Salthnetu- karamellu ÆÐI kökubitar

Þið trúið ekki hvað eru margar uppskriftir sem hafa safnast upp í sumar, súpur og salöt, meðlæti, kökur, drykkir.   Það hefur bara vantað tímann til að setjast niður og hamra þær inn.  Ég er bara búin að vera of upptekin við að það að njóta sumarsins og svo seinnihluta sumars í framkvæmdum.  En nú er skólinn byrjaður, sólardögum fer fækkandi, börnin farin að sofa á skynsamlegum tíma og þá verður vonandi tími til að koma blessuðum uppskriftunum á blað.  Þær eru svo margar en er ekki best að byrja á þeirri mest djúsí?

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Þessir kökubitar urðu til eftir sumarfrí þegar ég var búin að hafa það aðeins of náðugt í með öllu tilheyrandi og þurfti aðeins að trappa sumarsukkið niður.  Kökubitar sem voru aðeins meira spennandi en kókoskúlur en töluvert hollari en önnur munaðarvara sem fékk að fljóta með í sumarfríinu.

Botn:

 • 3 dl pekan hnetur
 • 3 dl kókosmjöl
 • 3 dl döðlur
 • 3-5 msk kakó
 • 2 msk expresso kaffi (eða vatn)
 • örítið hreint vanilluduft og salt

Karamella:

 • 5 msk kókosolía
 • 5 msk kókosmjólk (hér má að sjálfsögðu líka nota rjóma)
 • 4 msk kókossykur
 • örlítið hreint vanilluduft og salt

Efsta lag:

 • 3-4 lúkur af salthnetum (magn eftir smekk)
 • ca. 20-30 g 70 % súkkulaði (ca. 2 lengur = 8 bitar)

Þetta lítur kannski út fyrir að vera vesen en trúið þið mér, það er alveg þess virði…fyrir utan að það lítur örugglega út fyrir að vera meira vesen en það er.

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Aðferð:

Best er að byrja á karamellunni.  Hún þarf svolítið langan tíma til að verða stökk og þessvegna er ágætt að leyfa henni að malla á meðan við búum til botninn.  Setjið allt hráefni í pott og komið upp suðu.  Leyfið karamellunni að sjóða rólega og passið að hún brenni ekki við.  Kannski er sjóða ekki rétta orðið, malla hressilega er sennilega betra.  Hún þarf að verða mjög seig, þannig að þið skuluð bíða þangað til hún er orðin létt freyðandi.  Ef þið takið pottinn of snemma af verður hún klístruð og erfitt að skera bitana niður.  Þetta er yfirleitt að taka um 15 mínútur og því flott að standa við hliðina á pottinum þegar þið búið til botninn.

Næst gerum við botninn, best er að nota matvinnsluvél eða kraftmikinn blandara.  Byrjið á því að mala hneturnar, bætið kókosmjóli, kakó, salti og vanillu sfaman við.  Að lokum bætið svo döðlunum saman við smátt og smátt.  Ef matvinnsluvélin er ekki kraftmikil er góð hugmynd að nota fersku döðlurnar sem fást í pappakassa og eru geymdar í kæli frekar en þær þurrkuðu.

Finnið gott form sem þið ætlið að nota, klæðið það með bökunarpappír og fletjið deigið út. Deigið á ekki að vera  of blautt.  (Ég notaði þurrkaðar döðlur svo kannski er óþarfi að bæta við vatni/kaffi ef þið notið ferskar döðlur.)  Það á að vera þannig að það sé mjög auðvelt að móta það en á ekki að festast við hendurnar.

Hellið karamellunni yfir botninn.

Dreifið salthnetunum yfir karamelluna.

Saxið súkkulaðið niður og stráið yfir (best að gera það meðan karamellan er heit því þá bráðnar súkkulaðið).

Setjið mótið í frysti í u.þ.b. 30 mínútur.  Takið út og skerið í bita.

Geymið í frysti eða kæli og njótið í botn 🙂

 

Þetta er að sjálfsögðu nammi og skal borðast í hófi.  En málið er að maður verður bara þræl saddur og ekki hægt að borða endalaust af því.  Heilmikil næring er líka í hverjum bita sem gerir þetta nammi betri kost en það sem fæst í nammihillunum.

Góða helgi….ég er farin í berjamó 🙂

Salthnetukaramelluæðikökubitar

Published by

Leave a Reply