Við létum loksins verða af því að kíkja í nýju ísbúðina Joylato um síðustu helgi. Frá því að ég sá hana fyrst auglýsta er ég búin að vera á leiðinni. En já, loksins kom gott tækifæri, bongoblíða (eða kannski meira svona frost og blíða), við skelltum okkur í bíltúr, allt gamalt brauð hreinsað úr frystinum og tekinn smá göngutúr í kringum lækinn og gefið öndunum. Ræddum einmitt um það af hverju maður gefi öndunum brauð, ég meina af hverju ekki bara grænkál frekar, þegar þær eru svangar á sumrin éta þær væntanlega grænan sjávargróður og fleira sem vex, þær skreppa ekki í bakaríið! En nóg um það, þær virtust bara nokkuð saddar og glaðar með þetta fóður.
Ísbúðin er sú eina sinnar tegundar hér á Íslandi og gaman að prófa eitthvað alveg nýtt. Hægt er að fá kókossís eða ís úr ógerilsneiddri nýmjólk frá Erpsstöðum. Bara það að fá ís er ákveðið sjónarspil, hráefnið sem er fljótandi er hellt í hrærivélaskál og svo er notað köfnunarefni til að frysta ísinn. Þið sem eruð ekki búin að fara ættuð eiginlega bara að skella ykkur til að skilja hvað ég meina. Ef ég hefði verið aðeins fyrirhyggjusamari hefði ég jafnvel tekið upp myndskeið, en ég var bara svo forvitinn að fylgjast með að ég áttaði mig ekki á því.
Ísinn var virkilega bragðgóður, við fengum okkur öll kókosgrunn, við smökkuðum bláberjaís, saltkaramellu og súkkulaði og ég held að súkkulaðiísinn hafi haft vinninginn að mínu mati. Þessi ís er aðeins dýrari en annar ís en á móti kemur að öllum leið dásamlega vel í magnum á eftir sem er ekki alltaf hægt að segja.
Þetta var klárlega fyrsta ferðin af mörgum,
Lækurinn dásamlegi í Firðinum fagra…
Svo var kíkt í ísbúðina…
Kannski er betra að láta fylgja með hvar ísbúðin er staðsett. En hún er staðsett í Mamma veit best, Laufbrekku 30, Kópavogi. Þið getið kíkt á heimasíðuna http://joylato.is/
Takk fyrir að bjóða upp á svona frábæran ís og við komum klárlega aftur 🙂
(Ath. þessi póstur er ekki auglýsing bara okkar upplifun 🙂
Published by