Þá er Eurovision dagurinn runninn upp bjartur og fagur. Ég játa það hér með að ég er Eurovision nörd og er bara stolt af því 🙂 Mér finnst bara alltaf svo mikil stemming í kringum keppnina og þótt lögin sé alveg mis skemmtileg er þetta bara gaman. Gott tilefni til að hitta vini og hafa gaman saman, dilla sér við góðu danslögin og hlæja af hallærislegu lögunum, nema auðvitað í ár, þá verða auðvitað engir fordómar 😉
Ég er ekki búin að mynda mér skoðun á uppáhaldslagi en finnst bæði sænska og hollenska lagið gott. Mitt lang mesta uppáhalds Eurovision lag ever er að sjálfsögðu Ruslana með Wild dances, það er bara alveg langflottast 🙂 Ég fer líka alltaf í banastuð að heyra In my dreams með Wig wam, norsku glys sveitinni sem keppti 2005, þið getið séð það hér: https://www.youtube.com/watch?v=qh7hiaq0aWU og franska lagið síðan 2010, það hefur af og til dottið inn á ræktar playlistann minn: https://www.youtube.com/watch?v=cqpFUVAEhn8.
Við ætlum eyða kvöldinu með vinum og búa til Eurovision pizzu. Spelt pizza a la Ebba Guðný og svo eitthvað gotterí á eftir.
Hér er nammið sem við mæðgurnar vorum að dunda okkur við í gær, ég ætlaði að vera búin að setja þetta inn í gær en stundum vinnur tíminn ekki með mér. En þetta hefur sennilega tekið okkur um 20 mín og svo sá ískápurinn um rest.
Því miður er þetta ekki mjólkurlaust nammi en mín börn þola þetta samt í litlum skömmtum (verður allskonar annað á boðstólnum).
Karamellustykki
- 1 dl smjör
- 1 dl hlynsýróp (má alveg nota hrásykur eða kókospálmasykur líka)
- 2 dl rjómi
- örlítið salt
- 1/3 teskeið af hreinu vanilludufti
- 3 dl hrísflögur (fæst í Sollu hillunni í Bónus)
- 2 dl saxaðar pekan hnetur eða möndlur
- 0,5 dl sesamfræ
- 0,5 dl sólblómafræ (má líka setja kókosflögur eða mórber)
ofan á: 100 g dökkt súkkulaði eða heimatilbúið (uppskrift að neðan)
Aðferð:
Setjið smjör, rjóma og hlynsýróp í pott og leyfið því að malla þangað til karamellan hefur tekið á sig mynd. Hún þarf að verða vel seig. Ef þið dragið sleifina eftir botninum þarf að koma gott far. Þetta getur tekið góðan tíma og ágætt að hafa aðstoðarmann með sér til að sjá um að hræra, eða leysa aðeins af.
Blandið hnetunum og hrísflögunum saman í skál. Þið getið í raun notað hvað sem er til í skápnum hjá ykkur, ég hef stundum sett stökkt múslí en það verður aðeins þyngra. Ég er nýbúin að uppgvöta það að nota hrísflögurnar frá Sollu og það er rosa gott. Svipað og rice crispies, auðvitað aðeins dýrara en það eru bara 2 innihaldsefni (hrísgrjón og hrásykur) en ekki allskonar úrval af aukaefnum.
Blandið karamellunni saman við hnetu/hrís blönduna.
Setjið í mót eða mótið á böknuarpappír.
Bræðið súkkulaðið eða gerið ykkar eigið og hellið yfir.
Kælið, best að skella í frystinn í 20 mín og skerið í bita.
Skerið í litla bita og geymið þar sem enginn sér.
Mmmmmmm nammi namm 🙂
Heimatilbúið súkkulaði:
- 5 msk kakósmjör
- 5 msk kókosolía
- 3 msk hlynsýróp
- 4 msk kakó
Kakósmjörið brætt við lágan hita, hellt í skál, kókosolían brædd og hellt í skálina. Hlynsýrópi og kakói bætt saman við og hrært vel þangað til áferðin er flott.
Góða skemmtun í kvöld og vonandi gengur vel hjá okkur mönnum úti í Köben 🙂
[…] Karamellustykki – Eurovision […]