Langar þig að gerast Heilsumarkþjálfi ?

Í vikunni hélt ég námskeið.  Ég bauð fólki, það mætti, ég kenndi því ýmislegt sem það kunni ekki áður eða fékk hvatningu til að prufa eitthvað nýtt og það borgaði mér fyrir.  Mér finnst það næstum því fjarstæðukennt.  Ég hefði allavegna ekki trúað því fyrir ári síðan að eftir ár, ætti ég eftir að hafa námskeið, og ekki bara eitt heldur eiga þau eftir að verða fleiri, því það er næstum því orðið fullt á því næsta.  Eða hvað þá að ég ætti eftir að flytja fyrirlestur, (sem ég geri í næstu viku).  Eða að ég væri komin með matarblogg sem fengi 1000-2000 heimsóknir á hverjum degi.  Og svo margt spennandi framundan.

Fyrir ári síðan fannst mér ég vera alveg stopp, mér fannst ekkert vera að ganga upp.  Þrátt fyrir það að ég væri dugleg í hollustunni náði ég ekki af mér þeim kg sem mig langaði.  Barnið mitt var greiningu hjá Þroska og hegðunarstöð út af hegðunarerfiðleikum sem voru að fara með geðheilsu okkar foreldrana og heimilisástandið almennt.  Ég var búin að vera atvinnulaus eftir að fæðingarorlofi yngsta barnsins lauk og mig langaði bara alls ekki til að fara að vinna allan daginn á skrifstofu (eins og ég var búin að gera síðustu 10 árin þar á undan) heldur langaði að gera eitthvað allt annað.

Ég var búin að skoða allskonar nám t.d. þroskaþjálfun, iðjuþjálfun eða næringarfræði.  Þegar ég sá auglýsingu frá IIN  fannst mér þetta aðeins of amerískt fyrir mig en samt var eitthvað vakti hjá mér forvitni og áhuga.   Núna ári síðar, er ég ekkert smá ánægð að hafa drifið mig af stað, hoppað í djúpu laugina og farið í skólann.

IMG_4360

Kannski er einhver þarna úti sem er í sömu sporum og ég var í, langar að læra eitthvað nýtt, með óbilandi áhuga á heilsu og hollustu, jafnvel reynslu af því að takast á við heilsufarsvandamál með betra mataræði og því með góða reynslu til að hjálpa öðrum.  Eða ertu kannski nú þegar heilsuráðgjafi sem vinnur launalaust ?

IIN eða Institute for Integrative nutrition er engin smá skóli heldur er hann stærsti næringarskóli í heiminum og búin að útskrifa um 20.000 nemendur síðan hann tók til starfa fyrir 20 árum síðan.

Margir hafa farið í námið aðeins til að læra að sjá vel um sig og sína fjölskyldu.  Því það  hefur þótt merkilegt hversu nemendur skólans taka miklum breytingum meðan á náminu stendur og eftir það.  Það er svo mikil áhersla lögð á að nemendur noti tímann og prufi það sem er verið að kenna að margir taka upp allskonar nýja siði á námsárinu.   Bara sem dæmi,  ég er farin að drekka miklu minna kaffi, miklu meira af tei, ég hef aldrei notað eins mikið grænkál og síðan ég byrjaði,  er farin að nota miklu meira af baunum, miklu meira af grænmeti og ávöxtum og minna af kjöti.  Farin að fá mér volgt sítrónuvatn á hverjum  morgni, farin að búa mér til minn eigin kefir (ekki spyrja, ég vissi heldur ekki hvað það var fyrr en fyrir nokkrum mánuðum síðan), farin að borða miku meira hrátt grænmeti, farin að gera grænmetisdjúsa, stunda reglulega líkamsrækt osv.fr.  Þetta var eitt af því sem heillaði mig því ég var farin að halda það að ég myndi aldrei grennast því kg hreyfðust ekki þrátt fyrir að ég væri með mjög hollt mataræði á heimilinu, en síðan ég skráði mig í námið hafa 8 kg farið.  Þetta er kannski ekki beinn hluti af námsefninu en námsefnið hefur þessi áhrif 🙂

3mis

Fyrsta myndin fékk að fljóta með en hún er tekin fyrir 4 árum þegar ég ákvað fyrst að breyta um takt í mataræðinu, miðju myndin er tekin fyrir ári um það leyti sem ég skráði mig í námið, en þriðja myndin í síðstu viku, eftir fyrsta námskeiðið.

