Hnetufingur með súkkulaði

Jæja, nú er aldeilis komin tími á að pósta hér nýrri uppskrift.  Ég hef ekki verið dugleg að setja inn nýjar uppskriftir undanfarið því ég hef verið upptekin í öðrum skemmtilegum verkefnum og því miður eru bara 24 tímar í sólarhringnum 😉    Ég er mjög spennt að segja ykkur frá einu af þessu verkefni en það er ný rafbók sem er aaaaaaaalveg að verða tilbúin.  Mun láta ykkur vita á næstu dögum þegar allt er klárt.   Þessi bók heitir “uppáhaldsréttir barnanna” og er samansafn af uppáhaldsréttum barnanna minna. En meira um það síðar.

Þessa hnetufingur smakkaði ég fyrst hjá mömmu þegar við skruppum til Akureyrar í mars.  Ég segi nú ekki annað en ÞVÍLÍK SNILLD.  Það er bæði negull og kanill í uppskriftinni og því kalla börnin á heimilinu þetta piparkökustangir sem kannski lýsir þeim mun betur en hnetufingur.

Uppskriftina fékk ég hjá mömmu en það fylgir uppskriftinni að hún sé fengin úr annarri speltbók Guðrúnar Rögnu en ég er búin að breyta uppskriftinni örlítið.

Hnetufingur með súkkulaði
Hnetufingur með súkkulaði

Hráefni: 

  • 200 g malaðar heslihnetur og valhnetur (ég hef notað möndlumjöl)
  • 50 g strásæta með stevíu (Via Health)
  • 50 g kókospálmasykur
  • 1 1/2 tsk kanill
  • 1 tsk negull
  • 1 tsk egg
  • Dökkt súkkulaði

Aðferð: 

  1. Byrjið á því að mala hnetur eða setja möndlumjölið í skál.
  2. Kanil og negul blandað saman við, síðan sykrinum og að lokum egginu.
  3. Blandið vel saman og hnoðið.
  4. Setjið á bökunarpappír, u.þ.b. 1 cm þykkt.
  5. Skerið í fingurbreiðar lengjur og svo í litla fingur eða litlar stangir.
  6. Bakið 15-20 mín við 150°c.
  7. Stangirnar mega vera örlítið mjúkar því þær verða stökkar þegar þær kólna. Ef þær eru bakaðar of lengi verða þær svolítið harðar þegar þær kólna.
  8. Kælið stangirnar, bræðið súkkulaði og dýfið öðrum endanum ofan í og leggið aftur á bökunarpappírinn.
  9. Kælið og njótið 🙂

Það er óþarfi að setja súkkulaði í hvert skipti því þessar stangir eru mjög góðar bara eins og þær eru.  En það er skemmtilegt að setja súkkulaði spari. 

Súkkulaðikaka með karamellukremi (mjólkur- og glúteinlaus)

Hér kemur ein af mínum uppáhalds uppskriftum.  Þetta er svipuð þessari köku nema ég hef öðruvísi karamellu og uppskriftin er minni.
  photo 2(5)
Ég gaf Fréttablaðinu þessa uppskrift í desember í aukablað sem fjallaði um glúteinlaust mataræði.  Ég ætlaði auðvitað að deila þessu með ykkur daginn sem myndin og viðtalið birtist en það fór fyrir ofan garð og neðan.  Þið munið kannski einhver eftir þessum degi,  það var brjálað veður, sem kom samt bara eftir að öll börnin voru komin í skólann, svo kom tilkynning að allir ættu að drífa sig heim að sækja börnin, og þar sem allt “úthverfaliðið” sat sem fastast í bílaröð dauðans á meðan aðrir börðust um og reyndu að losa bílinn (eins og ég t.d.) kom svo tilkynning aftur að sennilega væri best að engin yrði á ferðinni í þessu skelfilega veðri og það þyrfti ekkert að sækja börnin enda fór bara mjög vel um þau.  Eftir margra tíma biðröð, snjómokstur og gönguferð að sækja börnin steingleymdi ég að deila uppskriftinni.  Áttaði mig svo bara í þessari viku að ég hafði steingleymt þessu.  En betra er jú seint en aldrei 🙂
 viðtal
Hráefni:
  • 3 dl möndlumjöl
  • 3/4 dl kókospálmasykur eða strásæta frá Via Health (eða blanda því 50/50)
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 4-5 msk kakó
  • 1/4 tsk salt
  • 2 egg
  • 1/2 dl kókosolía (eða smjör)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 dl valhnetur, smátt brytjaðar
Aðferð:
  1. Bræðið kókosolíuna.
  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
  3. Hrærðið saman eggjunum, kókosolíunni og vanilludropunum.
  4. Blandið saman þurru og blautu efnunum og bætið valhnetunum saman við.
  5. Bakið í 20 mín við 200°c
Karamellukrem: 
  • 0,75 dl hlynsýróp
  • 3-4 msk möndlusmjör (dökkt)
  • 1/2-1 tsk hreint vanilluduft
  1. Blandið hlynsýrópi, möndlusmjöri og vanilludufti vel saman í skál (eða blandara) og hellið yfir kökuna þegar hún kemur út úr ofninum.
  2. Kökuna má skreyta að vild, á myndinni er stráð yfir karamellukremið dökku súkkulaði og ristuðum makademíuhnetum.  (ath. það borgar sig að kæla kökuna áður en þið stráið súkkulaðinu yfir, annars bráðnar það)

