eftir smekk, en svona er mín útgáfa:

  • kál (helst svolítið grænt, t.d. eikarlauf, amk. ekki alveg það ljósasta)
  • vorlaukur
  • rauð paprika
  • gul eða appelsínugul paprika
  • avacado
  • kirsuberjatómatar
  • gúrka
  • ferskur kóríander (átti hann ekki til þegar myndirnar voru teknar)
  • fetaostur eða venjulegur gouda í teningum

IMG_3063

  1. Blandið öllu grænmetinu saman og hellið sósunni yfir.  Það er best ef það fær að standa í smá stund.
  2. Kjúklingur – annaðhvort steiktar/grillaðar bringur eða heill grillaður kjúklingur rifin niður – magn fer eftir fjölda þeirra sem borða 🙂
  3. Pinto baunir finnst mér passa mjög vel í þessu salati en þar sem það eru ekki allir á eitt sáttir með það, þá blanda ég þeim ekki saman við heldur ber þær sér á borð. Pinto baunirnar verða betri og girnilegri ef þær eru kryddaðar og sett smá olía yfir.
  4. Það er auðvitað algerlega nauðsynlegt að mylja þó að það sé ekki nema aðeins Nachos yfir.

IMG_3070

Ég hef tekið eftir því að krökkunum finnst miklu meira spennandi að raða sjálf á diskinn og gera sitt salat sjálf heldur en ef ég er búin að blanda öllu saman í eina stóra skál.  Það reynir aðeins meira á sköpunargleðina.  Svo oftast set ég salat í eina skál, kjúkling í aðra, sama með baunir, fetaost og nachos.

IMG_3067

Verði ykkur að góðu 🙂

Dásamlegt kalkúnasalat

Góð hugmynd ef það er einhver afgangur af kalkúninum.  Stundum er gaman að gera eitthvað allt annað við afganginn en að borða aftur sama matinn með sama meðlætinu.

Þetta salat hef ég gert nokkrum sinnum og finnst alltaf jafn gott.  Uppskriftin er úr Veislubók Hagkaups.  Mér finnst reyndar pínu kjánalegt að uppskriftin er öll í desilítrum, en ég er bara ekki vön að mæla gúrku og papriku í desilítrum svo ég ætla nú bara að leyfa mér að gefa þessa uppskrift upp svona cirka.

IMG_3311

  • 4 dl af kalkúnakjöti
  • 1/2 rauð paprika
  • 1/3 gúrka
  • 1 dl vínber
  • 1 dl fetaostur
  • lúka af rúsínum
  • lúka af hnetum (ég notaði kasjúhnetur og smá salt hnetur)

dressing:

  • 1/2 dl græn ólífuolía
  • 2 msk balsamedik
  • salt og pipar

Verði ykkur að góðu 🙂

Pestó pasta með/eða án kjúklings

Þetta er einn af þessum þægilegu fljótlegu réttum sem er svo gott að grípa til í miðri viku.  Ég er oft með eitthvað fljótlegt og einfalt á mánudagskvöldum því þá daga nota ég gjarnan til að útbúa hitt og þetta fyrir vikuna.  T.d. gera múslí, möndlumjólk, baka bananabrauð, pestó eða hvað sem er á dagskrá þá vikuna.  Og þá er ágætt að þurfa ekki að standa á haus í eldamennsku líka.

pestópasta

Sjóðið pasta (ég nota Sollu spelt pasta)

Búið til pestó (gott að gera tvöfalda uppskrift, þá er hægt að nota nóg með pastanu og samt nægur afgangur eftir).  Þið getið auðvitað keypt pestó en það er svo ótrúlega auðvelt að gera það sjálfur og er svo miklu ódýrara, fyrir utan að maður getur kryddað algerlega eftir sínu höfði, þannig að ég mæli algerlega með því.

pestó

Blandið saman pestó og pasta, brytjið niður kjúkling (best ef það er til afgangur, þá er þetta svo dásamlega fljótlegt) og bætið saman við. Toppurinn er að eiga feska basiliku og setja vel af henni með.

Fetaostur passar dásamlega vel með þessu og fullt fullt fullt af fesku sallati

pestópasta

Svo er tilvalið að smella saman sallatinu og pastanu og taka með sér í vinnuna daginn eftir 🙂

pestópasta

Vinkona mín er snillingur og hún kenndi mér að klippa pastað með skærum fyrir litla munna.  Litli herramaðurinn á heimilinu er alveg að fíla það í tætlur 🙂  Helmingi fljótlegra heldur en að vera að skera með hníf og gaffli.

pestópasta

Verði ykkur að góðu 🙂

Geggjaðar hnetusmjörsnúðlur

Mmmmmmm þetta er svo gott. Algert æði og einfalt, frábært í miðri viku þegar maður er alltaf að leita að einhverju einföldu og þægilegu og fljótlegu… og einhverju sem öllum finnst gott.

Hnetusmjörssósan gerir núðlurnar kremaðar og matarmeiri.  Það má bæði borða þennan mat sem grænmetisrétt en líka rosa gott að setja kjúkling með og gera máltíðina matarmeiri.

Rétturinn samanstendur af núðlum, hnetusmjörssósu, fullt fullt af grænmeti og hugsanlega kjúkling.

Núðlur

Það er ágætt að miða við ca 2-2,5 dl af grænmeti á mann, ég hef sett ca 10 dl fyrir okkur 5.  Það má nota hvað sem er, bara það sem er til í skápnunum.

