Indverskir kínóaklattar með indveskri sósu

Í einni af minni uppáhalds matreiðslubók, Heilsuréttir fjölskyldunnar er uppskrift af indverskum grænmetisbuffum.  Þetta er mjög góð uppskrift sem rennur ljúflega ofan í heimilisfólkið mitt.  Hér er á ferðinni uppskrift sem er svona afleiðing hinnar, nota kínóa í stað hrísgrjóna, krydda með tandoori kryddi (það kemur rosalega vel út), set ristaðar pekan hnetur út í og sleppi kartöflunum og lauknum.   Þannig að já, kannski bara svolítið mikið breytt útgáfa 🙂  En þessi buff þykja mér hriklega góð og eru alveg súper holl.  Mér finnst æði að gera nokkuð stóran skammt og eiga til í frysti og geta svo tekið með mér í nesti í vinnuna með góðu salati.   Krökkunum finnst buffin mjög góð en sósan kannski svolítð sterk, má þynna hana með meiri kókosmjólk fyrir mildari útgáfu.

photo 4(2)

Hráefni:

 • 2 bollar soðið kínóa
 • 4 stórar gulrætur (gróft saxaðar og soðnar í nokkrar mín)
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 tsk túrmerik
 • 2 1/2 tsk cumin
 • 2 msk grænmetiskraftur
 • 1 tsk tandoori krydd
 • 1/2 bolli ristaðar pekan hnetur
 • 2-3 msk kókosmjöl
 • 3-4 msk glúteinlausir hafrar  (eða meira kókosmjöl til að deigið sé ekki of blautt)

Aðferð:

 1. Sjóðið kínóa
 2. Sjóðið gulrætur
 3. ristið pekanhneturnar
 4. Setjið allt í matvinnsluvél þangað til allt hefur blandast vel saman.
 5. Setjið á bökunarpappír á bökunarplötu með skeið og bakið í 25 mín við 200°C

 

Sósan:

 • 3-4 hvítlauksgeirar
 • 2-4 cm engifer (eftir smekk)
 • 2msk Kókosolía
 • 1 msk garam masala eða annað gott karrý
 • 1 tsk curry paste
 • 1 msk Turmerik
 • 2 stórar döðlur
 • 200 ml Kókosmjólk (ég nota bleika fernu frá Santa Maria og fæst í Bónus, 200 ml)

Aðferð:

 1. Setjið kókosolíuna í pott og hitið
 2. Blandið öllu kryddinu saman ásamt engifer (best að raspa það niður svo ekki séu engiferþræðir í súpunni) hvítlauk og karrýmaukinu.
 3. Setjið allt kryddið í pottinn og hrærið vel í svo það brenni ekki.
 4. Hellið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt döðlunum.
 5. Leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur við lágan hita.
 6. Hrærið með töfrasprota (það eru aðallega döðlurnar sem þurfa þess)
 7. Smakkið til, bætið við vatni ef hún er of þykk, meira salti janvel eða hvað sem ykkur finnst, jafnvel smá chili !

Þessi sósa er líka mjög góð köld.

Minni svo á námskeiðið sem haldið verður í byrjun mars, meira um það hér: https://www.facebook.com/events/1396035030703123/?ref_newsfeed_story_type=regular

 

Einfalt linsubauna “curry”

Hversdagsréttur sem er ekki bara hollur heldur virkilega GÓÐUR 🙂  Og ekki bara hollur og góður, heldur líka einfaldur og fljótlegur og ÓDÝR!

Það var einhvern eftirmiðdaginn þegar kvöldmatur nálgaðist og ég nennti ómöglega hvorki að elda neitt flókið og enn síður að fara út í búð og ákvað að ég skyldi bara nota það sem til væri.  Nema gallinn var sá að það var MJÖG lítið til í kotinu.  Eftir að hafa farið yfir lagerstöðuna var ljóst að það yrði eldað úr linsubaunum 🙂   Ég fór á google og leitaði efir lentils curry  og upp kom þessi dásamlega uppskrift sem hafði orðið YUMMI svo mörgum sinnum í textanum svo ég gat ekki annað en prufað og sá svo sannarlega ekki eftir því.   Ég hef gert þennan rétt nokkrum sinnum og hann slær alltaf í gegn.

