Ofurnammi með orkukurli

Hér kemur uppskrift af nammi sem átti nú að koma inn fyrir helgina, en það er allt í lagi því þetta nammi er bara fínt á mánudögum líka og jafnvel bara á þriðjudögum líka, og miðvikudögum og….   Það er stútfullt af vítamínum og næringu en auðvitað er þetta NAMMI en ekki morgunverður eða hádegismatur 😉

Grunnurinn er hampnammið holla en ég gerði örlitlar breytingar, skipti hnetusmjöri og kókosolíu út fyrir kakósmjör og bætti smá ofurfæðukurli ofan á.  Ég bjó þetta til þegar ég var með tvö veik börn heima og fór svo með eitt box til vinkonu sem var heima með 3 veik börn svo það er sérstaklega tileinkað öllum þreyttum mömmum sem eru heima með veik börn… en auðvitað mega hinir fá sér líka 🙂

ofurnammi

Hráefni:

 • 1 bolli döðlur
 • 1/2 bolli hampfræ
 • 1/2 bollli sesamfræ
 • 1/2 bolli graskersfræ
 • 1 bolli kókosmjöl
 • 4-5 msk kakó
 • 6 msk brætt kakósmjör
 • 1/2 tsk hreint vanilluduft
 • 1/2 tsk salt

(1 bolli = 2,3 dl)

Ofan á:

 • mórber
 • goji ber
 • kakónibbur

(uþb væn lúka af hverju)

Aðferð:

 1. Leggjið döðlur í bleyti.  Ef þið notið mjúkar, ferskar, er nóg ca. 5-10 mín, en ef þið eruð með þurrkaðar þurfið þið helst að leggja þær í sjóðandi vatn í 10-15 mín.
 2. Bræðið kakósmjörið við mjög lágan hita, eða yfir vatnsbaði.
 3. Setjið fræin í matvinnsluvél og malið, bætið kókosmjöli, kakói, salti og vanillu út í.
 4. Bætið döðlunum út í einni í einu og að lokum kakósmjörinu.
 5. Fletjið deigið út á bökunarppír á bökunarplötu eða setjið í sílíkonmót og hafið frekar þunnt.
 6. Saxið það sem á að fara ofan á, sáldrið yfir og þrýstið því aðeins ofan í deigið.
 7. Kælið (helst í frysti) og best að geyma ískalt.

IMG_7257

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

Leave a Reply