Þessa snúða baka ég oft um helgar eða eftir skóla/leikskóla á föstudögum til að hafa það súper kósý. Þeir eru tilvaldir í nesti og hafa mjög oft fengið að fljóta með í húsdýragarðinn. Það er ekkert ger notað sem gerir baksturinn mun fljótlegri. Það sem ég geri oft er að rúlla deiginu í lengjur og baka stangir. Og stelpurnar mínar elska að rúlla degið í lengjur og búa til stafi sem við bökum svo. Þessir snúðar eru ekki eins mjúkir eins og gersnúðarnir sem eru búnir að lyfta sér heilan helling og yfirleitt úr hvítu hveiti og ekki eins harðir eins og gömlu ömmusnúðarnir, svona einhverstaðar mitt á milli. Og þegar helmingurinn er gróft spelt mætti kalla þessa bara snúðabrauð 🙂
Hráefni:
- 6 dl fínt spelt
- 6 dl gróft spelt
- 1 – 1,5 dl pálmasykur
- 2 msk vínsteinslyftiduft
- 2 msk kanill
- 1 tsk himalayjasalt
- 2 tsk vanilludropar
- 1 tsk kardimommur
- 8 msk (0,5 dl) góð olía eða íslenskt smjör
- 3 dl ab-mjólk eða rísmjólk
Öllu blandað saman og hnoðað í hrærivél í smástund.
Annaðhvort er deiginu rúllað í lengjur, penslaðar með smá olíu/smjöri og kanilsykri stráð yfir. Eða deigið flatt út, penslað með smjöri/olíu, kanilsykri stráð yfir og búnir til snúðar.
Snúðarnir bakaðir í 15 mín v/200°
Lengjur/stafir bakaðir í 9-12 mín v/200°
Þar sem þessir snúðar eru ekki fullir af rotvarnarefnum þá endast þeir ekki svo lengi mjúkir svo ég set þá yfirleitt í fyrsti og kippi svo út eftir þörfum.
Stangirnar fyrir bakstur
Æðislegt í nestisboxið 🙂
Published by