Hráefni:

 • 3 dl rauðar linsubaunir
 • 2 msk kókosolía
 • 1 -2 tsk curry paste (upphaflega uppskriftin segir 2 msk en það er ROSALEGA sterkt)
 • 1 1/2  tsk góð karrýblanda (ég hef bæði notað frá Himneskri  hollustu og líka Pottagöldrum, bæði gott)
 • 1/2 tsk túrmerik
 • 1 tsk kókospálmasykur (ef þið viljið engan viðbættan sykur má setja 1-2 mjúkar döðlur út í sósuna)
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 cm af engifer – rifið niður
 • 1 laukur, smátt saxaður
 • 400 ml tómatpassata (það má líka nota maukaða tómata eða jafnvel 2-3 msk tómatpuré og 4 dl af vatni (hrist saman)
 • 1 dl kókosmjólk ( ég set hana ekki alltaf,  fínt að gefa henni stundum frí og setja bara vatn)

Aðferð:

 1.  Best er að láta linsubaunirnar liggja í bleyti í nokkra tíma en ef þið lendið í tímahraki er samt gott að láta þær liggja í ca. 15 mín frekar en ekki neitt.  Sjóðið þær svo í potti í ca. 15-20 mín.
 2. Hitið pönnu, bræðið kókosolíuna og bætið á hana curry paste, karrý, túrmerik, hvítlauk og engifer, bætið lauknum út á og leyfið þessu að malla í 2-3 mín.  Passið að þetta brenni ekki á pönnunni, ef það er að fara að gerast bætið þá örlitlu vatni á pönnuna.
 3. Bætið tómatpassata út á pönnuna,
 4. Þegar linsubaunirnar eru tilbúnar hellið þið vatninu af þeim.
 5. Bætið linsubaunum út saman við krydd-lauk blönduna og blandið vel.
 6. Bætið kókosmjólkinni út í og berið fram með fersku kóríander, soðnum hýðishrísgrjónum eða kínóa og góðu salati.

Ath. það má auðvitað bæta eins miklu við af grænmeti eins og hver og einn óskar sér 🙂   Það er virkilega gott að skera niður gulrætur og setja þær þá um leið og laukurinn fer á pönnuna.

Það má líka alveg sleppa grjónunum og hafa bara nóg af grænmeti með 🙂

linsurettur

Linsubaunabolognese

Hérna kemur uppskrift sem er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér.  Ég hef nokkrum sinnum undan farin ár prufað svona linsu bolognese sósu en hef ekki alveg náð að heillast, hef prufað að nota rauðar linsur, fannst það ekki alveg vera að gera sig, hef prufað að setja sæta kartöflu, fannst það of væmið og ýmsar tilraunir gerðar áður en ég hætti bara að fara eftir sér uppskriftum og hugsaði með mér, ég bý bara til venjulega sósu en hef linsur í stað hakks, já stundum þurfa hugmyndirnar ekkert að vera flóknar.

IMG_6584Þetta er ódýr réttur, sérstaklega þar sem spelt spaghettíið var keypt á 100 kr pokann í lager útsölu Yggdrasils fyrir jól, sem betur fer hafði ég vit á því að kaupa slatta því börnin á bænum elska spaghetti.  Ég hugsa að kvöldverðurinn í gærkvöldi hafa kostað um 500 kr fyrir okkur 5 og það eru til tveir skammtar til að taka með í nesjahá þetta kallar maður að lifa ódýrt.

En skellum okkur í uppskriftina:

Hráefni:

 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 2-3 stórar gulrætur 
 • 1-2 sellerístönglar (má sleppa)
 • 1 1/2  dl brúnar linsur
 • 1-2 dl vatn (gæti þurft meira)
 • 1 tómatpassata úr Solluhillunni
 • 2 msk tómatpuré
 • 2 msk oregano eða timían (eða bara smá af hvoru um sig)
 • 2 msk paprika
 • salt og pipar
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • Væn lúka fersk steinselja

 Aðferð:

 1. Hitið pönnu og mýkið lauk í smá olíu, bætið við gulrótum og sellerí.
 2. Bætið linsunum, vatninu, tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í ca. 20-30 mín.
 3. Sjóðið spelt pasta samkvæmt leiðbeingum og berið fram með góðu salati. Það er gott að setja eitthvað yfir réttinn í lokinn t.d. smátt saxaðann vorlauk, ferska basilíku eða annað ferskt krydd og  rifin parmesan ost.

Best er að láta linsurnar liggja í bleyti yfir daginn eða yfir nótt því þá verða þær mun auðmeltanlegri. Ef þíð eruð tímabundin eða gleymið því þá eru 15-20 mín samt betri en ekkert.

Ef þið eruð hrædd um að það verði of mikið baunabragð af réttinum er líka hægt að sjóða baunirnar í sér potti, skola þær svo og hella þeim tilbúnum út í réttinn.

