Skólinn er byrjaður og allt að komast í rútínu. Ég sakna sumarsins en samt er eitthvað svo ágætt þegar allt fer aftur í reglu og kemst skipulag á allt. Eitt það dásamlegasta við haustið eru berin, blessuð berin, ég byrja bara að brosa við tilhugsunina um ber og berjamó 🙂 Því miður er ekki eins mikil berjaspretta eins og hefur oft verið en það eru þó komnir 20-25 litrar inn í frysti sem verður svo deilt samviskusamlega niður svo það endist fjölskyldunni yfir veturinn.
Ég vona innilega að þið hafið haft tök á því að tína eitthvað af berjum sem bíða núna í fyrstinum eftir drykkjum vetrarins.
Þessi drykkur er tilvalin morgundrykkur, í honum er ýmislegt sem er gott fyrir góða heilastarfsemi svo hann er sérstaklega góður fyrir skólakrakkana en auðvitað alla hina líka.
Hráefni:
(2 stórir drykkir eða 4 litlir)
- 2- 3 dl Bláber (helst frosin svo drykkurinn sé kaldur)
- 1 lúka Möndlur (búnar að liggja í bleyti yfir nótt)
- Nokkrar Valhnetur
- 1 Pera eða annar sætur ávöxtur t.d. banani eða epli
- 1 lítil eða hálft stórt avakadó
- 4-5 dl Vatn (má líka setja kókosmjólk, verður sætara og meiri fylling)
- 2 döðlur til að sæta eða 3-5 dropar af stevíu
- 2 msk hveitikím eða möluð hörfræ
Aðferð:
Allt sett í blandara og blandað vel saman, bætið hveitikíminu/hörfræjunum í alveg undir lokin.
Ef þið viljið gera drykki meira spennandi er sniðugt að setja þá í fín glös og/eða nota flott rör 🙂
Þesi drykkur er ekki bara góður fyrir skólafólk heldur líka fyrir skrímsli og ofurhetjur 😉
Verði ykkur að góðu 🙂
Published by