Konfekttertan hennar mömmu

Mikið er notalegt að vera komin í páskafrí.  Ég er viss um að þið eruð öll sammála mér.  Hér á bænum er markmiðið að hvílast og safna orku, borða góðan mat og hitta góða vini, semsagt góð næring í mismunandi birtingarmyndum.

Ég ákvað að skella hér inn dásamlegri uppáhalds uppskrift sem hefur fylgt fjölskyldunni í meira en 30 ár og verið bökuð við öll betri tækifæri.  Hún er einföld í framkvæmd og það er einmitt þessi einfaldleiki sem heillar alla upp úr skónum sem smakka.  Ég er að auðvitað búin að breyta aðeins upprunalegri uppskrift, minnka sykur, skipta hvítu hveiti út fyrir spelt o.s.frv.  svo þetta er svona spariterta í skárri kantinum.   Ég er einmitt akkúrat á leiðinni inn í eldhús að smella í eina svona köku fyrir morgundaginn.  Þá eiga tengdó brúðkaupsafmæli og því gott tilefni fyrir fjölskyldukaffi.

IMG_6417

Þessi uppskrift birtist í kökublaði Vikunnar í nóvember siðastliðnum.  Þannig að þetta er fyrir ykkur sem keyptuð ekki kökublaðið og ekki heldur næringarríku uppskriftirnar sem ég var að selja hér á síðunni, svo þið missið ekki af þessari frábæru köku.

 kokublad

Hráefni:

 • 4 egg
 • 1 dl hrásykur
 • 1 dl spelt (fínt og gróft ca. 70/30)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • Örlítið salt
 • 200 gr döðlur, brytjaðar smátt
 • 100 gr 70 % súkkulaði

Aðferð:

 1. Þeytið egg og sykur vel saman, (ég læt hrærivélina ganga lengi og brytja döðlurnar og súkkulaðið á meðan).
 2. Blandið speltinu, lyftiduftinu og saltinu varlega saman við með sleif.
 3. Döðlunum og súkkulaðinu blandað rólega saman við.
 4. Bakað í tveimur 26 cm lausbotna formum. Penslið þau með smá olíu og stráið líka örlitlu hveiti yfir mótið svo það sé auðvelt að ná botnunum úr forminu.
 5. Bakið við 180°c í ca. 18 mín (mér finnst gott að baka hana neðarlega svo hún verði ekki of dökk).

Á milli:

 • 250 ml þeyttur rjómi
 • 100 gr fyllt myntusúkkulaði (t.d. hrásykurs súkkulaði frá Green&Black)

IMG_6424

Það er mikilvægt að setja rjómann og myntusúkkulaðið á kökuna daginn áður en á að borða hana því hún verður svo miklu betri .

Það er góð hugmynd að kæla myntusúkkulaðið og saxa það niður kalt, þá fer fyllingin síður út um allt.

Það er líka góð hugmynd að setja seinni botninn inn í ísskáp á meðan fyrri botninn bakast svo hann falli síður og verði þunnur og ræfilslegur.

Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar

Published by

Leave a Reply