 

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Ofurhollar smákökur fyrir þá sem nenna ekki að baka

Snilldar smákökur frá vinkonu minni henni Steinunni Aðalsteinsdóttur, oftast kennd við Heilsuhótelið í Reykjanesbæ.  Í síðustu viku var þar haldin mjög fróðlegur fyrirlestur um meltinguna.  Fyrirlesarinn var Chad Keilen sem vinnur á Heilsuhótelinu.  Hann er með BSc í Heilsuvísindum og alger sérfræðingur sem gaman er að hlusta á.  Hann útskýrði hlutina á mannamáli og var t.d. með kaðal til að sýna okkur hversu langur ristillinn er, mjög sjónrænt og fræðandi.  Hann gaf okkur mörg góð ráð hvernig hægt er að styðja við betri meltingu með einföldum ráðum.

Í hléinu bauð hún Steinunn upp á þessar sérlega hollu smákökur sem þarf ekki að baka og tekur mjög stuttan tíma til að búa til og bragðlaukarnir verða ekki fyrir vonbrigðum.

photo (3)

Hráefni:

  • Perur (mjög sniðugar þessar litlu lífrænu sem fást á mörgum stöðum núna)
  • Hnetusmjör (eða möndlusmjör)
  • Hampfræ
  • Dökkt súkkulaði

Aðferð:

  1. Skerið peruna í sneiðar (Hér má að sjálfsögðu skipta út perunum fyrir epli)
  2. Setjið ca hálf teskeið af hnetusmjöri
  3. Stráið hampfræjunum yfir (ef ykkur þykir þau spes á bragðið ein og sér, passa þau dásamlega í þessari samsetningu)
  4. Skerið súkkulaði í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja “köku”
  5. Borðið strax 🙂

Ofangreindur fyrirlestur var liður í fjáröflun fyrir Helenu og Emelíu en þær eru dætur Chad og Rutar, eiginkonu hans.  Þær eru mjög mikið veikar, þurfa aðstoð allan sólarhringin og nú er það orðið svo að Emelía fær allt að 100 flog á dag.  Ástæða söfnunarinnar er Ameríkuför fjölskyldunnar til að leita frekari lækninga úti þar sem ekki er hægt að gera meira fyrir þær systur hér á Íslandi.  Þau þurfa sjálf að leggja út fyrir þessari kostnaðarsömu ferð.  Ég hvet ykkur til að kíkja á síðu söfnunarinnar!

Kúrbítsmúffurnar sem slóu í gegn

Í fyrra birti ég uppskrift af kúrbíts múffum, þær voru nokkuð grófar, næstum eins og brauð og ég fann uppskriftina einmitt fyrir sunnudags-brunch.  Um daginn átti ég þennan fína kúrbít og mundi eftir kökunum sem hafa ekki verið bakaðar í nokkra mánuði.  Mig langaði að gera aðeins kökurnar aðeins meira djúsí svo ég breytti uppskriftinni örlítið.   Þessar kökur hafa nú verið bakaðar 3 helgar í röð fyrir mismunandi kaffiboð og hafa allstaðar mælst mjög vel fyrir.  Eftir siðasta kaffiboð var komin mikil pressa að setja kökurnar hingað inn.

