Smákökurnar sem fá aldrei samviskubit

Fantagóðar smákökur sem eru sykurlausar, glúteinlausar og mjólkurlausar.  Yfirleitt eru smákökur fullar af smjöri, sykri og súkkulaði…. svo maður spyr sig hvort hinar geti verið góðar.  En ójá, alveg þrælgóðar.  Upphaflega ætlaði ég að gera köku en deigið var orðið svo rosalega þykkt að ég ákvað að gera það bara ennþá þéttara smella því bara í litlar kökur.  Þær eru ekki stökkar eins og smjörkökurnar heldur frekar mjúkar og passa alveg sérstaklega vel með kaffibolla dagsins 😉  Krakkarnir voru alveg vitlausir í þessar kökur svo ég bakaði þær daginn eftir líka.  Frábært hvernig góðar uppgvötanir verða stundum til alveg óvart 🙂

Smákökur

Hráefni:

  • 3 egg
  • 2 dl malaðar möndlur
  • 1 og 1/4 dl kókoshveiti
  • 2 dl döðlur, smátt saxaðar
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 msk hunang / hlynsýróp / agavesýróp
  • 20-25 dropar stevia
  • 4 msk kakósmjör (má líka setja bara meiri kókosolíu)
  • 3 msk kókosolía

Aðferð:

  1. Bræðið kakósmjör og kókosolíu við lágan hita.
  2. Hrærið saman með písk egg, vanilludropa, steviu og hunang.
  3. Blandið kókosolíunni og kakósmjörinu saman við eggjablönduna.
  4. Blandið saman möndlum og kókoshveiti og hrærið saman við.
  5. Saxið döðlurnar smátt og blandið saman við.
  6. Mótið litlar kökur og notið gaffal til að fletja þær örlítið út.
  7. Bakið við 180°c í ca 13 mín.

Uppskriftin gefur ca. 30 kökur

Published by

2 thoughts on “Smákökurnar sem fá aldrei samviskubit

  1. Mér líst mjög vel á þessa uppskrift og langar að prófa hana en ég skil ekki málin fyrir kókoshveitið. Hvað þýðir 11/4 dl?

    1. Endilega að prufa þessar samviskulausu smákökur 🙂

      Þetta er bara 1 og 1/4 dl kókoshveiti, þarf að smella einu “og” þarna inn til að forðast misskiling 🙂

      Takk fyrir að fylgjast með,
      Kveðja,
      Oddrún

Leave a Reply