Súkkulaði-hnetukaka með súkkulaði-bananakremi

Það sem er svo yndislegt við hrákökur er það er hægt að útbúa þær á örskotstundu þar sem það þarf ekki að baka þær.  Í síðustu viku fengum við mæðgunar góða gesti eftir leikskóla og ég átti bókstaflega EKKERT til að bjóða upp á og ætlaði að fara að bretta upp ermarnar og fara að baka en þar sem ég var eiginlega orðin alltof sein skellti ég í eina hráköku.  Eftir 15 mínútur var kakan tilbúin.  Mér finnst það svo dásamlegt að getað fengið mér svona köku og veit að um leið er ég að næra líkamann með hrikalega góðri næringu. Semsagt bara tóm hamingja og skemmtilegt að lífga upp á hversdagsleikann með þessum hætti 🙂

Hrákaka

Þetta er sami botninn og ég gerði þegar ég gerði Súkkulaðisælu með mangó-og hindberjum en í þetta sinn átti ég ekki mangó en viti menn ég átti einmitt fallegt og þroskað avacado sem breytti sér í dýrindis súkkulaðikrem 🙂

Botninn:

 • 1 bolli valhnetur
 • 1 bolli cashewhnetur/ pecanhnetur
 • 1/4 – 1/2  bolli hreint kakó (eftir því hversu dökkan þið viljið hafa botninn)
 • 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í smástund svo verði mjúkar)
 • Smá salt (himalayja eða sjávarsalt)
 • Smá vanilla

Hneturnar settar í matvinnsluvél  og malaðar, kakóinu bætt við og svo einni og einni döðlu í einu.  Að lokum  vanillu og salti.  Sett á disk, mótaður hringur og sett inn í frysti meðan kremið er gert.

Ef þið eigið ekki matvinnsluvél má mala hneturnar í lítilli matvinnsluvél (svona chopper sem fylgir oft með töfrasprotum) og mauka döðlurnar með töfrasprotanum og blanda að lokum öllu saman.

Hrákaka

Kremið:

 • 1 þroskað avacado
 • 1 þroskaður banani
 • 2-3 msk hreint kakó
 • 1-2 msk kókosolía
 • 2 msk einhver góð sæta (hunang, agave, hlynsýróp)
 • smá vanilla

Allt sett í skál og unnið með töfrasprota þangað til slétt og fallegt.  Smakkið til og breytið eftir smekk, meira kakó eða meiri sæta, smá salt, bara finna það sem ykkur finnst gott 🙂

Hrákaka

Setjið kremið á kökuna og inn í frysti/ísskáp í smá stund.

Hrákaka

Svo er bara að finna eitthvað til að skreyta með, ég fann nokkur frosin hindber og kókosflögur.

hrákaka

Þetta er fínasta seinnipartskaka, fínasti desert og góð ef sykurþörfin er að fara með fólkið yfir sjónvarpinu, bara við öll tækifæri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Bounty-barinn sem breytti um lífstíl

Þessi kaka/nammi sló algerlega í gegn á mínu heimili um síðustu helgi. Ég bjó hana til áður en við fórum í veislu til þess að óþols-pían mín gæti fengið sér eitthvað mjög gott.  Hún smakkaðist líka einstaklega vel með kaffibollanum síðastliðin sunnudagsmorgun, vínarbrauð hvað ?   Þetta minnir heilmikið á Bounty nema bara aðeins pínu smá hollara 🙂

Bounty-bar

Botninn:

 • 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í ca 20 mín svo verði mjúkar)
 • Vatn, eins lítið og þarf til að mauka döðlurnar
 • 3 bollar kókosmjöl
 • 1/4 bolli kókosolía (við stofuhita)
 • 1/2 bolli malaðar kasjúhnétur
 • 1 tsk vanilla
 • smá salt
 • 3-4 msk kókospálmasykur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að búa til döðlumauk, blandið saman vatninu og döðlunum í matvinnsluvél, í mini-matvinnsluvél, með töfrasprota eða blandara, bara það sem ykkur finnst þægilegast. Reynið að nota eins lítið vatn og þið komist af með svo kakan verði ekki of blaut.
 2. Maukið Kasjúhneturnar (ég nota mjög mikið mini-matvinnsluvél í svona verk).
 3. Blandið öllu saman við döðlumaukið og vinnið vel saman. Setjið deigið á bökunarpappír og kælið.
 4. Bræðið  ca 150 gr af 70 % súkkulaði eða búið til ykkar eigið súkkulaði og setjið yfir kökuna.  Ef þið bræðið súkkulaði borgar sig að setja 1-2 msk af kókosolíu út í svo það verði ekki of hart og verði erfitt að skera í litla bita.

döðlumauk

Döðlumaukið búið til – mjög fljótlegt með töfrasprotanum

Bounty-bar

Það er hægt að gera eina stóra köku eða lengur (þá þarf meira súkkulaði til að hjúpa), í upphaflegu uppskriftinni býr hún til kúlur og dýfir þeim í súkkulaði, ég gaf mér ekki tíma í það í þetta skiptið og ekki viss um að ég hafi þolinmæði í það hvort sem er 🙂

Bounty-bar

Hér fann ég þessa uppskrift, það eina sem ég breytti var að setja meira af kasjúhnetum og bætti við 3-4 msk af kókospálmasykri.