En af hverju að vera flækja málin, af hverju ekki bara að hafa hakksósu með spaghettíinu ?  Það spurði eitt barnanna minna mig í gær!  Jú, fyrsta lagi eru linsurnar mjög ódýrar en í öðru lagi þá eru þær bara brjálæðislega hollar og gaman að gera eitthvað sem öllum finnst gott þar sem þær eru í aðalhlutverki.

Hér kemur smá upprifjun af hverju það er góð hugmynd að borða linsur reglulega:

 • Þær eru góðar fyrir hjarta heilsuna.
 • Þær innihalda mikið magn af trefjum og hafa því m.a. góð áhrif á blóðsykurinn.
 • Þær innihalda mikið magn af fólati, magnesíum og járni (og því frábær kostur fyrir þær ófrísku).
 • Þær innihalda fáar hitaeiningar en gefa mikla fyllingu og henta því vel þeim sem eru að reyna að grenna sig.
 • Þær innihalda góð flókin kolvetni og gefa því góða orku.
 • Þær eru góð uppspretta próteins.

Verði ykkur að góðu 🙂

Dásamleg hnetusteik (eða hnetubuff)

Fyrir um það bil ári síðan birtist uppskrift í dagblaði af hnetusteik.  Mér leist afskaplega vel á þessa uppskrift, hún var einföld, innihélt fá hráefni og ekki rándýr.  Ég hef afskaplega gaman af því að finna vel heppnaða grænmetisrétti sem allri fjölskyldunni finnst góðir, ég prufa margfalt meira en ég set hingað á síðuna, af þeirri ástæðu að það fellur ekki allt í kramið.  Ég gerði þessa uppskrift nokkrum sinnum og hef gert hana á nokkra mismunandi vegu, semsagt geri hana ekki alltaf nákvæmlega eins.  Ég gerði hana síðast í vikunni og það sem heimilisfólkinu fannst maturinn góður 🙂   Það má bæði móta buff og baka í ofni (geri það oft) en einnig má líka setja hana í mót og baka eins og steik.

Meðlætið getur verið mjög mismunandi eftir tilefninu eða hvort það sé helgi eða virkur dagur, það má búa til sveppasósu, sætkartöflumús, eplasalat og apríkósu chutney.  Eða bara gott salat og mangósósu eins og ég gerði í vikunni þegar ég tók þessa mynd.

hnetubuff

Hráefni:

 • 5 dl soðin hýðishrísgrjón eða soðið kínóa
 • 1 laukur (rauðlaukur eða gulur), smátt saxaður
 • 1 sellerírót
 • 2-3 gulrætur (ekki í upphaflegu uppskriftinni en mjög gott)
 • 1,5 dl apríkósur (má líka setja döðlur), soðnar og maukaðar
 • 200 g heslihnetur, ristaðar og saxaðar
 • 1 tsk salt (himalayja, sjávarsalt eða maldon salt)
 • 1 msk paprika
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 2 msk grænmetiskraftur (notaði frá Himneskri hollustu, hann inniheldur t.d. steinseljurót og fleiri jurtir sem mér finnst passa sérstaklega vel)

Í upphaflegu uppskriftinni notar höfundurinn 1 chilli og 3-4 msk kreólakrydd frá Pottagöldrum.  Ég bara gleymi alltaf að kaupa þess kryddblöndu en í staðinn hef ég notað paprikuna og grænmetiskraftinn.

Aðferð:

 1. Sjóðið hýðishrísgrjón eða kínóa (best væri auðvitað að eiga þau tilbúin).
 2. Setjið sellerírótina og gulræturnar í matvinnsluvél og rífið niður.
 3. Hitið pönnu, setjið 1 msk af kókosolíu og hitið laukinn í rólegheitum, bætið svo sellerírótinni og gulrótunum út á og leyfið því að malla.
 4. Bætið apríkósunum/döðlunum út á ásamt kryddinu.
 5. Bætið hnetunum að lokum út í.
 6. Bætið hýðishrísgrjónunum saman við deigið.
 7. Mótið buff eða setjið í mót.
 8. Stráið sesamfræjum yfir.
 9. Bakið við 200°c buff í ca. 20 mín en steikina í ca. 40 mín

Buffin á leið í ofninn:

IMG_6664

Þessi uppskrift dugar í ca. 20 buff og eitt svona mót, semsagt 2x í matinn fyrir 5 manna fjölskyldu 🙂 IMG_6666