Bakgrunnur þeirra sem fara í þetta nám er jafn ólíkur og fjöldi nemenda.  Margir eru að bæta við sig, eru nú þegar einkaþjálfarar, sálfræðingar, blaðamenn, yogakennarar, kokkar, eða eitthvað annað.  Aðrir hafa náð mjög góðum árangri í að bæta heilsuna sína og langar að hjálpa öðrum.  Sumir eru grænmetisætur, aðrir lifa nær eingöngu á hráfæði og enn aðrir á paleo.

Það er heilmikill hluti af náminu um  markþjálfun eða „coaching“.  Það er mjög skemmtilegt og hjálpar t.d.  til í daglega lífinu við að tala minna og hlusta betur, eitthvað sem ég þarf að æfa á hverjum degi.  Stundum finnst mér eins og ef einhver þyrfti að fá sér markþjálfa væri það ég, svona til að skipuleggja mig og setja mér markmið, svo það er þá ágætis hugmynd að verða bara einn slíkur 😉

Það að vera í fjarnámi er ótrúlega þægilegt.  Ég hlusta mikið á fyrirlestrana á kvöldin á meðan ég geng frá í eldhúsinu, undirbý næsta dag, brýt saman þvott hengi þvott upp á snúru og stússast.  Svo er hægt að fara yfir glósurnar og við annað tækifæri  og rifja upp. Það þarf ekki að fara neitt út á meðan á náminu stendur sem má auðvitað deila um hvort sé kostur eða galli 😉

Það er ekki nóg að kennslan spanni breytt svið og fyrirlesararnir eru margir heimsfrægir læknar og prófessorar heldur er mikil áhersla lögð á að nemendur vinni markaðsplan, fái ókeypis heimasíðu (þeir sem vilja), fái frí nafnspjöld og fáum áskoranir sem færa okkur nær takmarkinu.  Þannig að þegar námið klárast séum við ekki bara búin að byrgja okkur upp af þekkingu en höfum engan til að deila henni með heldur er markaðsvinnan vel á veg komin.

Það er mjög gaman að hafa kynnst fullt af fólki bæði hér heima og erlendis á þessu ári.  Við það opnast flóðgáttir af upplýsingum og það getur nýst virkilega vel.

Kannski hef vakið áhuga hjá einhverjum og ef einhver er með spurningar hef ég bara ánægju af því að  svara þeim.  Síðasta ár var eitt það skemmtilegasta hingað til og spurning hvort næsta ár verði skemmtilegasta árið þitt hingað til ?

Hér er heimasíðan: http://www.integrativenutrition.com/

Published by

2 thoughts on “Langar þig að gerast Heilsumarkþjálfi ?

  1. Þetta er ekkert smá spennandi og gaman að lesa um þetta.

    Hvernig hefurðu fundið eða búið til kefir? Ég þekki til þessa frá BNA en ekki fundið þetta hérna. Pantarðu þá bara kefir fræ af netinu?

    1. Sæl, já þetta er pottþétt það allra skemmtilegast sem ég hef tekið mér fyrir hendur 🙂
      Ég hef fengið afleggjara af Kefir frá öðrum heilsuspírum sem eiga svoleiðis en í vor var ekkert slíkt í boði svo ég pantaði frá Englandi, http://happykombucha.co.uk/collections/live-kefir
      Grjónin komu þurrkuð og ekkert mál að byrja, elska þennan drykk, þarf klárlega að fara að blogga um uppáhaldsdrykkinn 🙂
      Takk fyrir að fylgjast með síðunni,
      Kær kveðja,
      Oddrún

Leave a Reply