Bætt við síðar:

Ég hef gert þetta nammi nokkrum sinnum undanfarið og fyrstu skiptin gerði ég það samkvæmt uppskrift, samviskusamlega.  En undanfarið hef ég gert það öðruvísi þ.e.a.s. sett kókosmjöl, malaðar hnetur, kókossykurinn, vanillu og salt í matvinnsluvél og blandað saman, sett svo eina og eina döðlu út í (búnar að liggja í bleyti áður) og unnið vel ásamt kókosolíunni. (Sleppi því að búa til döðlumauk).

Með því að gera þetta svona verður kakan/nammið miklu stökkara þar sem ekkert vatn er lengur í uppskriftinni.

IMG_2878

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaðisæla með mangó og hindberjum

Hvað á til bragðs að taka þegar klukkan er orðin fjögur á sunnudegi, sykurþörfin alveg að fara með mann og eitthvað lítið til í kotinu?  Síðasta sunnudag fór eiginmaðurinn í Bónus til að kaupa kaffi og bauðst til þess að koma við í bakaríinu en ég sannfærði hann (að lokum) um það að ég væri jafnfljót að búa til eitthvað gott (og hollt) og hann að fara út í búð.  Útkoman varð súkkulaðikaka með mangó/hindberja kremi.  Þetta var eiginlega samsuða úr 2 áttum með eigin útfærslu og já tók ekki nema  uþb. 15 mín.  Þetta er bara hrein og klár hollusta og gleði fyrir kroppinn.  Hún sló í gegn hjá barnaskaranum og ég get ekki beðið eftir næsta sunnudegi til að gera hana aftur 🙂

Botninn:

 • ½ bolli valhnetur
 • ½ bolli cashewhnetur
 • ½ bolli hreint kakó
 • 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í smástund svo verði mjúkar)
 • Smá salt (himalayja eða sjávarsalt)
 • Smá vanilla
 • 1-2 tsk kókosolía (mjúk)
 • 1 msk hunang

Aðferð:

 1. Hneturnar settar í matvinnsluvél  og malaðar, kakóinu bætt við og svo einni og einni döðlu í einu.
 2. Að lokum kókosolíu og hunangi, ásamt vanillu og salti.
 3. Sett í mót, klæddu með bökunarpappír og þrýst niður.

Kremið:

 • 1/2 þroskað og safaríkt mango
 • 0,75 dl frosin hindber
 • 1 msk hunang
 • Smá vanilla

Sett í blandara eða mini matreiðsluvélina og maukað saman.  Smurt yfir kökuna.

Ofan á:

 • 0,75 dl frosin hindber
 • ½ mango, saxað niður
 • 25 gr 70 % súkkulaði saxað
 • Handfylli af kókosflögum

hrákaka

hrákaka

Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að þessi sæla bragðast sérstaklega vel með smá rjómaslettu.

hrákaka

Pecan-súkkulaði hrákaka

Þessi er alveg geggjuð.  Þvílíkur súkkulaði draumur.  Uppskriftina klippti ég út úr blaði frá Maður Lifandi en breytti uppskriftinni reyndar pínu lítið, auk þess að bæta við einu lagi af súkkulaði  🙂  Ég gef ykkur útgáfuna eins og ég hef gert hana.

Botninn:

 • 200 gr pecan hnetur
 • 50 gr heslihnetur
 • 180 gr döðlur
 • 80 gr kókosmjöl
 • 60 ml kókosolía
 • 20 gr kakóduft
 • smá sjávarsalt

Allt sett í matvinnluvél og unnið vel, sett í form og kælt.

Fylling:

 • 250 gr Kasjúhnétur  (lagðar í bleyti í 4-6 klst og vatninu svo hellt af)
 • 85 gr kakóduft
 • 100 ml agavesýróp
 • 120 gr kókosolía
 • 1 tsk vanilluduft
 • Vatn,  100- 250 ml (eins lítið og þið komist af með, fer eftir blandaranum)

Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt.  Hellt ofan á botninn og sett í frysti.

Ofan á:  (þarf ekki en er alveg rosalega gott)

 • 1-1,5 dl kakó
 • 1 dl agave
 • 1 dl kókosolía
 • 1 dl kakósmjör
 • smá vanilla
 • örlítil himalayjasalt

Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði, bætið öllu saman við og hrærið vel.  Smyrjið ofan á kökuna og kælið.

pecan súkkulaði hrákaka

Ég ákvað að bæta við fleiri myndum af þessari yndislegu köku, er búin að baka hana 2x núna með stuttu millibili og það sem mér þykir hún góð 🙂   Þegar þessar myndir voru teknar, setti ég ekki súkkulaði lagið ofan á, heldur brytjaði niður fullt af ávöxtum og setti svo örlítið brætt súkkulaði ofan á.

súkkulaðihrákaka

Botninn mótaður ofan á bökunarpappír.

IMG_3128

Fyllingunni hellt ofan í og stungið í ísskáp eða frysti.

IMG_3153

Skreytt með ávöxtum af eigin vali.

IMG_3154

Mmmmmmmm…nammi namm 🙂

IMG_3161

Verði ykkur að góðu 🙂