Buffin komin út úr ofninum: IMG_6667

Þetta er alls ekki nein flókin matseld en eini ókosturinn er töluvert uppvask en það jafnast út þar sem þetta dugar 2x í matinn 😉

Þar sem úrklippan úr blaðinu er glötuð get ég því miður ekki sagt ykkur hvaða snillingur gaf þessa uppskrift en kannski er einhver sem veit eða þekkir þessa uppskrift 🙂 )

Verði ykkur að góðu 🙂

Ljúffeng linsubaunasúpa

Þessi ljúffenga linsubaunasúpa fékk háa einkunn hjá öllum fjölskyldumeðlimum.  Hún er einföld, fljótleg, holl, ódýr og bragðgóð, er hægt að biðja um eitthvað meira 🙂

Linsubaunasúpa

Hráefni:

 • 2 dl rauðar linsubaunir (það er mælt með því að þær liggji í bleyti í nokkra klst)
 • 1 1/2 – 2 l vatn
 • 1-2 tsk kókosolía eða önnur góð olía
 • 1 laukur
 • 2 lárviðarlauf
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 3 gulrætur
 • 2 sellerý stilkar
 • 1 dós/flaska maukaðir tómatar
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 2 tsk ítalskt pastakrydd eða pizzakrydd (t.d. frá pottagöldrum)
 • 2 tsk oregano
 • 2 tsk paprika
 • salt og pipar
 • lúka af ferskri steinselju

Aðferð:

 1. Leggjið linsubaunir í bleyti um morgunin og skolið svo vel áður en þeim er blandað saman við súpuna.  Þær verða auðmeltari við þetta.
 2. Hitið pönnu, bræðið kókosolíuna og steikið laukinn við lágan hita.
 3. Bætið við smátt brytjuðum gulrótum, sellerý og hvítlauk.
 4. Bætið vatninu við ásamt linsunum, tómötum og öllu kryddi.
 5. Sjóðið í ca 25 mín og þegar þið takið pottinn af hellunni setjið þið steinseljuna út í og smakkið til hvort það þurfi meira krydd.

Linsubaunir eru alveg frábærlega hollar.  Ég spurði mig hversvegna ég elda ekki linsubaunir amk. einu sinni í viku þegar ég leit yfir næringarupplýsingarnar.

 • Þær hafa góð áhrif á kólesterólið.
 • Þær innihalda mikið magn af trefjum og hafa því góð áhrif á blóðsykurinn.
 • Þær innihalda mikið magn af fólati, magnesíum og járni (og því frábær kostur fyrir þær ófrísku).
 • Þær innihalda góð flókin kolvetni og gefa því góða orku ásamt því að auka járnbúskapinn.
 • Þær eru góð uppspretta próteins.

Og því spyr ég aftur sjálfa mig, “Af hverju hefurðu ekki oftar linsubaunir í matinn?”

Verði ykkur að góðu 🙂

Kínóaréttur frá Mexíkó

Tvö af uppáhaldshráefnunum mínum koma hér saman í ótrúlega bragðgóðum rétt.  Þessi réttur sem er svo einfaldur og góður getur bæði verið sem aðalréttur, meðlæti með t.d. kjúkling eða öðrum mexíkómat, það mætti nota hann sem fyllingu í tortillur, borða kalt daginn eftir og svo lengi mætti telja.

Ég sýð oft slatta af kínóa í byrjun vikunnar og reyni alltaf að eiga svartar baunir inni í frysti.  Svo í síðustu viku þegar ég tók þessa mynd tók aðeins um 10 mínútur að búa réttinn til.  Já það þarf ekki að vera tímafrekt að búa til hollan mat 🙂

IMG_3938

Hráefni:

 • 1 tsk olía
 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 dl af maísbaunum (má líka nota 1 gula papriku)
 • 2 dl svartar baunir
 • 1 (rúmlega) tsk cumin (ekki kúmen)
 • 1 tsk paprika
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 6 dl soðið kínóa
 • salt og pipar
 • 1 lúka af ferskum kóríander

Aðferð:

 1. Hitið olíu á pönnu og látið laukinn malla við lágan hita þangað til hann er orðin mjúkur. Bætið við hvítlauk og papriku (ef þið notið hana).
 2. Bætið við öllum kryddum, baunum og kínóa.
 3. Kryddið eftir smekk og skreytið með fersku kóríander.
 4. Tilbúið 🙂

Þessa uppskrift fann ég hér og ákvað að prufa þegar ég sá að 2487 manns höfðu skrifað ummæli og gefið 41/2 stjörnu 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