Súkkulaði með karamellufyllingu

Um síðustu helgi var ég í tilraunum að búa til súkkulaði með karamellufyllingu.  Uppskriftina sá ég á netinu og fannst hún svo girnileg að ég bara VARÐ að prufa.   Mér fannst þetta ekkert sérlega leiðinleg tilraunastarfsemi og fjölskyldunni ekki heldur 🙂

Mér finnst alveg magnað að það skuli vera hægt að gera karamellu sem er mjólkurlaus en hinsvegar er ekki hægt að neita því að karamellan sem búin var til úr rjóma og smjöri hafði vinninginn hvað bragðið varðar.

karamellusúkkulaði

Hráefni:

Súkkulaði: Annaðhvort búa til sitt eigið súkkulaði og miða við 6 msk af hverju hráefni, eða bræða  200 gr af 70 % súkkulaði (eða 56 %).

Mjólkurlaus karamella:

  • 1 dl kókosolía
  • 1 dl hlynsýróp (má líka setja 0,5 dl sýróp og 10 dropa af Stevíu)
  • 1 dl kókosmjólk (þykk, nota litlu bleiku en hún inniheldur ca. 80 % kókoshnetu)
  • 0,5 tsk af vanillukornum ( t.d. frá Rapunzel) eða 1 tsk vanilludropar
  • örlítið salt

Karamella:

  • 0,5 dl smjör
  • 0,5 dl hlynsýróp
  • 10 dropar Stevía (ég notaði Stevíu með kókosbragði frá Via Health)
  • 1 dl rjómi
  • 0,5 tsk af vanillukornum (rapunzel) eða 1 tsk vanilludropar
  • örlítið salt

Millilag: 1 dl af gróftsöxuðum möndlum eða öðrum hnetum að eigin vali (mjög gott að hafa pecan hnetur)

karamellusúkkulaði

Aðferð:

Búið til karamelluna: Setjið allt í pott og leyfið að malla í þónokkurn tíma (10-15 mín).   Passið að hræra vel í allan tíma svo karamellan brenni ekki við.  Hún er tilbúin þegar hún er orðin vel þykk.

Bræðið súkkulaðið eða búið til súkkulaði í skál, setjið lag af súkkulaði í sílíkon kökumót eða annað mót.  Þar næst setjið þið söxuðu möndlurnar eða hneturnar og setið formið inn í frysti.  Takið út setjið karamelluna yfir og aftur inn í frysti.  Að lokum er hellt súkkulaði yfir og sett aftur inn í frysti.  Það þarf ekki mikinn tíma á milli laga, kannski svona 10 mín, en fer auðvitað svolítið eftir frystinum.

Takið út úr frysti, skerið í bita og njótið.  Hrikalega gott fyrir bíókvöldið eða með kaffibollanum á sunnudagsmorgun 😉

Það er ágætt að leyfa súkkulaðinu að bíða í smástund (örfáar mínútur duga) svo það brotni ekki allt þegar það er skorið.

IMG_6364

Góða helgi 🙂

Published by

Leave a Reply