Karamellurís (mjólkurlaus og glúteinlaus)

Jæja, þá er hún mætt á svæðið,  hollari útgáfan af Karmellurísinu , glúteinlaus og mjólkurlaus.  Þessi útgáfa er töluvert hollari þar sem ég er búin að skipta Rice crispies (sem hefur nú ekki verið talið nein sérstök hollustufæða) út fyrir möndlur, semsamfræ og sollu- kornflakes.

IMG_2950

Hráefni:

 • 80 gr kókosolía
 • 40 gr hrásykur
 • 170 gr döðlur
 • 2 dl Sollu – Kornflakes
 • 1 dl möndlur
 • 1 dl sesamfræ
 • smá salt
 • smá vanilla

Aðferð:

Leggjið döðlur í bleyti í smástund og maukið svo með töfrasprota, notið eins lítið vatn og þið komist upp með. Hrærið saman í potti: Kókosolíu, hrásykri og maukuðum döðlum. Bætið við salti og vanillu og  um leið og allt er búið að samlagast (notið MJÖG lágan hita), hrærið þið gúmmilaðinu út í og blandið öllu vel saman.  Setjið í mót (klæddu bökunarpappír) og inn í frysti í smástund.

karmellurís

Bræðið svo 100 gr af súkkulaði ásamt 1 msk af kókosolíu (svo það brotni ekki of mikið þegar það er skorið) og setjið yfir.

Skerið svo niður í bita, það er gott að hafa bökunarpappír á milli laga og geymið nammið í ísskáp.

IMG_2948

Það er bæði hægt að skera í aflanga stóra bita eins og nammibar, stóra ferkantaða eða bara litla, eða jafnvel pínu litla, eftir hver er að fara að borða.

Þetta er hrikalega gott og það kom mér á óvart hvað var mikið karmellubragð, miðað við að vera laust við smjör og rjóma.  Ég var að flýta mér alveg skelfilega mikið svo möndlurnar eru frekar mikið grófsaxaðar, sýnist nú bara nokkrar vera heilar ennþá af myndunum að dæma, en það kom ekki að sök og mér fannst það bara gott að hafa svona crunchy 🙂

karmellurís

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Published by

9 thoughts on “Karamellurís (mjólkurlaus og glúteinlaus)

 1. Hæ takk fyrir frábæra síðu! Þetta hjálpar þvílíkt í nýjum og mjög framandi aðstæðum.
  Þú talar um að nota vanillu hér, hvers konar vanillu ertu að meina, duft…?

  Kveðja,
  Katrín

  1. Sæl og takk 🙂
   Já þetta er sennilega ekki alveg nógu skýrt. Það má bæði nota vanilludropa eða vanilluduft. Magnið er misjafnt eftir því hvort er notað. Ef þú ert með vanilludropa seturðu ca. 1 tsk en ef þú ert með duftið þá notaðrðu bara örlítið. Ég mæli með vanilludufti frá Rapunzel sem fæst í flestum heilsubúðum, Fjarðarkaup og Hagkaup. Það er alveg hrein vanilla án viðbætt sykurs. Hér geturðu séð hvernig hún lítur út: http://www.alles-vegetarisch.de/LEBENSMITTEL-Gewuerze—Wuerzmittel-Rapunzel-BOURBON-VANILLE-gemahlen–15g-,art-3919 glasið kostar eitthvað um 8-900 kr en það þarf svo lítið í einu að glasið endist og endist. Það borgar sig nefnilega að lesa utan á vanilludropa og vanillusykur. Það er líka gott að leita eftir hvort það sé vanilla eða vanillin sem er notað. T.d. er vanillin í flestum ódýrum dropum, en vanillin er kemískt tilbúið gerviefni á meðan vanilla er unnið úr vanillu-plöntunni 🙂

   Gangi þér vel og takk fyrir að fylgjast með 🙂
   Kær kveðja,
   Oddrún

   1. Þúsund þakkir Oddrún 🙂
    Það var mikil lukka að detta inn á þessa síðu hjá þér (þetta óx mér gríðarlega í augum fyrst). Virðist svo auðvelt hjá þér, allavega núna, og þá fyllist maður jákvæðni og sér að þetta er alveg hægt 🙂
    Takk kærlega.
    Katrín Brynja

   2. Æji hvað er nú skemmtilegt að sjá svona falleg skilaboð á mánudagsmorgni 🙂
    Það yljar mér um hjartaræturnar 🙂
    Kær kveðja,
    Oddrún

 2. Sæl, þetta er mjög girnilegt 🙂 Hvernig súkkulaði notar þú til að bræða yfir? Ég sé það ekki í uppskriftinni en ég er nú svo fljótfær að það er ekki alveg að marka 🙂

  1. Sæl,
   Ég myndi bara nota 70 % súkkulaði en svo er jú líka hægt að búa til sitt eigið súkkulaði.
   Hér er ein hugmynd af heimagerðu súkkulaði:
   5 msk brædd Kókosolía
   5 msk brætt Kakósmjör (má sleppa og nota kókosolíu í staðinn)
   5 msk Kakó
   1,5 – 2 msk Hlynsýróp
   5-6 dropar Stevía
   Vanilluduft á hnífsoddi
   Salt á hnífsoddi

   Það er virkilega gaman þegar gamlar uppskriftir taka flugið aftur en þessi er einmitt síðan 2012 😉

   Kær kveðja,
   Oddrún

Leave a Reply