Þegar þessi mynd var tekin var eftirfarandi grænmeti notað:

2-3 gulrætur
1/2 púrra
1/2 blómkálshaus
1/2 brokkolíhaus
1/2 rauð paprika

Sósan:

4 msk hnetusmjör (best að nota hreint, án sykurs)
2/3 bolli grænmetissoð (eða vatn og kraftur)
2 msk hunang
4 msk tamari sósa
2 tsk smátt rifið engifer
2 hvítlauksgeirar
(1-2 tsk Chili flögur fyrir þá sem vilja hafa réttinn sterkan, en ég hef sleppt því út af krökkunum og kryddað bara yfir með Chili Explosion kryddinu)

100- 150 gr hrísgrjónanúðlur
Safi úr hálfu lime

Aðferð:

  1. Byrjið á því að blanda öllu því sem á að fara í sósuna í skál og geymið.  Smakkið til og bætið við kryddum ef ykkur finnst þurfa.
  2. Skerið grænmetið í litla bita, hitið pönnu, setjið smá olíu á pönnuna og steikjið grænmetið við meðalhita í nokkrar mínútur,  hellið sósunni út á og látið malla í nokkrar mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
  3. Eldið núðlur samkvæmt leiðbeiningum og setjið út í rétttinn.
  4. Að lokum er mjög gott að kreista lime yfir.  Ef þið eigið ferskan kóríander er það alveg geggjað að saxa hann yfir fyrir utan að það er alveg meiriháttar hollt. Það er líka mjög gott að strá Kasjúhnetum yfir réttinn.

Það eru ýmsar núðlur í boði, venjulegar hveitinúðlur, heilhveitinúðlur, hrísgrjónanúðlur,  brown rice hrísgrjónanúðlur, ,kelp núðlur (unnar úr þara og lang næringarríkasti kosturinn)  o.s.frv. Skoðið vel innihaldslýsingu hvort það séu mörg aukaefni.  Sumar skyndinúðlur eru húðaðar vaxi og það tekur líkamann 2 sólahringa að melta. Ekki mjög spennandi 🙁

Uppskriftin er upprunalega frá Naturally Ella, þið getið fundið uppskriftina hér.

Verði ykkur að góðu 🙂

Jambalaya

Þetta er eitthvað svo flott orð: Jambalayja, hljómar einhvern megin betur en kássa eða jú sennilegast væri pottréttur besta orðið til að halda íslenskunni á lofti.  Jambalayja kemur frá karabísku eyjunum og er svipað eins og Paella á Spáni.  Grænmeti, hrísgrjón og oftast kjöt, kjúklingur eða rækjur sett saman í pott og soðið ásamt góðu kryddi.

Ég rakst á þessa girnilegu uppskrift um daginn á einu af mínu uppáhalds matarbloggi og mátti til með að prufa.  Ég verð að játa að ég hef aldrei á ævinni keypt grasker áður.  Ég veit ekki af hverju, sennilega af því að ég vandist því ekki í uppvextinum eða bara aldrei fundið þörf á því fyrr, en undanfarið hafa þau starað á mig í grænmetisdeildum verslana því nú er uppskerutími og þau eru til á flestum stöðum, fullþroskuð og stútfull af góðri næringu.  Graskerið sem ég er að tala um er reyndar ekki Pumpkin, þetta stóra appelsínugula heldur Butternut squash en hingað til hef ég ekki fundið neitt íslenskt orð yfir það, nema bara grasker.  Ef einhver veit væri ég til í að vita 🙂  Ég er orðin yfir mig ástfangin af þessu grænmeti og spyr bara sjálfa mig “AF HVERJU hef ég ekki eldað þetta fyrr”. En einhvern tímann er allt fyrst 🙂

Butternut squash

En aftur að uppskriftinni.  Þetta var svo gott að ég gerði þennan rétt 2x í sömu vikunni.  Bæði gott og ódýrt því eitt svona stykki kostar ca 200 kr og er alveg heilmikill matur.  Í seinna skiptið átti ég smá afgang af kjúkling og setti út í. Í bæði skiptin átti ég tilbúin hýðishrísgrjón í ísskápnum sem gerði alla matseld mun fljótlegri. (Það er nefnilega alveg málið að elda mikið í einu af hýðishrísgrjónum og eiga til fyrir skyndimatseld).  Ég breytti uppskriftinni aðeins og uppskriftin hér að neðan er eins og ég gerði hana.

Hráefni:

  • 1-2 msk kókosolía eða önnur olía
  • 1 Butternut Squash (hlakka mikið til hvort einhver viti íslenska nafnið á þessu yndislega grænmeti)
  • 1/2 laukur
  • 1/2 græn paprika
  • 1/2 rauð paprika
  • 1 stöngull sellerí
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 tómatar
  • 1,5 bolli af soðnum hýðishrísgrjónum
  • 1-2 bollar grænmetissoð  (eða vatn og hreinn grænmetiskraftur)
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 tsk papriku krydd
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1/4 tsk cayenna pipar
  • salt og pipar
  • kjúklingur (eða afgangur af öðru kjöti)

Aðferð:

  1. Skerið niður allt grænmetið.
  2. Hitið olíu í potti og hitið lauk, sellerí og papriku þangað til það er orðið mjúkt.
  3. Bætið tómötum, hvítlauk og graskerinu í pottinn og mýkið.
  4. Setjið allt annað út í, nema hýðishrísgrjónin. Setjið lok á pottinn og látið malla við lágan hita í 20-25 mín.
  5. Bætið grjónunum og kjúklingnum (eða kjötinu) við í lokin og smakkið til hvort þurfi að krydda meira.

Jambalayja

Verði ykkur að góðu 🙂