Saltkaramellu-lakkrís kökubitar

Hvað segið þið um sjúklega gott nammi sem er líka stútfullt af næringu.  Hvernig væri að græja svona fyrir næstu helgi til að njóta og leyfa sér en fá orku og kraft um leið 🙂  

 

Hráefni:

Botn: 

 • 1,5 dl mjúkar döðlur
 • 1 dl kókosmjöl
 • 1,5 dl möndlur
 • Örlítið vanilluduft eða vanilludropar og salt til að bragðbæta
 • 1 msk fínt lakkrísduft – ég nota frá Johan Bulow sem fæst í Epal 

Karamellulag:

 • 1 dl kókosmjólk (þykk úr dós – ekki drykkjarkókosmjólk)
 • 1-2 msk kókosolía eða smjör
 • 0,5 dl hlynsýróp
 • 0,5 dl kókospálmasykur
 • saltflögur og vanilluduft eftir smekk

Efsta lag: 

 • 1/ 2 dl saxaðar möndlur
 • 30-40g 70 % súkkulaði
 • Ef þið eigið til gróft lakkrísduft frá Johan Bulow (svolítið eins og danskur lakkrís á bragðið)  þá er frábær hugmynd að strá því yfir í lokin – en það þarf ekki.

 

AÐFERÐ:

 1. Byrjið á því að rista möndlur (2 dl – bæði það sem fer í botninn og ofan á kökuna) í ofni.  Það er gert með því að setja þær á ofnplötu inn í 150°c heitan ofn í 15 mín.  Þetta er ekki nauðsynlegt en þær verða mun bragðbetri.
 2. Setjið allt hráefni fyrir kökubotninn í matvinnsluvél og vinnið vel.
 3. Setjið botninn í kökumót (fínt að nota bökunarpappír í botninn)
 4. Búið karamelluna til: Sjóðið saman í potti þangað til hún er orðin seig og freyðandi.  Þetta krefst þolinmæði, ekki flýta ykkur of mikið, við viljum að karamellan verði svolítið stökk þess vegna þurfum við að bíða þangað til hún er orðin vel seig.  Það er gott að hafa bara lágan hita og leyfa henni að þykkna vel án þess að hafa áhyggjur af því að hún brenni við. (Ath. Það er góð hugmynd að bræða súkkulaðið í rólegheitunum meðan þið bíðið eftir að karamellan verði klár). 
 5. Hellið karamellunni yfir kökuna. 
 6. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellið yfir karamelluna og skreytið með söxuðum möndlum.  (Ath. ekki leyfa karamellunni að kólna of mikið áður en þið hellið súkkulaðinu yfir því þá getið þið lent í því að súkkulaðið og möndlurnar liggji laust ofan á karamellunni – við viljum leyfa þessu að harðna saman. 
 7. Kælið í ca. 30-60 mín, skerið í bita og njótið.

Geymast vel í loftþéttu boxi í frysti – ef þeir eru ekki kláraðir strax !

Uppskriftina er að finna ásamt fleirum í rafbókinni „Næringarríkt nammi“ sem fæst hér: https://heilsumamman.teachable.com/p/naeringarrikt-nammi

Einnig eru ennþá 4-5 laus sæti nammi námskeiðið mánudaginn 8.apríl nk. Skráning hér: https://heilsuborg.is/shop/nammi/

Njótið vel og njótið dagsins 🙂

Oddrún

 

Published by

Leave a Reply