Hvað á til bragðs að taka þegar klukkan er orðin fjögur á sunnudegi, sykurþörfin alveg að fara með mann og eitthvað lítið til í kotinu? Síðasta sunnudag fór eiginmaðurinn í Bónus til að kaupa kaffi og bauðst til þess að koma við í bakaríinu en ég sannfærði hann (að lokum) um það að ég væri jafnfljót að búa til eitthvað gott (og hollt) og hann að fara út í búð. Útkoman varð súkkulaðikaka með mangó/hindberja kremi. Þetta var eiginlega samsuða úr 2 áttum með eigin útfærslu og já tók ekki nema uþb. 15 mín. Þetta er bara hrein og klár hollusta og gleði fyrir kroppinn. Hún sló í gegn hjá barnaskaranum og ég get ekki beðið eftir næsta sunnudegi til að gera hana aftur 🙂
Botninn:
- ½ bolli valhnetur
- ½ bolli cashewhnetur
- ½ bolli hreint kakó
- 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í smástund svo verði mjúkar)
- Smá salt (himalayja eða sjávarsalt)
- Smá vanilla
- 1-2 tsk kókosolía (mjúk)
- 1 msk hunang
Aðferð:
- Hneturnar settar í matvinnsluvél og malaðar, kakóinu bætt við og svo einni og einni döðlu í einu.
- Að lokum kókosolíu og hunangi, ásamt vanillu og salti.
- Sett í mót, klæddu með bökunarpappír og þrýst niður.
Kremið:
- 1/2 þroskað og safaríkt mango
- 0,75 dl frosin hindber
- 1 msk hunang
- Smá vanilla
Sett í blandara eða mini matreiðsluvélina og maukað saman. Smurt yfir kökuna.
Ofan á:
- 0,75 dl frosin hindber
- ½ mango, saxað niður
- 25 gr 70 % súkkulaði saxað
- Handfylli af kókosflögum
Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að þessi sæla bragðast sérstaklega vel með smá rjómaslettu.
[…] er sami botninn og ég gerði þegar ég gerði Súkkulaðisælu með mangó-og hindberjum en í þetta sinn átti ég ekki mangó en viti menn ég átti einmitt fallegt og þroskað avacado […]