Kúrbíturinn gerir kökurnar svo mjúkar og góðar og mun hagkvæmari…og já hollari, þetta er win-win-win 🙂

Kúrbítsmúffur

Hráefni:

  • 3 egg
  • 1/2 bolli kókospálmasykur eða hrásykur
  • 1/2 bolli brædd kókosolía eða önnur góð olía t.d. lífræn sólblómaolía
  • 2 tsk vanilludropar
  • 20 dropar stevía (ekki verra að hafa hana með karamellubragði)
  • 2 bollar spelt (gróft og fínt)
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk salt (himalayja eða sjávar)
  • 1 meðalstór kúrbítur
  • 100 gr 70 % súkkulaði
  • 1/3 bolli pecan hnetur (eða valhnetur)

Ath. 1 bolli er 2,3 dl (Ef þið eigið svona ekta kakókönnu inni í skáp duga þær fínt, en annars er hægt að kaupa amerískt bollamál í flestum búðum sem selja búsáhöld á lítinn pening)

Aðferð:

  1. Blandið saman eggjum, sykri, olíu og vanilludropum þangað til létt.
  2. Blandið öllum þurrefnunum saman og blandið saman við blautu efnin.
  3. Rífið kúrbítinn niður með rifjárni, þið getið flysjað hann fyrst með ostaskera til að taka græna hýðið í burtu ef þið haldið að það fæli einhverja frá 😉  (en auðvitað hollara að hafa svolítið grænt með 😉 )
  4. Saxið hneturnar og súkkulaðið og blandið öllu saman við þurrefnin.
  5. Setjið deigið í pappírsmót og bakið við 200°c í 20 – 22 mín

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

 

 

Skúffukaka – tilvalin fyrir krakka að baka

Það var einn laugardaginn sem krökkunum vantaði eitthvað að gera, stelpurnar voru farnar í eldhúsið að sulla eitthvað og farnar að ná sér í hitt og þetta í bökunarskúffuna til að fara að “baka”.  Í stað þess að eyða þessum hráefnum í eitthvað sull sem myndi sennilega enda á mér að þrífa upp bauð ég þeim að baka handa okkur skúffuköku.  Þetta fannst  þeim spennandi og fór svo að það var bökuð skúffukaka 2 daga í röð og þær sáu um þetta alveg sjálfar.  Stórsniðug hugmynd ef krakkarnir eru búnir að læra að lesa og auðvitað þurfa þau að lofa því að ganga frá eftir sig 😉

Þessi kaka er mjög góð, hef boðið upp á hana í mörgum veislum fyrir krakka og þau eru mjög hrifin.  En þó er miklu minni sykur en jafnan er í svona kökum auk þess sem hún er mjólkurlaus og hentar því vel fyrir mjólkurofnæmis og óþolspésa.

IMG_8128

Fyrsta verk er að finna svuntur og koma sér í gírinn, finna til öll hráefni og vera viss um að þau skilji allar tölur svo þau setji t.d. ekki 7 msk af matarsóta í staðinn fyrir 1 bara af því að mamman skrifar 1 eins og 7  ….. en jú mistökin eru jú til að læra af þeim 😉

IMG_8129

Á mínu heimili er nauðsynlegt að deila niður verkefnunum svo systurnar baki ekki bara vandræði.  Önnur sá um blautu hlutina en hin þá þurru.

IMG_8130

Hráefni í skál 1:

  • 7 dl spelt (gróft og fínt til helminga)
  • 2,5 dl kókospálmasykur (eða hrásykur)
  • 8 msk kakó
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk matarsóti
  • 1 tsk salt

Hráefni í skál 2:

  • 4 egg
  • 4 dl kókosmjólk (1 dós)
  • 25 dropar stevía (mjög auðvelt að mæla dropa á Via Health stevíunni)
  • 1 1/4 dl kókosolía, lífræn sólblómaolía eða önnur góð hitaþolin olía
  • 1 tsk vanilludropar

IMG_8137

Aðferð:

  1. Blandið hráefnunum vel saman í hvorri skál fyrir sig.
  2. Hellið blautu efnunum saman við þurru efnin og blandið mjög vel saman.
  3. Penslið ofnskúffu (ath. þessi uppskrift er í stóra ofnskúffu) og hellið deginu í ofnskúffuna.
  4. Bakið við 180°c í 20 mín.

