Hádegissalatið

Ein sú besta ráðlegging sem ég fékk á sínum tíma þegar ég var að breyta um lífstíl var sú að fá mér  salat í hádegismat.  Breyta hugsuninni úr hádegismatur = brauð í hádegismatur = salat.  Málið var að ég fékk mér ALLTAF brauð í hádegismat, ýmist ristað brauð, brauð í grillinu, brauð í ofni, tortillu í grillinu, pítubrauð osv.fr. Þetta var smá átak en að lokum fór það að síast inn og ég þurfti ekki að minna mig á það lengur.  Það eru liðin rúm 3 ár síðan ég fékk þessa góðu ráðleggingu og hún stendur enn fyrir sínu.

Ég viðurkenni það fúslega að ég freistast stundum í ristaða brauðið og ef ég fæ gesti býð ég oft upp á nýtt brauð í hádegismat.  Ég á nefnilega yfirleitt til of gott brauð í frystinum (speltbrauðið úr Kökulist) sem ég smyr í nesti fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og það er heilmikil freisting að vita af því til.

Hér koma nokkrar hugmyndir sem hafa verið gagnlegar fyrir mig.

  1. Þegar ég geri salat með kvöldmatnum geri ég stóran skammt þannig að það eina sem þarf að gera í hádeginu er að opna boxið og hella á disk og þá er grunnurinn komin.
  2. Þegar ég bý til salatsósu bý ég til í nokkuð stórri krukku þannig að hún endist alla vikuna.
  3. Til þess að verða ekki svöng 10 mín seinna þarf sallatið að vera nokkkuð matarmikið.

Salat í hádegismat þýðir ekki bara kál, gúrka og tómatar.

  • Það má bæta við það soðnum hýðishrísgrjónum, soðnu Kínóa eða jafnvel heilhveiti eða spelt pasta.
  • Strá hnetum, möndlum eða fræjum yfir.
  • Bæta við próteinum, t.d. túnfisk, soðnum eggjum, baunum eða kjúkling.
  • Góð fita er nauðsynleg, t.d. avacado, Ólífuolía  (Extra virgin/græna)
  • Til að gera salatið enn girnilega má setja eitthvað gotterí yfir: t.d. þurrkuð trönuber, saxaðar gráfíkjur, þurrkaðar apríkósur, rúsínur, kókosflögur, raspa smá parmesan ost eða smá fetaost

Hádegissalatið

Þegar ég tók þessa mynd, langaði mig bara alls ekki í salat, þangað til ég var búin að gera diskinn tilbúin, þá var ég sko alveg til í það 🙂  Afgangar af 3 mismunandi salötum á disk, Fetaostur og Kasjúhnétum stráð  yfir og að lokum geggjuð sinnepssósa yfir allt saman. Matreiðsla tók ca 5 mín.

hádegissalatið

Salatsósan á þessu heimili er mjög mismunandi, en 2 tilbrigði eru algengust.  Ég hef aldrei getað skrifað niður nákvæm hlutföll þar sem ég bæti alltaf við smá meira af þessu eða hinu og svo aftur og aftur þangað til rétta bragðið er fundið.  Svo þetta eru hugmyndir 🙂

a)
græn ólífuolía
balsamedik
sítrónusafi
smá herbamare

b)
lífræn grísk jógúrt
græn ólífuolía
smá Sollumajones
sinnep (hreint)
hunang
sítrónusafi
smá Herbamare

 

Það er reyndar þannig að það er nú frekar sumarlegt að fá sér salat og mér finnst það tilheyra á vorin og fram á haust.  Yfir svartasta skammdegið og í mesta kuldanum breytist hádegissalatið yfirleitt í heita súpu eða upphitaðan grænmetisrétt en það er um að gera að njóta þess að sá tími er ekki komin enn.

Eigið þið góðan dag 🙂

 

 

Published by

Leave a Reply