Risarækjur með kryddmauki og mangósalat

Jæja, hér kemur uppskriftin af risarækjuréttinum sem vakti ekkert smá mikla athygli um daginn. Ég held að ég hafi aldrei fengið jafn mikil viðbrögð við neinni uppskrift fyrr né síðar. Þetta er ein af uppskriftunum á 3ja vikna Gott start námskeiðinu sem er í gangi akkúrat núna. Við bjuggum einmitt til þennan rétt í vikunni og féll hann í mjög góðan jarðveg. Kryddmaukið má að sjálfsögðu nota líka á fisk, kjúkling eða lambakjöt. Frystið afganginn af kryddmaukinu og notið síðar.

Grænt kryddmauk

3 cm (um það bil) engifer

  • 3 stk grænt chili
  • 3 cm (u.þ.b.) engifer
  • 3 þurrkaðar döðlur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sítróna (safinn)
  • væn lúka steinselja
  • 2 msk góð karrý kryddblanda (Hægt að nota indverska eða tælenska karrý blöndu og eins má líka nota mexíkó kryddblöndu)
  1. Setjið allt í litla matvinnsluvél og vinnið þangað til vel maukað.
  2. Setjið bökunarpappír í box og setjið maukið á pappírinn með matskeið. Passið að hafa gott pláss á milli þannig að þegar maukið frosnar þá er auðvelt að taka 1 msk í einu til að nota. Setjið bökunarpappír á milli laga.

Það má gjarnan margfalda þessa uppskrift og gera tvöfalda eða þrefalda þar sem maukið er geymt í frysti. Úr þessu mauki er gott að búa til milda karrýsósu með kókosmjólk sem hægt er að nota sér eða sem grunn fyrir til dæmis kjúklingarétt eða linsubaunarétt.

Risarækjur með kryddmauki og mangó salat

  • 1 msk avókadó ólía
  • 500 gr risarækjur
  • 2 msk kryddmaukið (hér á undan)
  • 1-2 hvítlauksrif (pressuð)
  1. Setjið rækjurnar ásamt 2 msk af kryddmauki í lokað ílát og leyfið því að marinerast í a.m.k. 1 klst.
  2. Hitið olíu á pönnu og byrjið á því að setja hvítlaukin á pönnuna. Steikið svo rækjurnar í hvítlauksolíunni þangað til þær eru eldaðar í gegn, það tekur um það bil 4-6 mín.

Ef rækjurnar eru frosnar, látið þá buna á þær með köldu vatni, þær afþýðast fljótt þannig.

Mangósalat

(magn af hverju hráefni fer eftir smekk og fjölda)

  • klettasalat
  • mangó í litlum bitum
  • rauð paprika í litlum bitum
  • vorlaukur smátt saxaður
  • kóríander (þeir sem hata kóríander sleppa honum) 

Ég hvet ykkur til að prófa þennan rétt næst þegar sólin skín.

Verði ykkur að góðu.

Einfaldur ítalskur fiskréttur öðru nafni “Góði fiskurinn”

Þessi fiskréttur gengur undir nafninu “góði fiskurinn” hjá börnunum á bænum.   Það segir held ég allt sem segja þarf.  Hann er einfaldur, fljótlegur og bragðgóður og þar af leiðandi snilldar kvöldverður á virkum degi.

Yfirleitt finnst mér þetta einfalda best.  Það er nákvæmlega þannig með þennan rétt.


Þessi uppskrift ætti að passa fyrir um það bil 5 manns.

 Hráefni: 

  • 5-700 g þorskur í bitum
  • 2-3 msk Ólífuolía + smá sítrónusafi +salt + pipar
  • ½ askja kirsuberjatómatar
  • 3 – 4 msk rautt eða grænt pestó (eftir því hvað ykkur finnst betra og er til í skápunum)
  • 3 – 4 msk parmesan ostur eða annar ostur að eigin vali
  • Skreytt með ferskri basilíku ef hún er til …

 

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 180° (blástur)
  2. Skerið þorskinn í minni bita og raðið í eldfast mót.
  3. Kreystið smá sítrónusafa yfir fiskinn.
  4. Pennslið hann svo með ólífuolíu og kryddið með salt og pipar.
  5. Dreyfið pestóinu yfir fiskinn.
  6. Skerið niður kirsuberjatómata og setjið yfir.
  7. Stráið parmesan osti yfir
  8. Bakið í 20 mín eða þangað til fiskurinn er orðin eldaður í gegn (fer eftir þykkt).
  9. Stráið basiliku yfir og berið fram.
  10. Það er mjög gott að bera fram með litríku salati og kínóa.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Og að lokum ef þið eruð alltaf að leita eftir einföldum góðum uppskriftum og viljið gjarnan nota meira grænmeti mæli ég með námskeiðinu sem verður á miðvikudaginn næsta kl. 17.30

Allt um það hér: https://www.facebook.com/events/480639599442155/