 

IMG_8139

IMG_8142

IMG_8144

Kremið ofan á kökuna:

  • 100 g appelsínusúkkulaði
  • 100 g 70 % súkkulaði
  • 3 msk kókosolía
  • 2 msk hlynsýróp
  • 1 egg

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaðið við mjög vægan hita.
  2. Blandið saman við kókosolíu og hlynsýrópi.
  3. Þegar það hefur blandast vel saman, takið þá pottinn af hellunni og kælið í smástund.
  4. Setjið 1 egg út í og hrærið vel með handþeytara þangað til kremið er orðið þykkt og fínt.
  5. smyrjið kreminu á kökuna þegar kakan hefur kólnað.

 

IMG_8147

IMG_8148

Gjörðu svo vel mamma 🙂

Skúffukaka

Mmmmmmm ég get sko alveg vanist þessu að láta baka ofan í mig um helgar 🙂

 

 

Konfekttertan hennar mömmu

Mikið er notalegt að vera komin í páskafrí.  Ég er viss um að þið eruð öll sammála mér.  Hér á bænum er markmiðið að hvílast og safna orku, borða góðan mat og hitta góða vini, semsagt góð næring í mismunandi birtingarmyndum.

Ég ákvað að skella hér inn dásamlegri uppáhalds uppskrift sem hefur fylgt fjölskyldunni í meira en 30 ár og verið bökuð við öll betri tækifæri.  Hún er einföld í framkvæmd og það er einmitt þessi einfaldleiki sem heillar alla upp úr skónum sem smakka.  Ég er að auðvitað búin að breyta aðeins upprunalegri uppskrift, minnka sykur, skipta hvítu hveiti út fyrir spelt o.s.frv.  svo þetta er svona spariterta í skárri kantinum.   Ég er einmitt akkúrat á leiðinni inn í eldhús að smella í eina svona köku fyrir morgundaginn.  Þá eiga tengdó brúðkaupsafmæli og því gott tilefni fyrir fjölskyldukaffi.

IMG_6417

Þessi uppskrift birtist í kökublaði Vikunnar í nóvember siðastliðnum.  Þannig að þetta er fyrir ykkur sem keyptuð ekki kökublaðið og ekki heldur næringarríku uppskriftirnar sem ég var að selja hér á síðunni, svo þið missið ekki af þessari frábæru köku.

 kokublad

Hráefni:

  • 4 egg
  • 1 dl hrásykur
  • 1 dl spelt (fínt og gróft ca. 70/30)
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • Örlítið salt
  • 200 gr döðlur, brytjaðar smátt
  • 100 gr 70 % súkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið egg og sykur vel saman, (ég læt hrærivélina ganga lengi og brytja döðlurnar og súkkulaðið á meðan).
  2. Blandið speltinu, lyftiduftinu og saltinu varlega saman við með sleif.
  3. Döðlunum og súkkulaðinu blandað rólega saman við.
  4. Bakað í tveimur 26 cm lausbotna formum. Penslið þau með smá olíu og stráið líka örlitlu hveiti yfir mótið svo það sé auðvelt að ná botnunum úr forminu.
  5. Bakið við 180°c í ca. 18 mín (mér finnst gott að baka hana neðarlega svo hún verði ekki of dökk).

Á milli:

  • 250 ml þeyttur rjómi
  • 100 gr fyllt myntusúkkulaði (t.d. hrásykurs súkkulaði frá Green&Black)

IMG_6424

Það er mikilvægt að setja rjómann og myntusúkkulaðið á kökuna daginn áður en á að borða hana því hún verður svo miklu betri .

Það er góð hugmynd að kæla myntusúkkulaðið og saxa það niður kalt, þá fer fyllingin síður út um allt.

Það er líka góð hugmynd að setja seinni botninn inn í ísskáp á meðan fyrri botninn bakast svo hann falli síður og verði þunnur og ræfilslegur.

Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar