Bananamúffur með súkkulaðibitum

Þetta er muffinsuppskrift númer 1 á þessu heimili.  Ég veit ekki hversu oft ég hef bakað þessar kökur, ætli skiptin gætu ekki verið orðin 100.  Í hvert skipti sem er krakkapartý, mjög oft fyrir ferðalög og sumarbústaðarferðir.  Og svo skelli ég oft í uppskrift þegar ég fæ ódýra banana og á í frysti. Finnst æðislegt að geta gripið til ef stelpurnar fá gesti eftir skóla og leikskóla og manninum mínum finnst æði að geta gripið með sér nokkrar í nesti í vinnuna.

IMG_2925

Hráefni:

 • 4 bananar (vel þroskaðir)
 • 2 egg
 • 85 g hrásykur
 • 50 ml olía  (ég nota yfirleitt vínberjakjarnaolíu eða lífræna sólblómaolíu)
 • 250 gr spelt (fínt og gróft til helminga)
 • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/4 tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar
 •  75 g dökkt súkkulaði (í bitum)

Aðferð:

 1. Bananarnir skornir í bita og stappaðir eða settir í matvinnsluvél og maukaðir.
 2. Olíu, sykri, eggjum og vanilludropum bætt hrært saman við.
 3. Spelti, lyftidufti og salti bætt rólega saman við.
 4. Blandið súkkulaðinu rólega saman við.
 5. Ef deigið er of þykkt má setja nokkra dropa af mjólk saman við.
 6. Setjið í muffinsform og bakið við 200°C í 20 mín.

IMG_2927

Ég keypti um daginn voða sæt lítil muffinsform í Sostrenes grene, voru alls ekki dýr og þau eru svo dúlluleg.  Hér að neðan sést hversu lítil þau eru, kökurnar til hægri eru venjuleg stærð.  Þetta vakti mikla lukku hjá yngstu kynslóðinni enda miklu skemmtilegra að geta fengið sér 2 í stað þess að fá 1, eða 4 í staðinn fyrir 2  🙂

IMG_2930

Þessi uppskrift kemur úr bókinni hennar Nönnu, þessari stóru gulu og rauðu (sem ég nota bene elska).  Nema ég er búin að breyta uppskriftinni smá,  ég er búin að minnka olíuna um helming (aðallega til að spara því ég er með fína olíu og tími bara litlu í einu) og minnka sykurinn um helming.  Og nota spelti í stað hveitis.  Það þýðir að kökurnar verða þéttari og matarmeiri en ekki eins léttar og fluffy.  Það hefur þó ekki komið að sök og alltaf sívinsælar.  Þær endast hinsvegar ekki eins lengi mjúkar svo best er að geyma þær í frysti og taka út eftir þörfum.

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Published by

4 thoughts on “Bananamúffur með súkkulaðibitum

 1. Þessar múffur eru mjög góðar, ég reyndar tímdi ekki að setja 50 gr. af olíu, notaði aðeins 40 og það virðist ekki koma að sök.
  Svo átti ég ekki súkkulaði en setti 1 msk. af Sollu kakói í staðinn, bjargaði mér þannig en án efa betri með súkkulaðibitum.
  Takk fyrir góða uppskrift 🙂

 2. Hæhæ
  Sá að þú varst með æðislegt karmellukrem á þessi yndi finn það ekki erum að baka þessar fyrir afmæli á morgunog bráð vantar uppskrift af kreminu værir þú til í að deila. Takk takk

  1. Sæl, setti það á facebook en var ekki búin að setja það hér inn, en hér er uppskriftin 🙂

   Jöfn hlutföll af hlynsýrópi, smjöri og rjóma
   örlítið salt og hrein vanilla

   Allt látið malla það lengi að karamellan sé orðin svolítið stíf, það þarf töluverðan tíma (örugglega 15 mín) á lágum hita bara og muna að hræra allan tímann eða svona svo til 🙂

   Eftir því sem karamellan er stífari þeim betur helst hún á kökunum, ef maður hellir henni of snemma á kökurnar áður en hún verður nógu stíf er hætta á því að kremið leki bara út um allt 🙂

   Mér finnst þetta voða góð uppskrift og hef notað sem bæði íssósu, sósu á vöfflur, krem á kökur, fyllingu inn í súkkulaði o.s.frv. bara stjórna þykktinni eftir því hversu lengi karamellan fær að malla.

   Gangi ykkur vel 🙂

Leave a Reply to kolfinna sigtryggsdóttirCancel reply