Kanil latte

Mig langar að deila með ykkur einni uppáhalds uppskrift. Ég hef reglulega búið mér til svona drykki síðustu 2-3 árin. Þegar ég hef tekið kaffilaus tímabil kemur þessi drykkur sterkur inn. Kanil latte er fjarskyld frænka kaffisins og kemur óvart hvað það leysir kaffið vel af. Ég tók 12 kaffilausa daga og það kom skemmtilega á óvart hvað ég svaf betur og annað sem ég fann var að mér fannst ég skýrari í hausnum. En ég drekk nú ekki mikið kaffi, 2 bolla á dag og mest 3 ef þannig stendur á. Þetta kom mér á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég fékk mér svo kaffi um helgina, sitthvorn bollan á laugardag og sunnudag en svo tók kanil latte drykkurinn við virku dagana. Spurning hversu lengi ég get haldið þessu ? Kaffið er jú mjög ávanabindandi og auðvelt að “falla” aftur 😉

En hvort sem þið viljið taka kaffi pásu eða drekka minna kaffi eða kannski drekkið þið bara ekki kaffi yfirhöfuð þá er þessi drykkur algert æði 🙂

Innihald:

Te – gott te ég nota oft sweet chai eða Classic frá Yogi tea – látið standa í 7 mín

1 msk collagen (val)

1 tsk möndlusmjör

1 tsk kakósmjör

1/2 tsk kanill Ceylon

1/4 tsk negull en líka gott að nota Allra handa ef þið eigið það til

Örlítið cayenne pipar og salt (aðeins til að kveikja í manni á morgnana)

Aðferð:

Þegar teið hefur staðið í 7-8 mínútur setjið þið allt í blandarann og blandið vel í 30-40 sek.

Hellið í fallegan bolla (nauðsynlegt) og njótið

Nokkur atriði um innihaldsefnin:

Kanill og negull hafa heilmikil góð áhrif á kroppinn en passið það nota Ceylon kanil en ekki þennan venjulega. Þessi venjulegi er ekki góður í miklu magni og hægt að lesa um það hér!

Kanill hefur líka góð áhrif á sykurlöngun og því sniðugt að fá sér drykkinn seinnipartinn ef sykurlöngin kemur yfir ykkur.

Kakósmjörinu bætti ég við eftir að ég lærði það hjá Ásdísi grasalækni hversu góð fitan í kakósmjörinu er fyrir hormónakerfið og það er jú eitthvað sem við viljum hafa í lagi 🙂

Cayenne piparinn er í uppskriftinni þar sem hann gefur drykknum ákveðið “kick” en Cayenne pipar er talin hafa góð áhrif á meltinguna og getur aukið brennsluna.

Collagen hefur góð áhrif á bein, stoðkerfi, neglur, hár, meltingu og fleira. Collagen er prótein svo með því að bæta því við drykkinn er hann orðin próteinríkur.

Published by

Leave a Reply