Súkkulaðikaka með karamellukremi (mjólkur- og glúteinlaus)

Hér kemur ein af mínum uppáhalds uppskriftum.  Þetta er svipuð þessari köku nema ég hef öðruvísi karamellu og uppskriftin er minni.
  photo 2(5)
Ég gaf Fréttablaðinu þessa uppskrift í desember í aukablað sem fjallaði um glúteinlaust mataræði.  Ég ætlaði auðvitað að deila þessu með ykkur daginn sem myndin og viðtalið birtist en það fór fyrir ofan garð og neðan.  Þið munið kannski einhver eftir þessum degi,  það var brjálað veður, sem kom samt bara eftir að öll börnin voru komin í skólann, svo kom tilkynning að allir ættu að drífa sig heim að sækja börnin, og þar sem allt „úthverfaliðið“ sat sem fastast í bílaröð dauðans á meðan aðrir börðust um og reyndu að losa bílinn (eins og ég t.d.) kom svo tilkynning aftur að sennilega væri best að engin yrði á ferðinni í þessu skelfilega veðri og það þyrfti ekkert að sækja börnin enda fór bara mjög vel um þau.  Eftir margra tíma biðröð, snjómokstur og gönguferð að sækja börnin steingleymdi ég að deila uppskriftinni.  Áttaði mig svo bara í þessari viku að ég hafði steingleymt þessu.  En betra er jú seint en aldrei 🙂
 viðtal
Hráefni:
  • 3 dl möndlumjöl
  • 3/4 dl kókospálmasykur eða strásæta frá Via Health (eða blanda því 50/50)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 4-5 msk kakó
  • 1/4 tsk salt
  • 2 egg
  • 1/2 dl kókosolía (eða smjör)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 dl valhnetur, smátt brytjaðar
Aðferð:
  1. Bræðið kókosolíuna.
  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
  3. Hrærðið saman eggjunum, kókosolíunni og vanilludropunum.
  4. Blandið saman þurru og blautu efnunum og bætið valhnetunum saman við.
  5. Bakið í 20 mín við 200°c
Karamellukrem: 
  • 0,75 dl hlynsýróp
  • 3-4 msk möndlusmjör (dökkt)
  • 1/2-1 tsk hreint vanilluduft
  1. Blandið hlynsýrópi, möndlusmjöri og vanilludufti vel saman í skál (eða blandara) og hellið yfir kökuna þegar hún kemur út úr ofninum.
  2. Kökuna má skreyta að vild, á myndinni er stráð yfir karamellukremið dökku súkkulaði og ristuðum makademíuhnetum.  (ath. það borgar sig að kæla kökuna áður en þið stráið súkkulaðinu yfir, annars bráðnar það)

 

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Published by

One thought on “Súkkulaðikaka með karamellukremi (mjólkur- og glúteinlaus)

Leave a Reply