Vinsælustu uppskriftir ársins 2013

Góðan daginn gott fólk og takk fyrir samfylgdina á gamla árinu,

Ég hef ekkert póstað síðustu vikur ársins, ég tók mér bara algert frí, frí frá internetinu, facebook, kúplaði mig bara út úr öllu og slakaði á með fjölskyldunni út í sveit í frið og ró,  hvíldi mig eftir mjög annasamar vikur og hlóð batteríin fyrir næstu törn.  Það var svo sannarlega notarlegt.

Ég var að taka saman vinsælustu uppskriftir ársins samkvæmt WordPress og hér kemur listinn:

Fyrstu tvö sætin eru reyndar ekki uppskriftir heldur póstarnir Mjólkuróþol eða ADHD og Sagan af Sindra sem fylgdi með í þeim pósti.  Þetta er vísbending um að ég ætti að skrifa meira um þessi mál, sem var jú alltaf tilgangurinn með þessu bloggi,  þ.e.a.s. þessi tengsl á milli mataræðis og hegðunar.  Fyrsta markmið 2014 er því hér með opinberað, amk. 1 póstur í mánuði þessu tengdu 🙂

3. sæti

Bounty barinn sem skipti um lífstíl – alveg skotheld nammi kaka, færsla sem var vinsælasta uppskrift síðasta árs og heldur sætinu sem vinsælasta uppskrift ársins 2013, klárlega sigurvegari hér á ferð.

IMG_2878

4. sæti

Snickerskaka –  Hrikalega góð hrákaka sem er stútfull af næringu en bræðir líka hörðustu nammigrísi.

IMG_4349

5. sæti

Súkkulaðikaka sem ekki þarf að baka –  Ein af vinsælustu kökunum hér á bæ, það er gaman að því að 3 vinsælustu uppskriftirnar skuli vera hrákökur.  Þessi kaka birtist í sunnudagsblaði morgunblaðisins sem var auðvitað bara mjög skemmtilegt.

IMG_4518

6.sæti

Sjötti vinsælasti pósturinn var heldur ekki uppskrift heldur samantekt sem ég skrifaði og hét 10 leiðir til að lækka matarreikninginn án þess að minnka hollustuna!  Sá pistill rataði inn á Smartlandið sem hefur örugglega áhrif á hversu oft hann var lesin.

7. sæti
Karamellurís (mjólkurlaus og glúteinlaus) – Eitt af vinsælusta namminu hér á síðunni, alltaf jafn gott en líka hægt að breyta og bæta að eigin vali til að hafa smá fjölbreytni.

IMG_2950

8. sæti

Laaaang besta döðlukakan – Alveg klassísk sunnudagskaka sem stendur alltaf fyrir sínu og gestir elska

Döðlukaka

9. sæti

Ódýr og einföld súkkulaðikaka–  Önnur sunnudagskaka sem stendur alltaf fyrir sínu.

IMG_3563

10. sæti

Stevíu súkkulaði – Súkkulaði án sykurs er auðvitað hvers  mans draumur.  Það er frábært að nota stevíu til að sæta því hún hefur ekki áhrif á blóðsykurinn en athugið að það bragðast þó ekki alveg eins og venjulegt sykursúkkulaði, það væri sennilega of gott til að vera satt  🙂

Stevíu-súkkulaði

Árið 2013 var einstaklega viðburðarríkt og skemmtilegt ár.  Í viðbót við vinsælustu uppskriftirnar ákvað ég að taka saman nokkra skemmtilega hluti tengda blogginu 🙂   Þeir koma í dagsetningarröð  en ekki eftir merkilegheitum….

Í apríl hélt ég mín fyrstu námskeið – eitthvað sem ég hefði nú bara hlegið af hefði einhver sagt mér það fyrir ári síðan, en maður á aldrei að segja aldrei 😉  Námskeiðin urðu fjöldamörg og skemmtileg og eru klárlega komin til að vera, nú er bara almennileg aðstða það eina sem mig vantar.

Í Júní útskrifaðist ég sem heilsumarkþjálfi frá IIN, ég er svo ánægð að hafa drifið mig í þennan skóla eftir að hafa spáð og spekúlerað mánuðum saman.  Spurði sjálfan mig hvort það væri praktískt eða hvort ég ætti frekar að læra meira varðandi bókhald – já ég held að maður eigi ekki alltaf að gera það sem er skynsamlegast heldur það sem manni langar mest og sjá hvar maður endar 😉

IMG_6114

Það var gaman að fá uppskriftir birtar í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Dv, Smartlandinu og sérstaklega skemmtilegt að vera beðin um uppskrift fyrir kökublað vikunnar sem kom út í Nóvember.

IMG_4573

Í nóvember og desember tókum við höndum saman, ég og Steinunn vinkona mín sem er heilsumarkþjálfi líka og vinnur hjá Heilsuhótelinu í Reykjanesbæ.  Við bjuggum til námskeið sem hét Sigraðu sykurpúkann og héldum það bæði í Lifandi Markaði og á Heilsuhótelinu.   Við blönduðum saman sýnikennslu hvernig hægt væri að útbúa hollara nammi og konfekt og fyrirlestri um sykurþörfina og blóðsykurinn.  Þetta var ótrúlega skemmtilegt og ég er viss um að þetta námskeið á ekki síður við núna eftir áramót og það gerði í nóvember og desember.  Aðsóknin var góð og ég er viss um að við stöllur erum ekki búnar að syngja okkur síðasta saman 🙂

Þegar við fórum að auglýsa námskeiðið og eftir námskeiðin var mikill áhugi fyrir uppskriftarheftinu sem við gáfum með, það voru margir sem komust ekki á námskeið en vildu gjarnan verða sér út um næringarríkar uppskriftir.  Það varð úr að heftið var selt á síðunni, kláraðist upp til agna en eins og með námskeiðið þá held ég að þetta hefti eigi ekki síður við núna eftir allar steikurnar og terturnar í desember og er ég farin að huga að næstu prentun.

Í nóvember ákvað ég í fyrsta skipti á ævinni að taka þátt í uppskriftarkeppni þegar Heilsuréttir fjölskyldunnar efndu til keppni og leituðu að bestu hollustu smákökunni.  Það er eitthvað sem mér hefur aldrei dottið í hug að gera en að var það var ánægjulegt að lenda í þriðja sæti og fara heim með fullt fangið af fallegum verðlaunum 🙂  Það sýnir manni enn og aftur að maður á aldrei að segja aldrei heldur bara hafa fulla trú á sjálfum sér 🙂

verðlaun Hafrakókoskaka með súkkulaði

Á  haustmánuðum fórum við hjónin með dótturina í endurmat í Þroska- og hegðunarstöð.   Það eru snillingar sem vinna þar og þar er virkilega gott að fá ráðleggingar og upplýsingar.   Í skýrslunni sem við fengum í hendur stendur ” Frá fyrri athugun hafa orðið töluverðar framfarir í hegðun og líðan.  Telpan sýnir minni mótþróa, fær sjaldnar reiðiköst og er með minni kvíða.  Það er almennt léttara yfir henni, hún er glaðari og öruggari með sig”  Þetta var ánægjuleg lesning og greinilegt að þessi vinna með mataræðið er að skila sér og hvatning til okkar til að halda því áfram.

Það er ýmislegt framundan árið 2014,  fleiri námskeið á döfinni, til dæmis er framhaldsnámskeið fyrir þá sem vilja læra ennþá meira um hollari mat búið að vera í undirbúningi, átti að byrja í nóvember en frestaðist út af nammi/sykur námskeiðinu okkar Steinunnar.  Við Steinunn höfum einnig fengið margar fyrirspurnir frá starfsmannafélögum um fyrirlestra og námskeið og verður það spennandi áskorun á nýju ári 🙂  Mig langar líka að hafa námskeið á Akureyri fljótlega vegna þess að það koma reglulegar fyrirspurnir þaðan og klárlega góð ástæða til að skreppa í heimsókn “heim” 🙂

Aðalmarkmiðið fyrir 2014 er auðvitað að vera hvetjandi fyrir alla sem vilja gefa mataræðinu meira athygli og líða betur á öllum aldri 🙂

Hlakka til að vera með ykkur á árinu 2014 🙂

Published by

Leave a Reply